Lögreglu og sakamál. Skilyrði þess að kvörtun verði tekin til meðferðar.

(Mál nr. 11485/2022)

Kvartað var yfir rannsókn andláts og meðferð málsins hjá lögreglustjóranum á höfuðborgarsvæðinu, ríkissaksóknara og nefndar um eftirlit með lögreglu.

Af gögnum málsins og að teknu tilliti til svigrúms ríkissaksóknara við þá ákvörðun sem um ræddi taldi umboðsmaður ekki forsendur til að gera athugasemdir við mat embættisins og niðurstöðu þess að staðfesta ákvörðun lögreglustjórans. Þá væri ekki tilefni til að beina tilmælum til stjórnvaldanna um það sem betur hefði mátt fara við rannsókn málsins enda hefði ríkissaksóknari þegar greint þá þætti og komið athugasemdum  og ábendingum á framfæri við hlutaðeigandi stjórnvald. Þá yrði ekki séð að lagaskylda hefði hvílt á lögreglu eða ríkissaksóknara að upplýsa að fyrra bragði um rannsóknina. Ennfremur væri það almennt ekki hlutverk umboðsmanns að taka afstöðu til athafna eða athafnaleysis ráðherra sem einungis yrði talinn þáttur eða liður í stjórnmálastarfi eða störfum á Alþingi. Að öðru leyti gæfi kvörtunin ekki tilefni til sérstakrar umfjöllunar eða athugasemda.

 

Umboðsmaður lauk málinu með bréfi, dags. 25. ágúst 2022, sem hljóðar svo:

 

I

Vísað er til kvörtunar yðar 12. janúar sl., f.h. A, vegna rannsóknar og málsmeðferðar lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu, ríkissaksóknara og nefndar um eftirlit með lögreglu vegna andláts dóttur hennar, B, en fyrir liggur að ríkissaksóknari staðfesti 13. janúar 2021 ákvörðun lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu 15. september 2020 um að hætta rannsókn á andláti hennar með vísan til 4. mgr. 52. gr. laga nr. 88/2008, um meðferð sakamála. Þá lauk nefnd um eftirlit með lögreglu umfjöllun sinni um málið 16. ágúst 2021. Áður en lengra er haldið vil ég votta umbjóðanda þínum samúð mína vegna fráfalls dóttur hennar.    

Í kvörtun yðar eru m.a. gerðar athugasemdir við að lögregla og ríkissaksóknari hafi ekki tekið afstöðu til greinargerðar A um málið. Ríkissaksóknari hafi þannig valið ákveðin atriði til að fjalla um en ekki tekið afstöðu til annarra. Þér vísið jafnframt til þess að A hafi ekki fengið heildstætt mat á því hvort rannsókn lögreglu hafi verið ófullnægjandi og óskið álits umboðsmanns á því hvort rannsóknin hafi verið gagnrýnisverð. Þá gerið þér athugasemdir við að hún hafi engar upplýsingar fengið um athugun lögreglu á eigin rannsókn sem og að nefnd um eftirlit með lögreglu hafi hvorki tilkynnt henni né yður um að málinu væri lokið fyrr en tveimur mánuðum eftir að óskað var upplýsinga þar um. Þér óskið jafnframt álits umboðsmanns á því hvort erindi og tölvubréf A til dómsmálaráðuneytisins hafi átt að gefa ráðherra tilefni til frekari viðbragða sem og hvort rétt sé að ráðuneytið upplýsi hana um í hvaða aðgerðir hafi verið ráðist vegna málsins. Að lokum er þess óskað að umboðsmaður taki málið til meðferðar og láti í ljós álit sitt á málsmeðferð þeirra stjórnvalda sem að málinu komu.

    

II

Um rannsókn sakamála er fjallað í 2. þætti laga nr. 88/2008, um meðferð sakamála. Samkvæmt 2. málslið 4. mgr. 52. gr. laganna getur lögregla hætt rannsókn ef ekki þykir grundvöllur til að halda henni áfram. Hafa verður önnur fyrirmæli laganna í huga við túlkun þessa ákvæðis, svo sem 1. mgr. 53. gr. laganna, þar sem segir að markmið rannsóknar sé að afla allra nauðsynlegra gagna til þess að ákæranda sé fært að ákveða að henni lokinni hvort sækja skuli mann til sakar, svo og afla gagna til undirbúnings málsmeðferð fyrir dómi.

Samkvæmt framangreindu hefur löggjafinn veitt lögreglu ákveðið svigrúm til að meta hvort grundvöllur sé fyrir að halda rannsókn sakamáls áfram. Með fyrrgreindum ákvæðum laga nr. 88/2008 er þannig gengið út frá því að lögregla taki matskennda ákvörðun um rannsókn en þeirri ákvörðun megi skjóta til ríkissaksóknara, sbr. 6. mgr. 52. gr. laganna. Við þær aðstæður kemur það þar af leiðandi í hlut ríkissaksóknara að leggja m.a. mat á hvort mál hafi verið fullrannsakað af lögreglu áður en ákvörðun um afdrif þess var tekin sem og hvort fyrirliggjandi upplýsingar og gögn gefi tilefni til þess að ætla megi að með frekari rannsókn kunni að koma fram nýjar upplýsingar sem geti leitt til saksóknar.

Þegar löggjafinn hefur falið stjórnvöldum svigrúm til mats við ákvörðun sína, svo sem hér á við, beinist athugun umboðsmanns fyrst og fremst að því að kanna hvort stjórnvöld hafi gætt málsmeðferðarreglna, bæði lögfestra og ólögfestra, hvort byggt hafi verið á málefnalegum sjónarmiðum og hvort forsvaranlegar ályktanir hafi verið dregnar af gögnum málsins.

Í „afstöðu“ ríkissaksóknara 13. janúar 2021 var komist að þeirri niðurstöðu að ekki væru forsendur til frekari sakamálarannsóknar vegna andláts B. Sú niðurstaða var einkum á því reist að ekki væri tilefni til að ætla að henni hefði, án hennar vilja eða vitundar, verið byrlað efni sem leiddi til dauða. Ekki væru fyrir hendi sönnunargögn sem sýndu fram á að kærði í málinu eða hugsanlega aðrir hefðu valdið dauða hennar með slíkum hætti og ekki væri unnt að leiða atvik að þessu leyti frekar í ljós með réttarlæknisfræðilegri rannsókn eða öðrum aðferðum. Vettvangur yrði ekki rannsakaður frekar og ekki væru fyrir hendi upplýsingar um sjónarvotta sem gætu borið um atvik. Í þessum efnum var jafnframt bent á að mögulegar frásagnir aðila af háttsemi kærða, sem ekki yrði séð að hefði verið til rannsóknar hjá lögreglu, hefðu lítið sönnunargildi um ætlaða byrlun efna.

Fyrir liggur að ríkissaksóknari aflaði frekari skýringa þess réttarmeinafræðings sem framkvæmdi réttarkrufningu vegna málsins. Í svari hans til embættisins kom m.a. fram að hann hefði, í kjölfar athugasemda frá aðstandendum, aflað upplýsinga frá rannsóknarstofu í lyfja- og eiturefnafræði sem og hjá erlendum starfsystkinum. Að hans mati væri ekki unnt að álykta sem svo að B hefði ekki getað innbyrt efnin sjálf. Skoðun á nánar tilteknum líkamshluta hefði auk þess ekki leitt í ljós neitt óeðlilegt. Ekki hefðu verið tekin sýni úr þeim líkamshluta en það væri þó að jafnaði ekki gert nema sérstakt tilefni væri til. Þá kom fram í téðu svari réttarmeinafræðingsins að ekki væri útilokað að efnisins hefði verið neytt um munn þó ekki hefðu sést matar- eða lyfjaagnir við skoðun á innihaldi maga. Ekki væru líkur á að unnt væri að reikna út frá fyrirliggjandi blóðsýnum hvar upptökusvæði efnisins hefði verið. Einnig kom fram í svarinu að frásagnir af fyrri neyslu B og ástandi hennar, áður en hún og kærði komu að nánar tilteknu húsnæði um morgun á andlátsdegi, væru ekki til þess fallnar að breyta sönnunarstöðu málsins hvað snerti ætlaða byrlun efna, jafnvel þótt fram kæmi að hún hefði verið í betra ástandi en lýsingar foreldra kærða bæru með sér.

Viðvíkjandi misræmi á milli framburðar kærða í fyrri og síðari skýrslutöku hjá lögreglu, sem og misræmi á milli framburðar kærða og frásagnar foreldra hans, sagði í afstöðu ríkissaksóknara að hafa yrði í huga að miðað við ástand kærða væri ekki ótrúverðugt að hann hefði takmarkað minni af atvikum í aðdraganda þess að hann kom að B látinni í herbergi þeirra. Að hluta til væri einnig um að ræða frásagnir á vettvangi sem skráðar voru af lögreglu í samræmi við 1. mgr. 60. gr. laga nr. 88/2008 og þær því hvorki staðfestar sérstaklega né hljóðritaðar. Ný skýrslutaka af kærða, þar sem framkomið misræmi yrði borið undir hann, yrði að mati ríkissaksóknara ekki til þess fallin að breyta sönnunarstöðu málsins.

Um það hvort kærði hefði látið fyrir farast að koma B til bjargar sagði í téðri afstöðu ríkissaksóknara að vafi væri fyrir hendi um hvort kærði hefði getað gert sér grein fyrir ástandi hennar í aðdraganda andlátsins eða metið aðstæður svo að hún væri í lífsháska vegna ástands hans umrætt sinn. Þann vafa yrði að túlka kærða í hag samkvæmt meginreglum sakamálaréttarfars.

Af framangreindu, svo og gögnum málsins að öðru leyti, tel ég að ráðið verði að ríkissaksóknari hafi lagt mat á hvort framkomin gögn og upplýsingar réttlættu áframhaldandi rannsókn og einnig hvort líkur væru á að frekari rannsókn myndi upplýsa málið þannig að leitt gæti til saksóknar. Einnig verður að líta svo á að við mat sitt hafi ríkissaksóknari jafnframt tekið afstöðu til veigamestu athugasemda A og leitast við að upplýsa málið frekar. Í þessum efnum bendi ég þó á að í skyldu stjórnvalda til rökstuðnings ákvarðana sinna felst ekki að þeim sé almennt skylt að taka sérhverja málsástæðu sem aðili hefur fært fram máli sínu til stuðnings til sérstakrar umfjöllunar.

Þótt ríkissaksóknari hafi staðfest ákvörðun lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu gerði embættið margvíslegar athugasemdir við rannsókn og málsmeðferð lögreglu, bæði með fyrrgreindri afstöðu sinni 13. janúar 2021 sem og í bréfi sínu til lögreglustjórans 15. sama mánaðar. Auk þess beindi embættið tilteknum ábendingum til lögreglustjórans um atriði sem það taldi rétt að hugað yrði framvegis að við rannsókn á svipuðum málum.

Eftir að hafa kynnt mér gögn málsins, og að teknu tilliti til fyrrgreinds svigrúms ríkissaksóknara við þá ákvörðun sem hér var um að ræða, tel ég mig ekki hafa forsendur til þess að gera athugasemdir við framangreint mat embættisins og þar með þá niðurstöðu þess 13. janúar 2021 að staðfesta efnislega ákvörðun lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu. Þá tel ég ekki tilefni til þess að beina tilmælum til stjórnvaldanna um það sem betur hefði mátt fara við rannsókn málsins, enda hefur ríkissaksóknari þegar greint þá þætti málsins og komið athugasemdum og ábendingum á framfæri við hlutaðeigandi stjórnvald, líkt og áður greinir.

 

III

Hvað snertir athugasemdir yðar um að A hafi engar upplýsingar fengið um yfirferð lögreglu á eigin rannsókn athugast að ekki verður ráðið af gögnum málsins að hún hafi leitað eftir slíkum upplýsingum, t.d. á grundvelli upplýsingalaga. Verður ekki séð að lagaskylda hafi hvílt á lögreglu eða ríkissaksóknara að upplýsa umbjóðanda yðar um framangreint að eigin frumkvæði. Hið sama á við um þann hluta kvörtunar yðar er lýtur að dómsmálaráðuneytinu og þeim aðgerðum sem ráðuneytið kann að hafa ráðist í vegna málsins. Fari svo að umbjóðandi yðar beini erindum að þessu leyti til framangreindra stjórnvalda, og hann telur sig enn beittan rangsleitni að fengnum niðurstöðum þeirra, er honum hins vegar fært að leita til umboðsmanns á ný með erindi þar að lútandi og þá þegar málið hefur verið leitt til lykta innan stjórnsýslunnar, sbr. 3. mgr. 6. gr. laga nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis.

Viðvíkjandi ósk yðar um að umboðsmaður láti í té álit sitt á því hvort erindi og tölvubréf A til dómsmála­ráðuneytisins hafi átt að gefa ráðherra tilefni til frekari viðbragða tek ég fram að það fellur almennt utan hlutverks umboðsmanns að lögum að taka afstöðu til athafna eða athafnaleysis ráðherra sem einungis verða talin þáttur eða liður í stjórnmálastarfi eða störfum á Alþingi. Erindi A beindust fyrst og fremst að pólitískri stefnumótun dómsmálaráðherra í málefnum aðstandenda brotaþola við rannsókn sakamála og hugsanlegum breytingum á lögum og reglum í þeim efnum. Erindið að þessu leyti fellur því ekki undir starfssvið umboðsmanns. Ég tel þó rétt að upplýsa yðar um að 15. júní sl. var stjórnarfrumvarp dómsmálaráðherra um breytingu á lögum um meðferð sakamála og lögum um fullnustu refsinga samþykkt á Alþingi en frumvarpið varð að lögum sama dag. Með frumvarpinu er réttarstaða aðstandenda látins manns styrkt við þær aðstæður að rannsókn lögreglu beinist að dánarorsök hans.

Svo sem áður greinir hefur nefnd um eftirlit með lögreglu viðurkennt að hafa hvorki tilkynnt yður né A um lok málsins hjá nefndinni á sínum tíma. Hins vegar liggur fyrir að úr þessu var bætt eftir að mistökin uppgötvuðust. Að þessu virtu er ekki tilefni til að gera sjálfstæðar athugasemdir við þennan þátt málsins. Þá tel ég að kvörtun yðar að öðru leyti gefi ekki tilefni til sérstakrar umfjöllunar eða athugasemda af minni hálfu.

 

IV

Í ljósi þess sem að framan er rakið er umfjöllun minni um málið hér með lokið, sbr. 1. mgr. 10. gr. laga nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis.