Aðgangur að gögnum og upplýsingum.

(Mál nr. 11702/2022)

Kvartað var yfir ákvörðun Sjúkratrygginga Íslands í tilefni af beiðni um aðgang að tilgreindum gögnum sem fylgdu svarbréfi stofnunarinnar til umboðsmanns vegna tiltekins máls.

Í kjölfar eftirgrennslanar umboðsmanns voru gögnin afhent og því ekki tilefni til að aðhafast frekar.

 

Umboðsmaður lauk málinu með bréfi, dags. 12. júlí 2022, sem hljóðar svo:

 

Vísað er til kvörtunar yðar 23. maí sl. f.h. A, B og C yfir ákvörðun Sjúkratrygginga Íslands 16. desember sl. í tilefni af beiðni yðar um aðgang að tilgreindum gögnum sem fylgdu svarbréfi stofn­unar­innar til umboðsmanns Alþingis vegna máls nr. 11320/2021.

Samkvæmt kvörtuninni óskuðuð þér eftir því 21. desember sl. að fyrr­greind ákvörðun stofnunarinnar yrði endurskoðuð og varð ekki annað ráðið af tölvubréfi aðstoðarmanns forstjóra 29. sama mánaðar en að sú beiðni hefði verið tekin til meðferðar hjá stofnuninni. Af kvörtuninni varð hins vegar ekki séð að sú beiðni hefði verið afgreidd, þótt hún hefði verið ítrekuð 3. og 12. maí sl.

Í tilefni af framangreindu var Sjúkra­tryggingum Íslands ritað bréf 16. júní sl. þar sem óskað var upplýsinga um hvort beiðnin frá 21. desember sl. væri til meðferðar hjá stofnuninni og þá hvað liði afgreiðslu hennar. Nú hafa borist svör frá Sjúkratryggingum Íslands 1. júlí 2022 þar sem fram kemur að umbeðin gögn hafi verið send yður sama dag. Þar sem kvörtun yðar lýtur að töfum á afgreiðslu framangreinds máls og nú liggur fyrir að stofnunin hefur brugðist við beiðni yðar um téð gögn tel ég ekki ástæðu til að aðhafast frekar í tilefni af henni.

Lýk ég því meðferð minni á kvörtun yðar með vísan til a-liðar 2. mgr. 10. gr. laga nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis.