Tafir hjá stjórnvaldi á afgreiðslu máls.

(Mál nr. 11729/2022)

Kvartað var yfir meðferð Tryggingastofnunar á máli í framhaldi af úrskurði úrskurðarnefndar velferðarmála.

Stofnunin upplýsti að málið hefði ekki verið lagt í réttan farveg en hefði nú verið afgreitt og samþykkt. Ekki var því ástæða til að aðhafast frekar.

 

Umboðsmaður lauk málinu með bréfi, dags. 12. júlí 2022, sem hljóðar svo:

 

Vísað er til kvörtunar yðar 14. júní sl. yfir meðferð Tryggingastofnunar á máli yðar í framhaldi af úrskurði úrskurðarnefndar velferðarmála 2. mars sl. í máli nr. 628/2021. Laut kvörtunin m.a. að því að tafir hefðu orðið á afgreiðslu málsins af hálfu stofnunarinnar.

Í tilefni af kvörtun yðar var Tryggingastofnun ritað bréf 29. júní sl. þar sem óskað var upplýsinga um hvað liði meðferð og afgreiðslu málsins. Nú hafa borist svör frá stofnuninni 8. júlí sl. þar sem fram kemur að í ljós hafi komið að mál yðar hafi ekki verið lagt í réttan farveg hjá stofnunni. Málið hafi nú verið tekið til afgreiðslu og endurhæfingarlífeyrir samþykktur fyrir tímabilið 1. maí 2021 til 30. apríl 2022.

Þar sem kvörtun yðar lýtur að töfum á afgreiðslu framangreinds máls og nú liggur fyrir að stofnunin hefur tekið ákvörðun í því tel ég ekki ástæðu til að aðhafast frekar í tilefni af henni að svo stöddu. Lýk ég því meðferð minni á kvörtun yðar með vísan til a-liðar 2. mgr. 10. gr. laga nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis.