Opinberir starfsmenn. Skilyrði þess að kvörtun verði tekin til meðferðar. Starfslokasamningur.

(Mál nr. 11677/2022)

Kvartað var yfir uppsögn úr starfi hjá Seðlabanka Íslands.

Í ljósi undirritaðs samkomulags um starfslok og að engra skriflegra gagna naut við um uppsögn eða hótanir í tengslum við hana voru ekki forsendur til að leggja annað til grundvallar en starfslokin hefðu átt sér stað með löglegu samkomulagi og án þess að til uppsagnar hefði komið. Ef viðkomandi teldi atvik og aðdraganda starfslokanna hafa borið að með öðrum hætti væri eðlilegt að leita atbeina dómstóla til að leysa úr slíkum ágreiningi.

 

Umboðsmaður lauk málinu með bréfi, dags. 9. júní 2022, sem hljóðar svo:

 

Vísað er til kvörtunar yðar 5. maí sl. vegna starfsloka yðar við Seðla­banka Íslands og aðdraganda þeirra. Nánar tiltekið segir á for­síðu kvörtunarinnar að hún sé „vegna fyrirvaralausrar og til­efnis­lausrar uppsagnar úr starfi hjá Seðlabanka Íslands þann 17. maí 2021 í kjölfar eineltis hjá Fjármálaeftirlitinu frá 2015 og síðar Seðla­banka Íslands“.

Í 6. gr. laga nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis, er fjallað um skilyrði þess að kvörtun verði tekin til meðferðar. Samkvæmt 2. mgr. þessarar greinar skal bera kvörtun fram fram innan árs frá því er stjórn­sýslugerningur sá, er um ræðir, var til lykta leiddur. Af þessu leiðir að umboðsmaður tekur ekki til skoðunar ákvarðanir og samskipti sem áttu sér stað meira en ári áður en kvörtun yðar var móttekin.

Í kvörtuninni kemur fram að 17. maí 2021 hafi framkvæmdastjóri rekstrarsviðs Seðlabanka Íslands boðað yður til fundar við sig með skömmum fyrirvara og tilkynnt yður munnlega að vegna skipulags­breytinga yrði starf yðar lagt niður. Jafnframt hafi verið upplýst að yður stæði til boða að ganga frá samkomulagi um starfslok næsta dag. Í kvörtuninni er gerð nánari grein fyrir samskiptum yðar og framkvæmda­stjórans þar sem því er m.a. haldið fram að á fundinum hafi framkvæmda­stjórinn haft í hótunum við yður um afleiðingar þess að þér gengjuð ekki til slíks samkomulags. Í kvörtuninni er enn fremur vísað til þess fram fór á fundinum sem „uppsagnar“ og hafi hún byggst á ómálefnalegum sjónar­miðum.

Í málinu liggur fyrir samkomulag frá 18. maí 2021, undirritað af yður og seðlabankastjóra, um starfslok yðar við Seðlabanka Íslands. Fram kemur í kvörtun yðar að samkomulagið hafi verið undirritað á fundi yðar með seðlabankastjóra og fleiri yfirmönnum og hafi lögmaður yðar verið með yður á fundinum. Lagaheimild til þess að gera slíkt sam­komulag er að finna í 2. mgr. 39. gr. c laga nr. 70/1996, um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins. Þá verður ekki ráðið af samkomulaginu að einstök ákvæði þess fari í bága við þau réttindi sem lögum nr. 70/1996 er að öðru leyti ætlað að tryggja.

Í ljósi framangreinds og þess að engra skriflegra gagna nýtur við um uppsögn yðar úr starfi eða hótanir þar að lútandi hefur umboðs­maður ekki forsendur til að leggja annað til grundvallar en að starfs­lok yðar við Seðlabanka Íslands hafi átt sér stað með löglegu samkomu­lagi þar um og án þess að til uppsagnar af hálfu bankans kæmi. Í því efni skal þess getið að í téðu samkomulagi greinir m.a. að við undir­ritun þess látið þér að eigin ósk af starfi [...]og starfslokin séu gerð að ósk yðar og í sátt beggja aðila.

Teljið þér að atvik og samskipti í aðdraganda starfslokanna hafi borið að með öðrum hætti en lýst er í téðu samkomulagi þannig að í reynd hafi störfum yðar lokið með fyrirvaralausri uppsögn er eðlilegt að dómstólar leysi úr slíkum ágreiningi. Er það í samræmi við áralanga fram­kvæmd umboðsmanns Alþingis um að best fari á því að dómstólar útkljái álitaefni sem lúta að sönnunaratriðum enda er við úrlausn slíkra mála iðulega nauðsyn á frekari sönnunarfærslu, til að mynda aðila- og vitnaskýrslum. Vísast hér til c-liðar 2. mgr. 10. gr. laga nr. 85/1997 þar sem fram kemur að varði kvörtun réttarágreining sem á undir dómstóla og eðlilegt er að þeir leysi úr geti umboðsmaður lokið máli með ábendingu um það. Eins og ákvæðið ber með sér er þar gengið út frá ákveðinni verkaskiptingu milli umboðsmanns og dómstóla og að mál geti verið þannig vaxin að heppilegra sé að leyst verði úr þeim fyrir dómstólum. Ég tek þó fram að með þessu hef ég enga afstöðu tekið til þess hvort tilefni sé yður að bera málið undir dómstóla.

Með vísan til þess sem rakið er að framan er athugun minni á kvörtun yðar lokið, sbr. 1. mgr. 10. gr. laga nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis.