Opinberir starfsmenn. Siðanefnd.

(Mál nr. 11662/2022)

Kvartað var yfir því að rektor Háskóla Íslands hefði haft ólögmæt afskipti af máli siðanefndar skólans og því verið vanhæfur til að tilnefna formann nefndarinnar eftir að nefndarmenn höfðu sagt af sér. Þá laut kvörtunin einnig að frávísun nefndarinnar á erindi.

Að virtri stöðu rektors innan háskólans, skv. lögum um opinbera háskóla o.fl., taldi settur umboðsmaður ekki efni til að álykta að rektor hefði haft ólögmæt afskipti af störfum siðanefndarinnar við meðferð málsins. Af því leiddi jafnframt að hann hefði ekki verið vanhæfur til að tilnefna nýjan formann nefndarinnar. Hvað frávísun nefndarinnar snerti taldi settur umboðsmaður að atvik málsins gæfu ekki tilefni til athugasemda þar að lútandi.

 

Settur umboðsmaður lauk málinu með bréfi, dags. 6. júlí 2022, sem hljóðar svo:

 

I

Vísað er til kvörtunar yðar 20. apríl sl. fyrir hönd A yfir því að rektor Háskóla Íslands hafi haft ólögmæt af­skipti af máli siðanefndar háskólans nr. 4/2021 og hann hafi af þeim sökum verið vanhæfur til að tilnefna formann nefndarinnar eftir að nefndarmenn sögðu af sér 7. febrúar sl. Kvörtunin lýtur einnig að þeirri ákvörðun nefndarinnar 11. apríl sl. í máli nr. 4/2021 að vísa frá erindi A um að B hefði með tilgreindu riti brotið í bága við siðareglur háskólans. Sú niðurstaða byggðist á því að það félli ekki undir valdsvið nefndarinnar að fjalla um verk B þar sem hann væri í launalausu leyfi frá störfum við háskólann og hefði ekki sinnt kennslu eða komið að starfi hans með öðrum hætti í leyfinu.

Um ólögmæt afskipti rektors af málinu er meðal annars vísað til þess í kvörtun yðar að hann hafi við meðferð málsins aflað lög­fræðilegrar álitsgerðar um gildissvið siðareglna háskólans eftir að siða­nefndin hafði ákveðið að taka það til efnislegrar meðferðar. Enn fremur hafi rektor lýst yfir afstöðu sinni til þess hvort málið félli undir valdsvið siðanefndar­ í bréfi til B. Athuga­semdir yðar við frávísun nefndar­innar beinast einkum að þeirri afstöðu hennar að ekki sé „virkt ráðningar­samband“ milli B og háskólans, auk þess sem þér færið rök fyrir því að siðareglurnar gildi um þá starfs­menn sem eru í launa­lausu leyfi frá störfum við háskólann og að B líti sjálfur á sig sem háskólaborgara og akademískan starfsmann hans.

Gögn málsins bárust 6. maí sl. frá siðanefnd Háskóla Íslands.

 

II

A beindi erindi til siðanefndar Háskóla Íslands 8. desember sl. sem laut að því að B hefði með útgáfu bókarinnar [...] á sama ári brotið í bága við tilgreind ákvæði siðareglna háskólans með því að nota efni úr tveimur bókum sínum án þess að þeirra væri getið sem heimilda. Í framhaldi af því að nefndin upplýsti B um erindið óskaði hann eftir að rökstutt yrði á hvaða grundvelli nefndin teldi sér heimilt að fjalla um málið. Af því tilefni sagði í bréfi nefndarinnar 20. desember sl. að „virkt ráðningarsamband“ væri milli hans og háskólans.

Með bréfi til siðanefndarinnar 30. sama mánaðar krafðist B þess að erindi A yrði vísað frá nefndinni. Sendi hann afrit af bréfinu til rektors sem í kjölfarið aflaði lögfræðilegrar álitsgerðar sem hann kom 4. janúar sl. á framfæri við þáverandi formann nefndar­innar með tölvubréfi. Í bréfi rektors sagði meðal annars að með vísan til röksemda í álitsgerðinni teldi hann rétt að taka „ekki sjálfur að svo stöddu afstöðu um gildissvið siðareglnanna, heldur sé það siða­nefndarinnar að taka sjálfstæða afstöðu um slíkt, á grundvelli sjálf­stæðs og hlutlægs fræðilegs mats og túlkunar hennar sjálfrar.“

Siðanefnd upplýsti B 27. janúar sl. um að hún hefði á fundi 21. sama mánaðar ákveðið að ekki væri ástæða til að vísa málinu frá. Degi síðar sendi B bréf til rektors þar sem rakið var að hann teldi sig knúinn, í ljósi framangreindrar afstöðu, að óska svara við því hvort rektor teldi virkt ráðningarsamband vera milli hans og háskólans. Í svarbréfi rektors 31. sama mánaðar sagði að umrætt ráðningarsamband væri ekki virkt. Rektor hefði því ekki stjórnunarheimildir gagnvart honum meðan á launalausu leyfi stæði og gæti því hvorki fjallað um mál sem beint væri að stofnuninni og vörðuðu hann né tekið ákvarðanir í slíkum málum. Sama dag sendi rektor þáverandi formanni siðanefndar afrit af bréfaskiptum sínum við B og óskað jafnframt eftir fundi með honum. Í ljósi svar­­bréfs rektors áréttaði B 1. febrúar sl. kröfu sína um frávísun málsins.

