Börn. Skilyrði þess að kvörtun verði tekin til meðferðar.

(Mál nr. 11650/2022)

Kvartað var yfir starfsháttum Innheimtustofnunar sveitarfélaga.  

Ekki varð annað ráðið en verkalýðsfélag hefði óskað eftir skýringum frá stofnuninni fyrir hönd viðkomandi um atriði sem a.m.k. að hluta vörðuðu það sama og borið var upp við umboðsmann. Afstaða stofnunarinnar til athugasemdanna lægi ekki fyrir og því ekki skilyrði fyrir umboðsmann til að fjalla frekar um kvörtunina að svo stöddu.

 

Umboðsmaður lauk málinu með bréfi, dags. 10. ágúst 2022, sem hljóðar svo:

 

Vísað er til kvörtunar yðar 8. apríl sl. yfir starfsháttum Innheimtu­stofnunar sveitarfélaga, en í henni gerið þér m.a. athugasemdir við það hvernig stofnunin hafi staðið að innheimtu meðlags frá yður.

Samkvæmt 3. mgr. 6. gr. laga nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis, er gert ráð fyrir að umboðsmaður hafi ekki afskipti af máli fyrr en stjórn­völd, þ.m.t. æðra stjórnvald þegar það á við, hafa lokið umfjöllun sinni um málið. Ákvæði þetta er byggt á því sjónarmiði að stjórnvöld skuli fá tækifæri til að leiðrétta ákvarðanir, sem hugsanlega eru rangar, áður en leitað er til aðila utan stjórnkerfis þeirra með kvörtun. Það leiðir af framangreindu að kvörtun til umboðsmanns þarf að jafnaði að beinast að tiltekinni úrlausn eða háttsemi stjórnvalds og þær kæruleiðir, sem kunna að vera tiltækar innan stjórnsýslunnar, þurfa að hafa verið nýttar. Þegar um er að ræða athugasemdir um tiltekna starfs­hætti eða verklag stjórnvalda hefur verið talið rétt að slíkar athuga­semdir hafi verið bornar undir hlutaðeigandi stjórnvald, og eftir atvikum það stjórnvald sem fer með yfirstjórn þess, áður en ágreiningur vegna þess kemur til umfjöllunar af hálfu umboðsmanns.

Af kvörtun yðar og þeim gögnum sem henni fylgdu verður ekki annað ráðið en að Verkalýðsfélag Vestfirðinga hafi, með bréfi 20. apríl sl. fyrir hönd yðar, óskað eftir skýringum frá Innheimtustofnun sveitar­félaga um atriði sem a.m.k. að hluta varða sömu atriði og þér gerið athuga­semdir við í kvörtun yðar til umboðsmanns. Þá verður ekki annað ráðið af gögnunum en að afstaða stofnunarinnar til athugasemdanna liggi ekki fyrir.

Um Innheimtustofnun sveitarfélaga gilda samnefnd lög nr. 54/1971. Af 2. gr. laganna, þ.á m. lögskýringargögnum, verður dregin ályktun um að stjórn stofnunarinnar sinni tilteknu eftirliti með starfsemi hennar þótt ekki verði með ótvíræðum hætti ráðið í hvaða tilvikum unnt sé að bera einstök mál og erindi undir stjórnina. Með hliðsjón af framan­greindu og með vísan til þeirra sjónarmiða sem búa að baki 3. mgr. 6. gr. laga nr. 85/1997 eru að svo stöddu ekki uppfyllt lagaskilyrði til að kvörtun yðar verði tekin til frekari meðferðar, heldur er rétt að endan­leg afstaða stofnunarinnar til athugasemda yðar liggi fyrir áður en umboðsmaður fjallar um málið.

Með vísan til þess sem að framan er rakið lýk því ég umfjöllun minni um kvörtun yðar, sbr. 1. mgr. 10. gr. laga nr. 85/1997. Ef þér teljið yður enn beitan rangsleitni að fenginni afstöðu stofnunarinnar, og eftir atvikum stjórnar stofnunarinnar, getið þér leitað til mín á ný með sérstaka kvörtun þar að lútandi.