Persónuvernd og meðferð persónuupplýsinga.

(Mál nr. 11784/2022)

Kvartað var yfir frávísun Persónuverndar á kvörtun er laut að rafrænni vöktun tiltekinna stofnana og sveitarfélaga. Byggðist frávísunin á því að viðkomandi ætti ekki beinna og lögvarinna hagsmuna að gæta sem veittu aðild að málinu.

Að virtum rökstuðningi Persónuverndar taldi umboðsmaður ekki tilefni til að gera athugasemdir við niðurstöðu hennar.

 

Umboðsmaður lauk málinu með bréfi, dags. 11. ágúst 2022, sem hljóðar svo:

 

Vísað er til kvörtunar yðar 18. júlí sl. yfir ákvörðun Persónuverndar 24. júní sl. um að vísa frá kvörtun yðar er laut að rafrænni vöktun nánar tiltekinna stofnana og sveitarfélaga. Var frávísun Persónu­verndar byggð á því að þér ættuð ekki beinna og lögvarinna hagsmuna að gæta sem veitt gætu yður aðild að kvörtunarmáli hjá stofnuninni vegna umræddrar vöktunar. Var í þeim efnum vísað til þess að kvörtun yðar lyti að almennri framkvæmd framangreindra aðila og að með henni hefðu ekki fylgt upplýsingar um tiltekið atvik eða að unnið hefði verið með persónuupplýsingar yðar.

Samkvæmt 1. málslið 2. mgr. 39. gr. laga nr. 90/2018, um persónu­vernd og vinnslu persónuupplýsinga, hefur sérhver skráður ein­staklingur eða fulltrúi hans rétt til að leggja fram kvörtun hjá Persónu­vernd ef hann telur að vinnsla persónuupplýsinga um hann hér á landi eða samkvæmt 7. gr. laganna brjóti í bága við reglugerðina eða ákvæði laganna.

Eftir að hafa kynnt mér ákvörðun Persónuverndar sem og kvörtun yðar til stofnunarinnar tel ég, að virtum rökstuðningi hennar, ekki efni til að gera athugasemdir við niðurstöðu Persónuverndar.

Með vísan til framangreinds lýk ég umfjöllun minni um kvörtun yðar, sbr. 1. mgr. 10. gr. laga nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis.