Skattar og gjöld.

(Mál nr. 11402/2021)

Kvartað var yfir ákvörðun Bílastæðasjóðs Reykjavíkur um álagningu stöðubrotsgjalds. Einkum voru gerðar athugasemdir við að gjaldið hefði verið lagt á þótt sjóðurinn hefði áður upplýst að það yrði ekki gert á hinu umdeilda svæði meðan beðið væri eftir áliti samgöngu- og sveitarstjórnarnarráðuneytisins. Þá laut kvörtunin að þeirri almennu afstöðu sjóðsins að bannað sé að leggja ökutæki á svæðinu.

Í skýringum Reykjavíkurborgar kom fram að ákvörðun bílastæðasjóðs hefði verið felld úr gildi þar sem láðst hefði að upplýsa viðkomandi um niðurstöðu ráðuneytisins. Síðar hefði verið tilkynnt um að framvegis yrði gjöld lögð á ökutæki sem lagt yrði á staðnum og rökstuðningur fylgt því. Taldi umboðsmaður því ekki ástæðu til að fjalla frekar um þennan þátt kvörtunarinnar. Þá taldi hann ekki annað ráðið en svæðið væri ekki ætlað til að leggja bílum og því ekki forsendur til að gera athugasemdir við afstöðu bílastæðasjóðs.

 

Umboðsmaður lauk málinu með bréfi, dags. 23. ágúst 2022, sem hljóðar svo:

 

I

Vísað er til ódagsettrar kvörtunar yðar fyrir hönd A, sem barst 18. nóvember 2021, yfir ákvörðun Bílastæðasjóðs Reykjavíkur um álagningu stöðubrotsgjalds 23. mars þess árs. Í kvörtuninni eru einkum gerðar athugasemdir við málsmeðferð Bílastæðasjóðs og að gjaldið hafi verið lagt á þótt sjóðurinn hefði áður upplýst um að það yrði ekki gert á hinu umdeilda svæði meðan beðið væri eftir áliti samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytisins. Þá lýtur kvörtunin að þeirri almennu afstöðu Bílastæðasjóðs að óheimilt sé að leggja ökutæki á umræddu svæði.

Með bréfi til Reykjavíkurborgar 21. mars sl. var óskað eftir upplýsingum og skýringum á nánar tilgreindum atriðum. Svör Reykjavíkurborgar bárust 12. apríl sl., en athugasemdir yðar við þau ásamt viðbótargögnum bárust 17., 18. og 19. maí sl.

 

II

Í skýringum Reykjavíkurborgar kemur fram að ákvörðun Bílastæðasjóðs um álagningu stöðubrotsgjalds 23. mars 2021 hafi verið felld úr gildi þar sem láðst hefði að upplýsa A um niðurstöðu ráðuneytisins og yður hafi verið greint frá því með tölvubréfi 31. sama mánaðar. Ekkert stöðubrotsgjald hafi verið lagt á ökutæki A fyrr en á þessu ári, en yður hafi verið tilkynnt um að gjöld yrðu framvegis lögð á ökutæki sem lagt yrði á umræddum stað og þá fylgdi frekari rökstuðningur fyrir þeirri afstöðu með tölvubréfi 25. maí 2021. Styðjast þær skýringar jafnframt við þau gögn sem fylgdu bréfi sveitarfélagsins.

Að þessu virtu og í ljósi þess að fallið var frá álagningu stöðubrotsgjaldsins er ekki nægilegt tilefni til að fjalla frekar um þann þátt kvörtunar yðar er lýtur að álagningu stöðubrotsgjalds 23. mars 2021.

 

 III

Í kvörtuninni eru gerðar athugasemdir við þá almennu afstöðu Bíla­stæða­sjóðs að lagning ökutækja á umræddum stað sé í andstöðu við 3. mgr. 28. gr. umferðarlaga nr. 77/2019 og heimild Reykjavíkurborgar til álagningar slíks gjalds. Með athugasemdum yðar fylgdi jafnframt afrit af tilkynningu um álagningu stöðubrotsgjalds á þeim stað 18. maí sl.

Samkvæmt 3. mgr. 28. gr. umferðarlaga má eigi stöðva skráningarskylt ökutæki eða leggja því á stöðum sem ekki eru ætlaðir fyrir umferð slíkra ökutækja, svo sem gangstétt, göngustíg, göngugötu, hjólarein eða hjólastíg nema annað sé ákveðið, sbr. 1. mgr. 84. gr. laganna. Sama á við um umferðareyjar, grassvæði og aðra svipaða staði.

Orðasambandið „svipaðir staðir“ hefur verið skilið þannig að það vísi til þeirra staða eða svæða við vegi, eins og það hugtak er skýrt í umferðarlögum, sem eru ekki ætluð umferð ökutækja eða til þess að bifreiðum verði lagt þar, sbr. álit setts umboðsmanns Alþingis 28. ágúst 2013 í máli nr. 7322/2012. Við mat á því hvort ökutæki sé lagt á „öðrum svipuðum stöðum“ kann að þurfa að líta til þess hvort umbúnaður og frágangur við umferðarmannvirki gefi nægilega skýrt til kynna afmörkun milli þeirra svæða sem ætluð eru fyrir umferð og stöðu bifreiða og þeirra svæða sem ekki má leggja bifreiðum, sbr. til hliðsjónar bréf umboðsmanns Alþingis 7. september 2012 í máli nr. 7015/2012.    

Samkvæmt kvörtun yðar og gögnum málsins, en á meðal þeirra eru ljósmyndir, var bifreið A lagt á svæði við ruslagáma á lóð við líkamsræktarstöð í Laugardalnum. Umhverfis svæðið eru járnstaurar sem ætlað er að hindra umferð ökutækja og þá er ekki gert ráð fyrir bílastæði á svæðinu samkvæmt deiliskipulagi. Það verður því ekki annað ráðið en að umrætt svæði sé ekki ætlað fyrir lagningu bifreiða. Að virtu öllu framangreindu og með hliðsjón af skýringum Reykjavíkurborgar tel ég ekki forsendur til þess að gera athugasemdir við þá afstöðu Bílastæðasjóðs að bifreið sem er lagt á svæði sé lagt í andstöðu við fyrirmæli 3. mgr. 28. gr. umferðarlaga.

 

IV

Með vísan til framangreinds lýk ég athugun minni á kvörtun yðar, sbr. a-lið 2. mgr. 10. gr. laga nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis.