Tafir hjá stjórnvaldi á afgreiðslu máls.

(Mál nr. 11699/2022)

Kvartað var yfir töfum á afgreiðslu Gæða- og eftirlitsstofnunar velferðarmála á kvörtun sem beint var til Barnaverndarstofu.

Gæða- og eftirlitsstofnun greindi umboðsmanni frá að tafir á málsmeðferð mætti m.a. rekja til þess að Barnaverndarstofa hefði verið lögð niður og töluverður fjöldi kvartana þá flust yfir til stofnunarinnar. Vegna fyrirséðra tafa hafi viðkomandi verið tilkynnt að afgreiðsla málsins kynni að taka allt að ári. Ekki lægi fyrir hvort málinu yrði lokið innan þess tíma en kapp væri lagt á að hraða málum sem þessum. Í ljósi þessa taldi umboðsmaður ekki ástæðu til að aðhafast frekar.

 

Umboðsmaður lauk málinu með bréfi, dags. 10. ágúst 2022, sem hljóðar svo:

 

Vísað er til kvörtunar yðar 19. maí sl. yfir töfum á afgreiðslu Gæða- og eftirlitsstofnunar velferðarmála á kvörtun yðar sem þér beinduð til Barna­verndarstofu 2. ágúst 2021.

Í tilefni af kvörtuninni var Gæða- og eftirlitsstofnun velferðar­mála ritað bréf 15. júní sl. þar sem óskað var eftir upp­lýsingum um hvað liði meðferð og afgreiðslu erindisins. Nú hefur borist svarbréf frá stofnuninni 30. sama mánaðar þar sem kemur fram að tafir á máls­með­ferð megi m.a. rekja til þess að um síðastliðin áramót hafi Barnaverndarstofa verið lögð niður og við það hafi töluverður fjöldi ólokinna kvörtunarmála flust yfir til stofnunarinnar. Vegna fyrirséðra tafa við upphaf málsmeðferðar hafi yður verið tilkynnt um að afgreiðsla málsins kynni að taka allt að 12 mánuði. Ekki lægi fyrir hvort máli yðar yrði lokið innan þess tíma en mikið kapp væri lagt á að hraða af­greiðslu mála sem þinna. Gætt yrði að því, eftir atvikum, að tilkynna yður um frekari tafir.

Í ljósi framangreinds tel ég ekki ástæðu til að aðhafast frekar í tilefni af kvörtun yðar að svo stöddu. Lýk ég því meðferð minni á henni með vísan til 1. mgr. 10. gr. laga nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis. Verði frekari tafir á meðferð málsins getið þér leitað til mín á ný teljið þér ástæðu til þess.