Opinberir starfsmenn. Skilyrði þess að kvörtun verði tekin til meðferðar.

(Mál nr. 11748/2022)

Kvartað var yfir málsmeðferð í aðdraganda þess að veitt var leyfi frá störfum hjá Innheimtustofnun sveitarfélaga og ráðningarsamningi síðan rift nokkrum mánuðum síðar.

Þar sem stofnunin kærði viðkomandi til héraðssaksóknara vegna gruns um refsiverð brot og ekki lá annað fyrir en að málið væri enn til rannsóknar voru ekki forsendur til að umboðsmaður fjallaði um kvörtunina að svo stöddu.

 

Umboðsmaður lauk málinu með bréfi, dags. 19. ágúst 2022, sem hljóðar svo:

 

Vísað er til kvörtunar yðar 22. júní sl. yfir málsmeðferð í aðdraganda þess að yður var veitt leyfi frá störfum við Innheimtustofnun sveitarfélaga 14. desember sl. og ráðningarsamningi yðar rift 29. mars sl., auk þess sem kvörtunin beinist að athöfnum og samskiptum við stofnunina sem tengjast framangreindu.

Samkvæmt 1. mgr. 2. gr. laga nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis, er hlutverk hans að hafa í umboði Alþingis eftirlit með stjórnsýslu ríkis og sveitarfélaga á þann hátt sem nánar greinir í lögunum og tryggja rétt borgaranna gagnvart stjórnvöldum landsins. Af ákvæðum laganna leiðir að umboðsmaður fjallar að jafnaði ekki um mál fyrr en það hefur verið leitt til lykta innan stjórnsýslunnar, sbr. m.a. 3. mgr. 6. gr. laganna, sem fjallað var um í bréfi mínu 28. febrúar sl. Hið sama á að jafnaði við ef sömu atvik og kvörtun snertir eru enn til athugunar af hálfu stjórnvalda.

Innheimtustofnun sveitarfélaga kærði yður til héraðssaksóknara 2. og 8. febrúar sl. vegna gruns um refsiverð brot og liggur ekki annað fyrir en að málið sé enn til rannsóknar hjá því embætti á grundvelli laga nr. 88/2008, um meðferð sakamála. Þar sem sömu atvik og kvörtun yðar er að rekja til eru til athugunar hjá stjórnvöldum tel ég ekki tímabært að fjalla um mál yðar að svo stöddu og lýk því umfjöllun minni um málið, sbr. 1. mgr. 10. gr. laga nr. 85/1997.