Menntamál.

(Mál nr. 11695/2022)

Kvartað var yfir úrskurði mennta- og barnamálaráðuneytisins sem staðfesti ákvörðun Reykjavíkurborgar um synjun á leyfi til heimakennslu.

Með vísan til laga um grunnskóla og athugasemda við það, laga um menntun og ráðningu kennara og skólastjórnenda við leikskóla, grunnskóla og framhaldsskóla, reglugerðar um heimakennslu á grunnskólastigi og vinnureglna menntamálaráðuneytis við mat á umsóknum vegna heimakennslu í tilraunaskyni á grunnskólastigi taldi umboðsmaður ekki tilefni til að gera athugasemdir við afstöðu ráðuneytisins enda hvorugt foreldranna með tilskilin kennsluréttindi.

 

Umboðsmaður lauk málinu með bréfi, dags. 11. ágúst 2022, sem hljóðar svo:

 

Vísað er til kvörtunar yðar 17. maí sl. yfir úrskurði mennta- og barna­mála­ráðuneytisins 2. maí sl. þar sem staðfest var ákvörðun Reykja­víkur­borgar um að synja umsókn yðar og B um leyfi til að hafa dætur yðar í heimakennslu. Niðurstaða ráðuneytisins byggðist einkum á því að ekki væri uppfyllt skilyrði 1. mgr. 7. gr. reglugerðar nr. 531/2009, um heimakennslu á grunnskólastigi, til að fallast á um­sóknina, en þar kemur fram að sá sem annast heimakennslu skuli hafa leyfi ráðherra til að nota starfsheitið grunnskólakennari.

Samkvæmt 1. mgr. 3. gr. laga nr. 91/2008, um grunnskóla, er skóla­skylda á grunnskólastigi að jafnaði í tíu ár, en getur verið skemmri, sbr. 32. gr. og er öllum börnum, að jafnaði á aldrinum sex til 16 ára, skylt að sækja grunnskóla. Nánar er fjallað um skólaskyldu í 15. gr. laganna. Í 1. mgr. greinarinnar segir að nemendum sé skylt að sækja grunn­skóla, sbr. 3. gr. Skólaskyldu sé unnt að fullnægja í grunnskólum á vegum sveitarfélaga, í sjálfstætt reknum grunnskólum eða með öðrum viður­kenndum hætti samkvæmt lögunum.

Í 2. mgr. 46. gr. laga nr. 91/2008 segir að foreldrar, sem óska eftir undanþágu frá 3. gr. til að geta kennt börnum sínum heima, að hluta eða öllu leyti, skuli sækja um slíka heimild til síns sveitar­félags. Skólastjóri geti veitt undanþágu að höfðu samráði við skólanefnd og skólaþjónustu. Börn sem hljóti heimakennslu séu undanþegin skóla­skyldu samkvæmt 3. gr., en skuli lúta eftirliti og reglulegu mati og þreyta könnunarpróf samkvæmt lögunum. Samkvæmt 1. málslið 5. mgr. 46. gr. laganna setur ráðherra reglugerð um skilyrði til heimakennslu á grunn­skólastigi og viðurkenningu grunnskóla samkvæmt greininni.

Í athugasemdum við 46. gr. í frumvarpi því er varð að lögum nr. 91/2008 segir að markmiðið með greininni sé að skapa svigrúm fyrir aukinn sveigjanleika fyrir annars konar nám en í grunnskólum á vegum sveitarfélaga eða í sjálfstætt reknum skólum til að geta komið betur til móts við sérstakar aðstæður eða óskir foreldra. Hér á landi hafi verið rekið tilraunaverkefni um heimakennslu samkvæmt viðmiðunarreglum sem menntamálaráðuneytið setti um slíkar tilraunir. Fram hafi farið úttekt á heimakennslunni og í kjölfar hennar hafi tilraunaleyfið verið framlengt með ákveðnum skilyrðum og eftirliti. Rétt þyki að veita almenna heimild í lögum til heimakennslu að hluta eða öllu leyti í stað þess að tengja það tilraunaverkefni í öllum tilvikum. Menntamála­ráðuneytið skuli setja reglugerð um skilyrði til heimakennslu sem eigi að byggjast á gildandi viðmiðunarreglum og taka mið af reynslu undan­farinna ára (Alþt. 2007-2018, A-deild, bls. 1830).

Á grundvelli framangreinds ákvæðis var fyrrgreind reglugerð nr. 531/2009 sett. Samkvæmt 1. mgr. 7. gr. hennar skal sá sem annast heima­kennslu hafa leyfi menntamálaráðherra til að nota starfsheitið grunn­skóla­kennari, sbr. 4. gr. laga nr. 87/2008, um menntun og ráðningu kennara og skólastjórnenda við leikskóla, grunnskóla og framhaldsskóla. Lög nr. 87/2008 voru felld úr gildi með lögum nr. 95/2019, um menntun, hæfni og ráðningu kennara og skólastjórnenda við leikskóla, grunnskóla og framhaldsskóla. Í síðarnefndu lögunum er nú fjallað um réttinn til að nota starfsheitið kennari.

Framangreindar viðmiðunarreglur menntamálaráðuneytisins voru settar 25. nóvember 2002 og bera heitið „Vinnureglur menntamálaráðu­neytis við mat á umsóknum vegna heimakennslu í tilraunaskyni á grunnskólastigi“. Í 8. gr. þeirra segir að foreldrar sem sæki um að annast heimakennslu skuli hafa leyfi menntamálaráðherra til að nota starfsheitið grunnskólakennari samkvæmt 1. gr. þágildandi laga nr. 86/1998, um lögverndun á starfsheiti og starfsréttindum grunnskóla­kennara, framhaldsskólakennara og skólastjóra. Skilyrði 1. mgr. 7. gr. reglugerðar nr. 531/2009 tekur þannig að þessu leyti mið af viðmiðunar­reglum menntamálaráðuneytisins, líkt og gert var ráð fyrir í áðurnefndum athugasemdum við 46. gr. frumvarps þess er varð að lögum nr. 91/2008. Með hliðsjón af því tel ég ekki tilefni til að gera athugasemdir við úr­skurð mennta- og barnamálaráðuneytisins í máli yðar frá 2. maí sl. enda liggur ekki annað fyrir en að hvorki þér né B hafið til­skilin kennsluréttindi. Þá tel ég ekki tilefni til að gera athuga­semdir við þá afstöðu ráðuneytisins að ákvörðun Reykjavíkurborgar hafi ekki verið í andstöðu við jafnræðisreglur.

Í ljósi þess sem kemur að öðru leyti fram í kvörtun yðar bendi ég yður á að ef þér teljið að þörf sé á úrbótum eða breytingum á gildandi laga­reglum um heimakennslu er yður fær sú leið að beina erindum þar um til þeirra sem fjalla um og gera tillögur til lagasetningar um þessi mál. Það kemur í hlut mennta- og barnamálaráðherra að leiða pólitíska stefnumótun á þessu málefnasviði og honum eru fengnar heimildir til að beita frumkvæðisrétti sínum með því að leggja til við Alþingi að gerðar verði breytingar á gildandi lögum. Þessu til viðbótar er hægt að beina erindum af þessu tagi til alþingismanna og þingnefnda.

Með hliðsjón af ofangreindu og með vísan til 1. mgr. 10. gr. laga nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis, lýk ég umfjöllun minni um kvörtun yðar.