Heilbrigðismál. Eftirlitshlutverk landlæknis. Sérstakt hæfi. Andmælaréttur. Álitsumleitan.

(Mál nr. 11447/2021)

A leitaði til umboðsmanns Alþingis og kvartaði yfir málsmeðferð landlæknis við útgáfu álits og úrskurði heilbrigðisráðuneytisins þar sem málsmeðferð landlæknis var staðfest. Í álitinu var komist að þeirri niðurstöðu að A hefði vanrækt starfsskyldur sínar sem sérfræðilæknir með því að hafa ekki sjálfur skoðað og lagt mat á ástand sjúklings, sem hafði nýlega gengist undir skurðaðgerð, við komu hans á tiltekið sjúkrahús heldur treyst á mat lítt reynds unglæknis. Þá hefði hann ekki fylgt meðferð sjúklingsins eftir með endurteknu klínísku mati. Í kvörtuninni var byggt á því að landlæknir hefði vikið frá umsögn óháðs sérfræðings án viðhlítandi rökstuðnings, A hefði ekki fengið tækifæri til að kynna sér umsögn sérfræðingsins og tjá sig um hana sem og að tiltekinn starfsmaður landlæknis hefði verið vanhæfur til að koma að meðferð málsins. Athugun umboðsmanns beindist að þessum atriðum.

Eftir að hafa kynnt sér eðli og aðstæður málsins, atvik þess og gögn, taldi umboðsmaður sig ekki hafa fullnægjandi forsendur til þess að líta svo á að viðkomandi starfsmaður hefði verið vanhæfur til meðferðar málsins vegna óvildar. Þá taldi umboðsmaður sig ekki hafa forsendur til annars en að líta svo á að umsögn óháða sérfræðingsins hefði verið send á lögheimili A, þrátt fyrir ágreining þar um, enda lægi fyrir dagsett og undirritað bréf í þá veru sem stílað væri á A. Umboðsmaður leit því svo á að A hefði verið gefið færi á að koma sjónarmiðum sínum við umsögnina á framfæri. Að lokum taldi umboðsmaður ekki efni til að líta svo á að landlæknir hefði vikið frá umsögn óháða sérfræðingsins. Sú niðurstaða byggðist á því að sérfræðingurinn hefði ekki lagt mat sitt á það atriði sem landlæknir byggði niðurstöðu sína á um vanrækslu A.

Við meðferð málsins vakti athygli umboðsmanns það almenna verklag landlæknis að senda einungis viðkomandi heilbrigðisstofnun en ekki, eftir atvikum, þeim heilbrigðisstarfsmanni sem í hlut á gögn vegna kvörtunar. Í skýringum ráðuneytisins til umboðsmanns kom fram að það hefði gert athugasemdir við verklag landlæknis að þessu leyti. Taldi umboðsmaður því ekki ástæðu til að beina sérstökum athugasemdum til landlæknis vegna þessa verklags. Umboðsmaður vænti þess þó að ráðuneytið fylgdi eftir ábendingu sinni gagnvart landlækni.

   

Umboðsmaður lauk málinu með áliti án tilmæla 20. september 2022.

   

   

I

Vísað er til kvörtunar yðar 20. desember sl., f.h. A, yfir málsmeðferð landlæknis við útgáfu álits 16. desember 2019 og úrskurði heilbrigðisráðuneytisins 18. júní 2021 í máli nr. 5/2021 þar sem málsmeðferð landlæknis var staðfest.

Í áliti landlæknis var komist að þeirri niðurstöðu að A hefði vanrækt starfsskyldur sínar sem sérfræðilæknir með því að hafa ekki sjálfur skoðað og lagt mat á ástand sjúklings, sem hafði nýlega gengist undir skurðaðgerð, við komu hans á tiltekið sjúkrahús heldur treyst á mat lítt reynds unglæknis. Þá hefði hann ekki fylgt meðferð sjúklingsins eftir með endurteknu klínísku mati.

Í kvörtuninni er því haldið fram að landlæknir hafi vikið frá umsögn óháðs sérfræðings án viðhlítandi rökstuðnings sem og gerðar athugasemdir við sérstakt hæfi tiltekins starfsmanns landlæknis sem að málinu kom. Þá er vísað til þess að A hafi ekki fengið tækifæri til að kynna sér umsögn óháða sérfræðingsins og tjá sig um hana. Athugun umboðsmanns hefur beinst að þessum atriðum kvörtunarinnar.

  

II

1

Í kvörtun yðar kemur fram að tiltekinn starfsmaður landlæknis hafi komið með óvenjulegum og virkum hætti að málum A á fyrstu stigum þeirra. Hann hafi gert upp hug sinn vegna ætlaðra ávirðinga, sem hann hafi m.a. kallað „glæpsamlegar“, og spurst fyrir um það hvort umrætt sjúkra­hús treysti A til að gegna starfi sínu áfram sem skurðlæknir. Til viðbótar þessu má ráða af kæru A til ráðuneytisins 13. janúar 2020 að hann telji umræddan starfsmann hafa sýnt af sér hlutdrægni við töku viðtala við aðra starfsmenn sjúkra­hússins.

Í úrskurði ráðuneytisins segir að það hafi tekið afstöðu til sömu málsástæðna um hæfi viðkomandi starfsmanns í úrskurði 26. júní 2020 í máli nr. 19/2020. Ráðuneytið hafi í því máli komist að þeirri niðurstöðu að ekki væri nægilegur grundvöllur fyrir því að draga mætti hlutleysi starfs­mannsins í efa með réttu. Það hafi því talið rétt að líta til fyrri niðurstöðu sinnar í þessum efnum. Þessi úrskurður er meðal þeirra gagna sem bárust umboðsmanni frá ráðuneytinu.

Í athugasemdum við 3. gr. frumvarps þess er varð að stjórnsýslulögum nr. 37/1993 segir að til þess að óvinátta valdi vanhæfi verði að vera um að ræða einhverjar sannanlegar hlutlægar ástæður sem almennt verði taldar til þess fallnar að draga megi í efa óhlutdrægni starfsmanns. Ekki nægi að aðili máls álíti starfsmann sér fjandsamlegan. Hins vegar, í þeim tilvikum þar sem slegið hefur í brýnu með starfsmanni og aðila máls og annar hvor hefur sýnt af sér óviðeigandi framkomu eða viðhaft ósæmilegt orðbragð, myndi starfsmaður teljast vanhæfur, a.m.k. þar sem úrslit máls hefðu verulega þýðingu fyrir aðila (Alþt. 1992-1993, A-deild, bls. 3288). Í þessu sambandi tek ég fram að mat utan­að­komandi aðila, eins og umboðsmanns Alþingis, á því hvort aðili hafi mátt draga óhlutdrægni starfsmanns í efa með réttu verður almennt að byggjast á heildstæðu mati á atvikum og aðstæðum í hverju máli samkvæmt almennum og hlutlægum mælikvarða.

Ljóst er að ágreiningur er um ummæli þau sem viðkomandi starfsmaður á að hafa látið falla, samhengi þeirra sem og framkomu hans að öðru leyti. Eftir að hafa kynnt mér eðli og aðstæður málsins, atvik þess og gögn, tel ég mig ekki hafa fullnægjandi forsendur til þess að líta svo á að téður starfsmaður hafi verið vanhæfur til meðferðar þess vegna óvildar af því tagi sem áður ræðir. Í því sambandi tek ég fram að í svörum ráðuneytisins til umboðsmanns 29. mars sl. kemur fram að land­læknir hefði átt að kanna hvort í athugasemdum A um samskipti við viðkomandi starfsmann hefðu falist athugasemdir um hæfi hans til að koma að meðferð málsins, sbr. 1. mgr. 7. gr. stjórnsýslulaga, og þá taka afstöðu til þess og skrá hana sérstaklega, sbr. 2. mgr. 5. gr. stjórnsýslulaga og 1. mgr. 27. gr. upplýsingalaga nr. 140/2012. Þá segir einnig að ráðuneytið muni koma ábendingu að þessu leyti á framfæri við landlækni. Af þessum sökum tel ég ekki tilefni til að beina sérstökum athugasemdum um þetta atriði til landlæknis.

   

2

Hvað snertir athugasemdir yðar í þá veru að A hafi ekki fengið að tjá sig um umsögn sem landlæknir aflaði frá óháðum sérfræðingi vegna kvörtunarmálsins er ljóst að ágreiningur er uppi um hvort umsögnin hafi verið tilkynnt honum með fullnægjandi hætti. Þannig hefur landlæknir vísað til þess að umsögnin hafi verð send á lögheimili A en hann kannast hvorki við að hafa fengið hana né lesið.

