Heilbrigðismál. Skilyrði þess að kvörtun verði tekin til meðferðar.

(Mál nr. 11689/2022)

Kvartað var yfir málsmeðferð og athöfnum embættis landlæknis og Persónuverndar á árunum 2017-2018 vegna erinda um afhendingu heilbrigðisstarfsmanns á upplýsingum sem bundnar hefðu verið trúnaði.

Þar sem meira en ár var liðið frá því að þessi stjórnsýslugerningur var til lykta leiddur voru ekki skilyrði til að umboðsmaður fjallaði um kvörtunina.

 

Umboðsmaður lauk málinu með bréfi, dags. 9. júní 2022, sem hljóðar svo:

 

Vísað er til kvörtunar yðar 10. maí sl. yfir m.a. málsmeðferð og athöfnum embættis landlæknis og Persónuverndar á árunum 2017-2018 vegna erinda yðar um afhendingu heilbrigðisstarfsmanns á upplýsingum sem voru bundnar trúnaði. Í því sambandi er einnig vísað til ábendingar yðar 7. maí sl.. 

Í 6. gr. laga nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis, er kveðið á um skilyrði þess að kvörtun verði tekin til meðferðar af hálfu umboðsmanns. Í 2. mgr. 6. gr. segir að kvörtun skuli berast innan árs frá því að stjórnsýslugerningur sá, er um ræðir, var til lykta leiddur. Í ljósi þess að kvörtun yðar lýtur að athöfnum sem áttu sér stað fyrir meira en ári síðan eru ekki skilyrði að lögum til að fjalla nánar um hana. Kvörtun af hálfu aðila sem berst utan árs­frests getur þó vakið athygli umboðsmanns á vandamáli. Er honum þá heimilt að taka upp mál að eigin frumkvæði, sbr. 5. gr. laga nr. 85/1997, eins og nánar er vikið að í svari starfsmanns umboðsmanns við ábendingu yðar 10. maí sl. 

Með hliðsjón af framangreindu og með vísan til 1. mgr. 10. gr. laga nr. 85/1997 lýk ég hér með umfjöllun minni vegna kvörtunar yðar.