Starfssvið umboðsmanns Alþingis og skilyrði þess að umboðsmaður fjalli um kvörtun. Málskot til æðra stjórnvalds. Synjun Póst- og símamálastofnunar um fébætur vegna lokunar síma í misgripum verður skotið til samgönguráðherra.

(Mál nr. 592/1992)

Máli lokið með bréfi, dags. 15. apríl 1992.

A kvartaði yfir þeirri ákvörðun Póst- og símamálastofnunarinnar, að synja ósk sinni um fébætur í tilefni af því, að stofnunin hafði lokað í misgripum símanúmerinu X. Í bréfi mínu til A 15. apríl 1992 sagði m.a. svo:

„Samkvæmt 1. og 2. gr. laga nr. 36/1977 um stjórn og starfshætti póst- og símamála er póst- og símamálastofnunin sjálfstæð ríkisstofnun, en samgönguráðherra fer yfirstjórn þeirra mála, er undir stofnunina heyra. Það er skoðun mín, að ágreiningur sá, sem kvörtun yðar lýtur að, verði borinn undir samgönguráðuneytið til úrskurðar. Ástæða þess að ég tek framangreint fram er sú, að samkvæmt 3. mgr. 6. gr. laga nr. 13/1987 um umboðsmann Alþingis er ekki unnt að kvarta til umboðsmanns, ef skjóta má máli til æðra stjórnvalds og það hefur ekki fellt úrskurð sinn í málinu.

Samkvæmt framansögðu er niðurstaða mín sú, að skilyrði bresti til þess að ég geti fjallað frekar um kvörtun yðar.“