Stjórnvöld bera almennt áhættuna af því ef mistök verða við sendingu bréfa eða önnur tæknileg mistök valda því að bréf berst ekki aðila máls, nema hann hafi sjálfur sýnt af sér sök. Á stjórnvöldum hvílir því almennt sönnunarbyrði fyrir því að bréf hafi borist aðila ef þau fullyrða að það hafi verið sent. Þegar á slíkt reynir getur skipt máli ef stjórnvaldið getur stutt það hvenær bréfið var sent, t.d. með gögnum úr skjalavistunarkerfi, afriti úr málaskrá eða póstlista, sjá til hliðsjónar álit umboðsmanns 19. desember 2018 í máli nr. 9708/2018.

Í gögnum málsins er að finna bréf, dagsett 29. janúar 2019, sem stílað er á A og undirritað af [...], þar sem honum er send fyrrgreind umsögn og gefið færi á að tjá sig. Með hliðsjón af því tel ég mig ekki hafa forsendur til annars en að líta svo á að sýnt hafi verið fram á að bréfið hafi verið sent á lögheimili A og honum þannig gefið færi á að koma sjónarmiðum sínum við umsögnina á framfæri.

Við meðferð málsins vakti þó athygli mína það almenna verklag landlæknis sem felur í sér að gögn séu almennt einungis send viðkomandi heil­brigðisstofnun en ekki, eftir atvikum, þeim heilbrigðisstarfsmanni sem í hlut á. Í skýringum ráðuneytisins til umboðsmanns kemur hins vegar fram að afstaða ráðuneytisins til þessa verklags landlæknis liggi fyrir og það hafi þegar bent embættinu á að ekki sé nægjanlegt að senda gögn til viðkomandi heilbrigðisstofnunar, heldur verði það að tryggja að gögn berist einnig þeim heilbrigðisstarfsmanni sem málið varðar. Með hliðsjón af því tel ég ekki ástæðu til að beina sérstökum athugasemdum til landlæknis vegna þessa verklags. Aftur á móti vænti ég þess að ráðuneytið fylgi eftir umræddri ábendingu sinni gagnvart landlækni.

  

3

Í tilefni af athugasemdum yðar er lúta að því að landlæknir hafi vikið frá fyrrgreindri umsögn óháðs sérfræðings bendi ég á að um var að ræða álit sem ekki var bindandi fyrir landlækni. Hins vegar kemur fram í athuga­semdum við 22. gr. frumvarps þess er varð að stjórnsýslulögum að ef í máli liggur fyrir umsögn sérfróðs aðila, sem ekki er lögð til grund­vallar, beri að gera grein fyrir ástæðum þess (Alþt. 1992-1993, A-deild, bls. 3303).

Af svari ráðuneytisins til umboðsmanns verður ráðið að það telji landlækni ekki hafa vikið frá umsögn óháða sérfræðingsins. Landlæknir hafi hins vegar, í ljósi atvika og aðstæðna í málinu, komist að niður­stöðu um vanrækslu A um atriði sem téður sérfræðingur hafi ekki lagt mat sitt á. Nánar tiltekið hafi hann einungis upplýst um það að á þeirri heilbrigðisstofnun sem hann ynni kæmi skurðlæknir alltaf í hús til að meta sjúklinga sem leggjast inn með kviðverki eða grun um fylgi­kvilla í ljósi þess að þar standi óreyndir kandídatar framvakt. Hann hafi því ekki gert athugasemdir við uppvinnslu og meðferð við­komandi sjúklings við komu á bráðamóttöku, með þeim fyrirvara að hann hefði ekki upplýsingar um reynslu aðstoðarlæknisins sem hefði metið hann við komu í umrætt sinn.

Eftir að hafa kynnt mér umrædda umsögn sérfræðingsins tel ég að ekki verði annað ráðið en að niðurstaða hans, á þá leið að læknisfræðileg mistök eða vanræksla hefði ekki átt sér stað, hafi fyrst og fremst lotið að meðhöndlun sýkingar sjúklingsins, þ.e. vali á læknismeðferð, og hann hafi ekki lagt mat sitt á það atriði sem landlæknir byggði niðurstöðu sína á um vanrækslu A. Af þeim sökum tel ég ekki efni til að líta svo á að landlæknir hafi vikið frá umsögn sérfræðingsins þannig að honum bæri að gera grein fyrir ástæðum þess.

  

III

Með vísan til þess sem að framan er rakið lýk ég umfjöllun minni um málið, sbr. b-lið 2. mgr. 10. gr. laga nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis.