Skattar og gjöld. Skilyrði þess að kvörtun verði tekin til meðferðar.

(Mál nr. 11769/2022)

Kvartað var yfir afgreiðslu Reykjavíkurborgar á beiðni um upplýsingar.

Samkvæmt upplýsingum frá viðkomandi var málið til meðferðar hjá úrskurðarnefnd um upplýsingamál og því ekki skilyrði til að umboðsmaður fjallaði um það að svo stöddu.

 

Umboðsmaður lauk málinu með bréfi, dags. 5. ágúst 2022, sem hljóðar svo:

 

 

Vísað er til kvörtunar yðar 4. júlí sl. yfir afgreiðslu Reykjavíkur­borgar á beiðni yðar um upplýsingar.

Samkvæmt símtali yðar við starfs­mann minn 4. ágúst sl. er málið nú til meðferðar hjá úrskurðarnefnd um upplýsingamál. Af þeim sökum skal þess getið að í 3. mgr. 6. gr. laga nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis, kemur fram að megi skjóta máli til æðra stjórnvalds sé ekki unnt að kvarta til umboðsmanns fyrr en það hefur fellt úrskurð sinn í málinu. Af þessu ákvæði leiðir að umboðsmaður fjallar að jafnaði ekki um mál fyrr en það hefur verið leitt til lykta innan stjórnsýslunnar. Þar sem mál yðar er enn til meðferðar hjá stjórnvöldum eru ekki upp­fyllt skilyrði til að kvörtun yðar verði tekin til meðferðar að svo stöddu. Að fenginni niðurstöðu úrskurðarnefndarinnar getið þér leitað aftur til umboðsmanns teljið þér þá efni til þess.

Með vísan til þess sem rakið er að framan er athugun á kvörtun yðar lokið, sbr. 1. mgr. 10. gr. laga nr. 85/1997.