Almannatryggingar. Skilyrði þess að kvörtun verði tekin til meðferðar.

(Mál nr. 11710/2022)

Kvartað var yfir Tryggingastofnun og kostnaði sem hlýst af greiðslum stofnunarinnar inn á erlendan bankareikning og féllu á viðkomandi.

Ekki varð ráðið að athugasemdunum hefði verið komið á framfæri við Tryggingastofnun og nánari skýringar hennar fengnar eða eftir atvikum afstaða félags- og vinnumarkaðsráðuneytisins vegna þessa. Þar með voru ekki skilyrði til að umboðsmaður tæki kvörtunina til frekari meðferðar. 

 

Umboðsmaður lauk málinu með bréfi, dags. 9. júní 2022, sem hljóðar svo:

 

Vísað er til kvörtunar yðar 1. júní sl. sem beinist að Tryggingastofnun og lýtur að kostnaði sem hlýst af greiðslum stofnunarinnar á grunni laga nr. 100/2007, um almannatryggingar, inn á erlendan bankareikning yðar og fellur á yður.

Af kvörtun yðar verður ekki ráðið að þér hafið komið athugasemdum yðar um ofangreint fyrirkomulag við millifærslur greiðslna af hálfu Tryggingastofnunar á erlenda bankareikninga á framfæri við stofnunina og fengið nánari skýringar hennar eða eftir atvikum afstöðu félags- og vinnumarkaðsráðuneytisins vegna þessa atriðis, en samkvæmt 8. gr. fyrr­greindra laga fer félags- og vinnumarkaðsráðherra með yfirstjórn Tryggingastofnunar.

Af ákvæðum laga nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis, leiðir að hann fjallar að jafnaði ekki um mál fyrr en afstaða viðkomandi stjórn­valds til málsins liggur fyrir. Af þeim sökum, svo og þar sem kvörtunin lýtur að almennri framkvæmd Tryggingastofnunar, eru ekki uppfyllt skilyrði laga nr. 85/1997 til að taka kvörtun yðar til frekari með­ferðar að svo stöddu.

Með hliðsjón af framangreindu og með vísan til 1. mgr. 10. gr. laga nr. 85/1997 lýk ég umfjöllun minni vegna kvörtunar yðar.