Á fundi siðanefndar 7. febrúar sl. ákváðu þáverandi nefndarmenn að segja af sér. Í yfirlýsingu um afsögn þeirra 10. sama mánaðar var um þá ákvörðun vísað til þess að trúnaðarbrestur hefði orðið milli nefndar­manna og rektors þar sem hann hefði lýst eigin skoðunum á málavöxtum í bréfi til B. Í kjölfarið voru nýir nefndarmenn, þar á meðal formaður hennar, skipaður af háskólaráði samkvæmt tilnefningu rektors, skipaðir frá 1. mars sl.

Með ákvörðun siðanefndar 11. apríl sl. var erindi A sem fyrr greinir vísað frá nefndinni. Í ákvörðuninni kom meðal annars eftirfarandi fram:

 

„Líkt og fyrr segir er það hlutverk siðanefndar að meta hvort erindi varði fyrst og fremst siðareglur. Eftir að hafa farið yfir öll gögn málsins er það mat siðanefndar, sérstaklega með vísan til fyrrgreinds lögfræðiálits, að verulegur vafi leiki á því hvort starfsmaður í launalausu leyfi frá störfum við Háskóla Íslands teljist til starfsfólks í skilningi formála og 1. gr. siðaregln­anna og falli þannig undir gildissvið þeirra. [B], sá sem kvörtun þín beinist að, hefur verið í launalausu leyfi að fullu frá árinu 2019. Samkvæmt upplýsingum sem siðanefnd hefur aflað hefur hann hvorki sinnt kennslu né komið að starfi Háskólans með öðrum hætti þann tíma sem leyfið hefur staðið yfir. Hann hefur því ekki verið í virku sambandi við Háskólann og hefur starfs­sambandið því að öllu leyti legið í dvala. Í ljósi málsatvika í þessu tiltekna máli er það niðurstaða siðanefndar að vísa málinu frá nefndinni, sbr. 1. og 4. gr. starfsreglna siðanefndar Háskóla Íslands.“

 

III

Í samræmi við 2. og 3. gr. laga nr. 63/2006, um háskóla, sbr. 1. gr. laga nr. 85/2008, um opinbera háskóla, er Háskóli Íslands sjálfstæð ríkisstofnun sem ræður skipulagi starfsemi sinnar og ákveður hvernig henni er best fyrir komið. Samkvæmt 2. mgr. 8. gr. laga nr. 85/2008 er rektor yfirmaður stjórnsýslu háskólans og æðsti fulltrúi hans gagnvart mönnum og stofnunum innan háskólans og utan hans. Hann stýrir starfsemi háskólans og hefur frumkvæði að því að háskólaráð marki sér heildar­stefnu í málefnum háskólans. Þá segir þar að rektor beri ábyrgð á, hafi eftirlit með allri starfsemi háskólans, þar með töldum ráðningar- og fjármálum einstakra skóla og stofnana, og fari með ákvörðunarvald í öllum málum háskólans á milli funda háskólaráðs.

Siðareglur Háskóla Íslands eru settar með stoð í 2. gr. a. laga nr. 63/2006. Í 1. mgr. greinarinnar kemur fram að háskólum sé skylt að virða fræðilegt sjálfstæði starfsmanna sinna. Fræðilegt sjálfstæði starfs­manna feli í sér rétt þeirra til að fjalla um kennslugrein sína á þann hátt sem þeir telji skynsamlegt og í samræmi við fræðilegar kröfur en dragi ekki úr ábyrgð starfsmanna á að fara að almennum starfsreglum og siðareglum viðkomandi háskóla. Viðfangsefni rannsókna og kennslu á einstökum fræða­sviðum háskóla skuli vera óháð afskiptum þeirra sem eigi skólann eða leggi honum til fé. Í 2. mgr. sömu greinar er kveðið á um að háskólar skuli setja sér siðareglur, meðal annars um réttindi og skyldur starfsmanna samkvæmt 1. mgr.

Í formála siðareglnanna segir að með skráningu þeirra séu fangaðir í orð helstu þættir þeirra siðferðilegu gilda og ábyrgðar sem eru sam­ofnir störfum og námi við Háskóla Íslands, í þeim tilgangi að hvetja og að­stoða starfsfólk hans og nemendur við að sinna verkefnum sínum á vandaðan og uppbyggilegan hátt. Síðar í formálanum er mælt fyrir um að siðareglunum sé ætlað að styðja við aðrar reglur um starfshætti og samskipti sem gildi innan háskólans og vera þeim til fyllingar. Siða­reglurnar séu viðmið um breytni allra háskólaborgara, nemenda og starfs­fólks, innan sem utan skólans, hvort sem þeir sinna akademískum störfum, öðrum störfum eða námi við háskólann.

