Starfssvið umboðsmanns Alþingis og skilyrði þess að umboðsmaður fjalli um kvörtun. Málskot til æðra stjórnvalds. Málskot til stjórnar Hollustuverndar ríkisins og sérstakrar úrskurðarnefndar.

(Mál nr. 555/1992)

Máli lokið með bréfi, dags. 21. janúar 1992.

A kvartaði annars vegar yfir synjun Hollustuverndar ríkisins um að heimila innflutning á tilteknum vörum og hins vegar yfir því, að Hollustuvernd ríkisins hefði ekki svarað erindum hans. Í bréfi mínu, dags. 21. janúar 1992, greindi ég honum frá því, að í 30. gr. laga nr. 81/1988 um hollustuhætti og heilbrigðiseftirlit kæmi fram, að hægt væri að vísa máli til stjórnar Hollustuverndar ríkisins til úrskurðar, risi upp ágreiningur um ákvarðanir heilbrigðisyfirvalda. Væru aðilar ekki sáttir við úrskurð stjórnarinnar, væri heimilt að vísa málinu til sérstakrar úrskurðarnefndar, sbr. 2. tl. 30. gr. laga nr. 81/1988. Samkvæmt þessu gæti A því skotið umræddri ákvörðun til stjórnar Hollustuverndar ríkisins og síðan ákvörðun stjórnarinnar til úrskurðarnefndar, ef hann teldi ástæðu til. Benti ég honum á að fara þessa leið, þar sem ekki yrði kvartað til umboðsmanns, fyrr en æðra stjórnvald hefði fellt úrskurð sinn í máli, sbr. 3. mgr. 6. gr. laga nr. 13/1987 um umboðsmann Alþingis.