Heilbrigðismál. Skilyrði þess að kvörtun verði tekin til meðferðar.

(Mál nr. 11762/2022)

Kvartað var yfir atvikum við og eftir fæðingu barns og gerðar athugasemdir við aðgengi að sjúkraflugi og heilbrigðisþjónustu á Íslandi.

Þar sem erindið hafði hvorki verið borið upp við landlækni né heilbrigðisráðuneytið voru ekki skilyrði til að umboðsmaður fjallaði um það að svo stöddu.

 

Umboðsmaður lauk málinu með bréfi, dags. 11. ágúst 2022, sem hljóðar svo:

 

Vísað er til erindis yðar 29. júní sl. þar sem gerð er grein fyrir atvikum sem áttu sér stað við og eftir fæðingu barnabarns yðar, auk þess sem m.a. eru gerðar athugasemdir við aðgengi að sjúkraflugi og heil­brigðis­þjónustu á Íslandi. Áður en lengra er haldið vil ég þó votta yður og fjölskyldu yðar samúð mína vegna andláts barnabarns yðar.     

Samkvæmt 1. mgr. 2. gr. laga nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis, er hlutverk hans að hafa í umboði Alþingis eftirlit með stjórnsýslu ríkis og sveitarfélaga á þann hátt sem nánar greinir í lögunum og tryggja rétt borgaranna gagnvart stjórnvöldum landsins. Í 4. og 6. gr. sömu laga er fjallað um skilyrði þess að umboðsmaður taki mál til meðferðar í til­efni af kvörtun, en af ákvæðum þessara lagagreina leiðir m.a. að umboðs­maður fjallar að jafnaði ekki um mál nema það hafi áður verið leitt til lykta innan stjórnsýslunnar.

Í ljósi framangreindra lagaákvæða bendi ég yður á að heilbrigðis­ráðuneytið fer með mál er varða heilbrigðisþjónustu. Þér getið því freistað þess að koma sjónarmiðum yðar um heilbrigðiskerfið á fram­færi við það ráðuneyti. Þá er athygli yðar einnig vakin á því að samkvæmt lögum nr. 41/2007, um landlækni og lýðheilsu, hefur landlæknir eftirlit með heilbrigðisþjónustu og heilbrigðisstarfsmönnum. Teljið þér tilefni til getið þér því leitað til landlæknis með athugasemdir yðar við störf þeirra heilbrigðisstarfsmanna sem komu að málefnum barnabarns yðar.

Að öðru leyti lít ég svo á að í erindi yðar felist ábendingar um atriði sem þér teljið tilefni fyrir umboðsmann að skoða nánar. Samkvæmt 5. gr. laga nr. 85/1997 getur umboðsmaður að eigin frumkvæði ákveðið að taka mál til meðferðar. Þar segir einnig að hann geti jafnframt tekið starf­semi og málsmeðferð stjórnvalds til almennrar athugunar. Ábendingum yðar, eins og öðrum ábendingum sem umboðsmanni Alþingis berast, verður haldið til haga. Þegar umboðsmanni berast erindi sem fela í sér ábendingu eða eru að öðru leyti almenns eðlis er verklag hans þannig að farið er yfir erindið með tilliti til þess hvort tilefni sé til að taka atriði sem koma fram í því til athugunar á grundvelli 5. gr. laga nr. 85/1997. Við mat á því er m.a. litið til starfssviðs og áherslna umboðsmanns, hagsmuna sem tengjast málefninu sem um ræðir og málastöðu og nýtingar mannafla umboðsmanns. Verði málefnið tekið til athugunar í tilefni af ábendingu er þeim sem vekur máls á því almennt ekki tilkynnt um það heldur er upplýst um athugunina á vefsíðu umboðsmanns, www.umbodsmadur.is.

Með hliðsjón af framangreindu og með vísan til 1. mgr. 10. gr. laga nr. 85/1997 lýk ég umfjöllun minni um mál yðar.