Tafir hjá stjórnvaldi á afgreiðslu máls.

(Mál nr. 11767/2022)

Kvartað var yfir töfum á afgreiðslu mennta- og barnamálaráðuneytisins á kæru.

Ráðuneytið hafði upplýst viðkomandi um fyrirsjáanlegar tafir á afgreiðslu málsins og því ekki nægt tilefni til að taka kvörtunina til frekari athugunar að svo stöddu.

 

Umboðsmaður lauk málinu með bréfi, dags. 4. ágúst 2022, sem hljóðar svo:

 

Vísað er til erindis yðar 5. júlí sl. sem verður skilið sem kvörtun yfir töfum á afgreiðslu mennta- og barnamálaráðuneytisins á kæru yðar frá því í október sl. Með erindinu nú fylgið þér eftir kvörtun yðar 18. maí sl. sem fékk málsnúmerið 11697/2022. Að fengnum upplýsingum frá ráðuneytinu um að stefnt væri að því að niðurstaða lægi fyrir í síðasta lagi 4. júlí sl. lauk ég athugun á málinu 31. maí sl.

Nú liggur fyrir að ráðuneytið upplýsti yður 30. júní sl. um að tafir yrðu á afgreiðslu málsins sökum fjölda mála til meðferðar og sumarleyfa starfsmanna. Var þess getið að gert væri ráð fyrir að málið yrði tekið til afgreiðslu á ný eftir sumarleyfi eða í síðasta lagi innan tveggja mánaða.

Þótt áform ráðuneytisins um afgreiðslu málsins hafi samkvæmt framan­greindu ekki gengið eftir tel ég í ljósi fyrir­liggjandi upp­lýsinga um stöðu málsins ekki nægt tilefni til að taka kvörtun yðar til frekari athugunar að svo stöddu. Verði frekari tafir á meðferð málsins getið þér leitað til embættisins á nýjan leik í næstkomandi septembermánuði og verður þá metið hvort tilefni sé til að taka málið til frekari athugunar.

Með vísan til þess sem rakið er að framan er athugun á kvörtun yðar lokið, sbr. 1. mgr. 10. gr. laga nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis.