Opinberir starfsmenn. Skilyrði þess að kvörtun verði tekin til meðferðar.

(Mál nr. 11688/2022)

Kvartað var yfir að Háskólinn á Akureyri hefði ekki veitt starfsmanni heimild til að breyta nafni sínu í tölvupóstkerfi skólans.

Umboðsmaður benti viðkomandi á að leita með erindið til rektors skólans áður en lengra yrði haldið.

 

Umboðsmaður lauk málinu með bréfi, dags. 9. júní 2022, sem hljóðar svo:

 

Vísað er til kvörtunar yðar 10. maí sl. yfir því að Háskólinn á Akureyri hafi ekki veitt yður, sem starfsmanni skólans, heimild til þess að breyta nafni yðar í tölvupóstkerfi hans. Af kvörtun yðar verður ráðið að þér hafið beint munnlegum fyrirspurnum í þessa veru til m.a. kerfis­stjóra skólans.

Vegna kvörtunar yðar bendi ég yður á að rektor er yfirmaður stjórn­sýslu háskólans og æðsti fulltrúi hans gagnvart mönnum og stofnunum innan háskólans og utan hans. Hann stýrir starfsemi háskólans og ber ábyrgð á og hefur eftirlit með allri starfsemi skólans, sbr. 2. mgr. 8. gr. laga nr. 85/2008, um opinbera háskóla.

Ástæða þess að ég bendi yður á framangreint er sú að á meðal skil­yrða þess að umboðsmaður Alþingis taki mál til athugunar er að endanleg niðurstaða stjórnvalda í málinu liggi fyrir. Þetta leiðir af 3. mgr. 6. gr. laga nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis, og sjónarmiðum sem búa að baki því ákvæði um að stjórnvöld skuli sjálf fá tækifæri til að leiðrétta ákvarðanir eða annað í störfum sínum, sem hugsanlega er ekki í samræmi við lög, áður en leitað er til aðila utan stjórnkerfis þeirra með kvartanir. Þar sem ekki verður ráðið af kvörtun yðar að afstaða rektors liggi fyrir til athugasemda yðar og eftir atvikum annarra eininga skólans brestur lagaskilyrði til þess að kvörtun yðar verði tekin til frekari athugunar að svo stöddu.

Með vísan til framangreinds lýk ég umfjöllun minni um erindi yðar, sbr. 1. mgr. 10. gr. laga nr. 85/1997. Að fenginni endanlegri afstöðu háskólans til málsins getið þér leitað aftur til umboðsmanns með kvörtun teljið þér þá efni til þess.