Um viðbrögð við háttsemi og erindum er fjallað í 7. gr. siða­reglnanna. Þar er kveðið á um að verði starfsmaður, nemandi eða aðrir þess áskynja að tiltekin háttsemi stríði gegn reglunum, sé rétt að vekja athygli yfirmanns eða trúnaðarmanns á því eða vísa erindinu til siða­nefndar Háskóla Íslands. Þá segir þar að siðanefnd taki við erindum frá aðilum innan og utan háskólans, en taki ekki mál upp að eigin frumkvæði. Um störf siðanefndar kemur meðal annars fram í greininni að nefndin leggi mat á erindi sem henni berst og taki afstöðu til þess hvort það varði fyrst og fremst meint brot á siðareglum. Sé erindi þess eðlis að mati nefndarinnar að það varði fyrst og fremst aðrar reglur en siðareglur vísi hún því frá og leiðbeini um viðeigandi farveg innan skólans eftir eðli máls. Þá segir þar að formaður siðanefndar upplýsi rektor reglulega um störf nefndarinnar og að sé það álit hennar að siðareglur hafi verið brotnar vísi hún erindinu til rektors sem lögum samkvæmt grípi til viðeigandi ráðstafana. Nánar er mælt fyrir um störf siðanefndar í starfsreglum um hana, en þar kemur meðal annars fram að niðurstöður siðanefndar um hvort tiltekin háttsemi fari í bága við siðareglur sé endanleg.

 

IV

Samkvæmt framansögðu er ljóst að siðanefnd Háskóla Íslands, líkt og hún var skipuð áður en nefndarmenn sögðu af sér 7. febrúar sl., og rektor háskólans greindi á um hvort „virkt ráðningarsamband“ væri milli B og skólans. Þótt rektor hafi upplýst nefndina um afstöðu sína samkvæmt bréfi 31. janúar sl. og hafi áður komið á framfæri við hana lögfræðilegri álitsgerð sem hann hafði aflað um gildissvið siða­reglnanna verður ekki ráðið af fyrirliggjandi gögnum að hann hafi gefið nefndinni fyrirmæli um að vísa erindi A frá sér. Í stað þess að halda áfram meðferð málsins, svo sem nefndinni var heimilt, kusu þáverandi nefndarmenn að segja af sér vegna þess að rektor hafði, eins og áður segir, lýst annarri afstöðu en nefndin til ráðningarsambands B og háskólans.

Að virtri stöðu rektors innan háskólans samkvæmt fyrrgreindri 2. mgr. 8. gr. laga nr. 85/2008 tel ég í ljósi þess er að framan greinir ekki efni til að álykta að hann hafi haft ólögmæt afskipti af störfum siðanefndarinnar við meðferð máls nr. 4/2021. Af þessari niðurstöðu leiðir jafnframt að ég tel rektor ekki hafa verið vanhæfan til að tilnefna nýjan formann nefndarinnar.

Á grundvelli 5. mgr. 15. gr. laga nr. 85/2008 samþykkti háskólaráð 2. apríl 2009 verklagsreglur um launalaus leyfi starfsmanna Háskóla Íslands. Hvorki í þeim reglum né öðrum reglum háskólans er þó fjallað sérstaklega um réttarstöðu starfsmanns sem fær launalaust leyfi, þar á meðal hvort honum beri að fylgja siðareglum skólans meðan á leyfinu stendur. Í samræmi við almennar reglur verður þó að líta svo á ráðningar­samband rofni ekki sé starfsmanni veitt launalaust leyfi en gagnkvæmar skyldur hans og vinnuveitanda falli hins vegar að jafnaði niður meðan á leyfinu stendur, sbr. dóm Hæstaréttar 8. febrúar 2018 í máli nr. 77/2017 og dóm Landsréttar 31. janúar 2020 í máli nr. 923/2018.

Sem fyrr segir eru ákvæði siðareglna Háskóla Íslands ekki skýr um hvort ætlunin hafi verið að þær gildi um starfsmenn í launalausu leyfi. Við mat á því hvort ákvörðun siðanefndar 11. apríl sl. um að vísa frá nefndinni erindi A hafi samræmst reglunum hefur þýðingu að máls­meðferð fyrir henni leggur á aðila máls skyldur sem eru í eðli sínu íþyngjandi fyrir þann sem borinn er sökum um að hafa brotið gegn siða­reglunum. Að teknu tilliti til þess, framangreindra sjónarmiða sem leiða af almennum reglum og stöðu háskólans sem sjálfstæðrar ríkis­stofnunar er lögum samkvæmt ræður skipulagi starfsemi sinnar, tel ég, eins og atvikum þessa máls er háttað, ekki efni til að gera athugasemdir við ákvörðun nefndarinnar.

 

V

Með vísan til þess sem rakið er að framan er athugun minni á kvörtun yðar fyrir hönd A lokið, sbr. 1. mgr. 10. gr. laga nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis.

Undirritaður hefur farið með mál þetta sem settur umboðsmaður Alþingis á grundvelli 2. mgr. 14. gr. sömu laga.