Einkaréttarlegt. Starfssvið umboðsmanns Alþingis.

(Mál nr. 11763/2022)

Kvartað var yfir samskiptum við fyrirtækið NúNú Lán ehf.

Þar sem starfssvið umboðsmanns tekur ekki til starfsemi þessa einkaaðila voru ekki skilyrði til að hann fjallaði um kvörtunina. Var viðkomandi bent á að ágreiningi við lánastofnanir mætti skjóta til úrskurðarnefndar um viðskipti við fjármálafyrirtæki.

 

Umboðsmaður lauk málinu með bréfi, dags. 10. ágúst 2022, sem hljóðar svo:

 

Vísað er til kvörtunar yðar 1. júlí sl. yfir samskiptum yðar við fyrirtækið NúNú Lán ehf.

Samkvæmt 1. mgr. 2. gr. laga nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis, er hlutverk hans að hafa í umboði Alþingis eftirlit með stjórnsýslu ríkis og sveitarfélaga og tryggja rétt borgaranna gagnvart stjórnvöldum landsins. Í 3. gr. sömu laga kemur fram að undir starfssvið umboðsmanns falli ríki og sveitarfélög en að það nái einnig til starfsemi einkaaðila að því leyti sem þeim hefur að lögum verið fengið opinbert vald til að taka ákvarðanir um rétt eða skyldu manna í skilningi 2. mgr. 1. gr. stjórn­sýslulaga nr. 37/1993.

Ástæða þess að yður er bent á framangreint er að NúNú Lán er einka­hlutafélag og starfar á einkaréttarlegum grundvelli. Starfsemi þess fellur því utan starfssviðs umboðsmanns enda felur hún ekki í sér beitingu opinbers valds sem þessum lögaðila hefur verið fengið með lögum. Bresta því lagaskilyrði til þess að kvörtun yðar verði tekin til frekari athugunar.

Með vísan til framangreinds lýk ég umfjöllun minni um kvörtun yðar, sbr. 1. mgr. 10. gr. laga nr. 85/1997. Athygli yðar er vakin á að ágreiningi við lánastofnanir er unnt að skjóta til úrskurðarnefndar um viðskipti við fjármálafyrirtæki. Með þessari ábendingu hefur þó engin afstaða verið tekin til þess hvort tilefni sé fyrir yður til að gera það.