Heilbrigðismál. Starfssvið umboðsmanns Alþingis.

(Mál nr. 11775/2022, 10776/2022 og 11786/2022)

Kvartað var yfir aðbúnaði á öryggisdeild Klepps og starfsaðferðum starfsmanna þar.

Viðkomandi hafði kvartað áður yfir sömu atriðum að hluta og líkt og þá taldi umboðsmaður ekki nægilegt tilefni til að taka athugasemdir hans til nánari athugunar í ljósi fyrirliggjandi upplýsinga og gagna frá spítalanum. Umboðsmaður áréttaði þó að þær yrðu hafðar til hliðsjónar við almennt eftirlit með aðstæðum frelsissviptra.

 

Umboðsmaður lauk málinu með bréfi, dags. 8. ágúst 2022, sem hljóðar svo:

 

Vísað er til kvartana yðar 10., 20., 21. og 25. júlí og 1. ágúst sl. yfir aðbúnaði yðar á öryggisdeild Klepps og starfsaðferðum starfsmanna deildarinnar, þ.á m. lyfjagjöf. Kvartanir yðar nú, sem hafa fengið máls­númerin 11775, 11776 og 11786/2022, tengjast kvörtunum yðar 24. mars og 8. maí sl. og lúta að hluta að sömu atriðum, en athugun á þeim málum lauk með bréfum 5. og 10. maí sl.

Í tilefni af kvörtuninni 24. mars sl. var Landspítala ritað bréf 30. sama mánaðar þar sem óskað var eftir upplýsingum og gögnum um yður sem vörpuðu ljósi á umkvörtunar­efnin. Spítalinn svaraði þeirri beiðni með bréfi 26. apríl sl. Við athugun á kvörtunum yðar nú hefur verið litið til gagna fyrri mála yðar hjá embættinu til hliðsjónar.

Vegna athugasemda yðar við lyfjagjöf er áréttað að það fellur ekki undir starfssvið umboðsmanns Alþingis samkvæmt c-lið 4. mgr. 3. gr. laga nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis, að fjalla um athugasemdir yðar við hana, líkt og nánar var rakið í bréfi embættisins 5. maí sl. í máli nr. 11625/2022.

Svo sem einnig kom fram í því bréfi taldi umboðsmaður ekki nægi­legt tilefni til að taka athugasemdir yðar um aðbúnað yðar á Land­spítala til nánari athugunar í ljósi fyrirliggjandi upplýsinga og gagna frá spítalanum. Í bréfinu var þó vakin athygli á að umboðsmaður hefði m.a. því hlutverki að gegna að hafa eftirlit með aðstæðum frelsis­­sviptra á almennum grunni og hefði í því skyni heimsótt geð­deildir Landspítala að Kleppi og Hringbraut og gefið út skýrslur um þessar heimsóknir sem aðgengilegar væru á heimasíðu embættisins og yrðu athugasemdir yðar hafðar til hliðsjónar við áframhaldandi fram­kvæmd þessa eftirlits. Eftir að hafa kynnt mér athugasemdir yðar og með hliðsjón af fyrirliggjandi gögnum tel ég ekki heldur nægilegt tilefni til að taka kvartanir yðar nú til frekari athugunar, en árétta að athugasemdirnar verða hafðar til hliðsjónar við það almenna eftir­lit sem umboðsmaður hefur samkvæmt framangreindu með aðstæðum frelsis­sviptra.

Með vísan til þess sem rakið er að framan er athugun á kvörtunum yðar 10., 20., 21. og 25. júlí og 1. ágúst sl. lokið, sbr. 1. mgr. 10. gr. laga nr. 85/1997.