Opinberir starfsmenn. Skilyrði þess að kvörtun verði tekin til meðferðar.

(Mál nr. 11228/2021)

Kvartað var yfir uppsögn úr starfi samhliða því að það var lagt niður sem og að sveitarfélagið hefði hvorki rökstutt uppsögnina með fullnægjandi hætti né fallist á beiðni um gögn. Ennfremur hefði það hafnað að ganga frá fjárhagslegu uppgjöri vegna afnota af verkfærum viðkomandi.

Þar sem meira en ár leið frá uppsögninni þar til viðkomandi kvartaði voru ekki skilyrði til að umboðsmaður fjallaði um þá ákvörðun. Hvað aðgang að gögnum snerti hafði sá ágreiningur ekki verið lagður undir úrskurðarnefnd upplýsingamála og því ekki heldur skilyrði til að umboðsmaður fjallaði um það. Athugun umboðsmanns var því afmörkuð við það hvort sveitarfélaginu hefði verið heimilt að binda boð um greiðslu verkfæragjalds því skilyrði að þar með væri öllum málum vegna starfslokanna lokið. Að teknu tilliti til skýringa sveitarfélagsins og atvikum málsins taldi umboðsmaður ekki nægt tilefni til að gera athugasemdir við tilboðið.

 

 Umboðsmaður lauk málinu með bréfi, dags. 26. ágúst 2022, sem hljóðar svo:

 

I

Vísað er til kvörtunar yðar 21. júlí 2021 yfir ákvörðun Skeiða- og Gnúpverjahrepps 15. júlí 2020 þess efnis að segja upp ráðningarsamningi yðar sem [...] með þriggja mánaða uppsagnarfresti frá og með 1. ágúst þess árs samhliða því að ákveðið var að leggja niður starfið. Kvörtunin beinist einnig að því að sveitar­félagið hafi ekki veitt yður rökstuðning fyrir uppsögninni umfram það sem fram kom í bréfi 13. ágúst 2020 eða fallist á beiðni yðar um upplýsingar. Þá eru enn fremur gerðar athugasemdir við að sveitarfélagið hafi hafnað að ganga frá fjárhagslegu uppgjöri vegna afnota þess af verkfærum yðar.

Samkvæmt 2. mgr. 6. gr. laga nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis, er meðal skilyrða þess að kvörtun verði tekin til meðferðar að hún hafi verið borin fram innan árs frá því er stjórnsýslugerningur sá, er um ræðir, var til lykta leiddur. Þar sem lengri tími en ár leið frá því að ákvörðun sveitarfélagsins um að segja upp ráðningarsamningnum barst yður þar til kvörtun yðar barst umboðsmanni eru ekki uppfyllt lagaskilyrði til þess að embættið fjalli um þá ákvörðun. Getur það ekki haggað þessari niðurstöðu þótt rökstuðningur sveitarfélagsins hafi ekki legið fyrir fyrr en síðar.

Í tilefni af þeim þætti málsins sem snertir beiðni yðar um aðgang að upplýsingum hjá sveitarfélaginu tek ég fram að líta verður svo á að um rétt yðar að þessu leyti fari samkvæmt ákvæðum upplýsingalaga nr. 140/2012. Á grundvelli þeirra laga starfar úrskurðarnefnd um upplýsingamál sem hefur það hlutverk að leysa úr ágreiningsmálum um aðgang almennings að upplýsingum hjá stjórnvöldum, sbr. V. kafla laganna. Samkvæmt 3. mgr. 6. gr. laga nr. 85/1997 er ekki unnt að kvarta til umboðsmanns ef skjóta má máli til æðra stjórnvalds og það hefur ekki fellt úrskurð sinn í því. Þar sem ekki liggur fyrir úrskurður téðrar nefndar í málinu bresta lagaskilyrði til að kvörtun yðar verði tekin til meðferðar að þessu leyti.

Með hliðsjón af framangreindu hefur athugun umboðsmanns verið afmörkuð við það hvort Skeiða- og Gnúpverjahreppi hafi verið heimilt að binda boð um greiðslu verkfæragjalds skilyrði um að þar með væri öllum málum er tengjast starfslokum yðar lokið.

 

II

Í framhaldi af fyrrgreindum starfslokum yðar hjá sveitarfélaginu áttuð þér í samskiptum við það á síðari hluta ársins 2020 um fjárhagslegt uppgjör vegna afnota sveitarfélagsins af verkfærum í eigu yðar. Í tölvubréfi lögmanns sveitarfélagsins 18. janúar 2021 til lögmanns yðar sagði í tilefni af ágreiningi um það uppgjör:

 

„Varðandi niðurlag tölvupósts þíns þá kannast umbjóðandi minn að hafa átt samtal við umbjóðanda þinn þar sem umbjóðandi þinn sóttist eftir greiðslu vegna verkfæra. Umbjóðandi minn fellst hins vegar ekki á að komist hafi á munnlegt samkomulag um greiðslu vegna þeirra. Hingað til hefur umbjóðandi minn ekki talið tilefni til að greiða umbjóðanda þínum vegna þeirra og má m.a. nefna að töluvert magn verkfæra var keypt út á reikning sveitarfélagsins. Í þeirri viðleitni að ljúka þeim ágreiningi sem hefur risið í kjölfar starfsloka umbjóðanda þíns vill umbjóðandi minn þó bjóða fram greiðslu sem nemur kröfum umbjóðanda þíns undir þessum lið, 350.000 kr. Er sáttaboðið sett fram með fyrirvara um að með þeirri greiðslu sé öllum málum, er varða starfslok umbjóðanda þíns, þar með lokið.“

 

Sams konar sáttaboð kom einnig fram í bréfi lögmannsins 9. apríl 2021. Í skýringum sveitarfélagsins 16. desember 2021, í tilefni af beiðni umboðsmanns Alþingis, kom m.a. fram að það hefði frá upphafi verið afstaða sveitarfélagsins að þér ættuð ekki rétt á fjárhagslegu endurgjaldi frá því vegna verkfæraleigu. Það hefði ekki verið ætlun sveitarfélagsins að skilyrða sáttaboðið við annað en að með því væri ágreiningi aðila um fjárhagslega þætti lokið.

 

III

Af gögnum málsins er ljóst að í framhaldi af fyrrgreindum starfslokum var ágreiningur um skyldu sveitarfélagsins til að greiða yður gjald fyrir afnot af verkfærum. Í þessu ljósi og með hliðsjón af fyrrgreindu sáttaboði er rétt að minna á að stjórnvald verður almennt að stíga varlega til jarðar og meta hvort því sé heimilt að setja fram kröfu um að borgari samþykki samningsákvæði um að hann muni ekki láta reyna á lögmæti tiltekinna athafna stjórnvaldsins, sbr. álit umboðsmanns Alþingis 23. september 2019 í máli nr. 9622/2018. Svo sem nánar var rakið í álitinu verður þó í því sambandi að líta til atvika hvers máls og þess lagagrundvallar sem byggt er á hverju sinni.

Ólíkt því sem átti við í fyrrgreindu máli nr. 9622/2018 var sáttatilboð sveitarfélagsins í þessu máli ekki hluti af samkomulagi sem byggðist á sérstakri lagaheimild. Að því virtu og að teknu tilliti til skýringa sveitarfélagsins um að aðeins hafi staðið til að skilyrða sáttaboðið við að fjárhagslegum ágreiningi aðila yrði lokið tel ég ekki nægt tilefni til að gera athugasemdir við téð tilboð. Að öðru leyti tel ég ekki tilefni til að fjalla sérstaklega þau atriði sem fram koma í kvörtun í yðar.

  

IV

Með vísan til þess sem að framan er rakið lýk ég umfjöllun minni um málið, sbr. a-lið 2. mgr. 10. gr. laga nr. 85/1997.