Stjórn fiskveiða. Skilyrði í reglugerð fyrir útgáfu veiðileyfa. Lagaheimild.

(Mál nr. 505/1991)

Máli lokið með áliti, dags. 9. október 1992.

A kvartaði yfir því, að sjávarútvegsráðuneytið hefði synjað umsókn hans um veiðileyfi fyrir bátinn X 4,17 brl. að stærð, þar sem hann hefði ekki fengið gilt haffærisskírteini fyrir 1. maí 1991, sbr. 2. mgr. 1. gr. reglugerðar nr. 465/1990, um veiðar í atvinnuskyni. Umboðsmaður tók fram, að miðað við orðalag og skipan ákvæða 5. gr. laga nr. 38/1990, um stjórn fiskveiða, væri að hans dómi ekki sett önnur skilyrði fyrir veiðileyfi báta undir 6 brl., er 2. ml. 1. mgr. lagagreinar þessarar tæki til, en þau, að beiðni um skráningu þeirra á tilgreindar skrár Siglingamálastofnunar ríkisins hefði borist ásamt fullnægjandi gögnum innan mánaðar frá gildistöku laga nr. 38/1990 um stjórn fiskveiða. Naumast lægi því fyrir svo sem sjávarútvegsráðuneytið héldi fram, að skilyrðið um að skip hafi ekki horfið varanlega úr rekstri, sbr. 1. ml. 1. mgr. 5. gr. laganna, ætti einnig beinlínis við um báta þessa. Nokkur vafi væri þess vegna um það, hvort í ákvæðinu væru tæmandi talin skilyrði fyrir veiðileyfum umræddra báta, þannig að við þau yrði ekki aukið í reglugerð. Í áliti sínu taldi umboðsmaður að óhjákvæmilegt væri við úrlausn málsins að líta til þeirrar tilhögunar, sem ákveðin væri í lögum nr. 38/1990 á úthlutun aflaheimilda og þeirra forsendna, sem framkvæmd tilhögunar þessarar hlyti að byggjast á. Væri ljóst af 2. mgr. II. bráðabirgðaákvæðis laga nr. 38/1990, að nánari ákvörðun á aflahlutdeild hvers báts um sig hlyti að ráðast af því, hve margir aðrir bátar ættu rétt á hlutdeild í heildaraflanum og hver hlutdeild þeirra væri. Hefði skipan laga nr. 38/1990 knúið á um það, að ekki drægist úr hömlu að niðurstaða fengist um, hvaða bátar öðluðust hlutdeild úr heildaraflanum. Féllst umboðsmaður á það, að ekki gætu komið til greina bátar, sem þannig væri ástatt um, að þeim yrði ekki haldið til veiða. Einnig hefði verið veruleg óvissa um fjölda báta undir 6 brl., þar sem slíkir bátar hefðu almennt ekki þurft veiðileyfi fyrir gildistöku laga nr. 38/1990. Sjávarútvegsráðuneytinu hefði því verið heimilt að taka af skarið með reglugerð á grundvelli 13. gr. laga nr. 38/1990. Umboðsmaður taldi það styðja heimild sjávarútvegsráðuneytisins, að önnur skip og bátar, sem fjallað væri um í 1. og 3. ml. 1. mgr. 5. gr. laga nr. 38/1990, áttu ekki kost á veiðileyfi, ef þau höfðu horfið varanlega úr rekstri eða höfðu ekki fengið haffærisskírteini innan þriggja mánaða frá gildistöku laganna. Var það álit umboðsmanns, að ekki hefði verið ólögmætt að sjávarútvegsráðuneytið beitti heimild sinni til að taka af skarið í reglugerð um umrætt efni á þann hátt að miða við útgáfu haffærisskírteinis og setja þeirri útgáfu frest til 1. maí 1991, sbr. 2. og 3. mgr. 1. gr. reglugerðar nr. 465/1990. Þótt reglugerðin hefði verið birt lögum samkvæmt, taldi umboðsmaður, að í bréfi, sem sent var útgerðarmönnum í nóvember 1990, hefði verið æskilegra að berum orðum hefði verið vísað til umrædds skilyrðis um útgáfu haffærisskírteinis og frest til þess. Það hefði aftur á móti verið gert í fréttatilkynningu ráðuneytisins 30. nóvember 1990 og taldi umboðsmaður þá kynningu fullnægjandi að lögum.

I. Kvörtun og málavextir.

Hinn 10. október 1991 leitaði A til mín og kvartaði yfir þeirri ákvörðun sjávarútvegsráðuneytisins frá 2. október 1991 að hafna umsókn hans um veiðileyfi fyrir bátinn X með þeim rökum, að báturinn hefði ekki verið búinn að fá gilt haffærisskírteini fyrir 1. maí 1991.

A greindi svo frá í bréfi til sjávarútvegsráðuneytisins 20. september 1991, að hann hefði látið smíða X í Hafnarfirði á árinu 1976, en X er 4,17 brl. eikarbátur. Hefði hann stundað grásleppuveiðar á bátnum fram til ársins 1979, en eftir það hefði hann gert út á handfæri til ársins 1986. Þá hefði hann selt bátinn, en þurft að leysa hann til sín aftur vegna vanefnda kaupandans. Á árunum 1987--1989 kvaðst A hafa leigt bátinn, en úr því hefði ekki orðið á árinu 1990, þar sem dregist hefði að lagfæra hann og hann hefði ekki viljað leigja hann áfram nema með gildu haffærisskírteini. Vorið 1991 kvaðst A hafa byrjað lagfæringar á bátnum, svo að hægt yrði að hafa af honum arð. Hinn 29. apríl 1991 kvaðst A hafa fengið vitneskju um, að til þess að fá útgefið veiðileyfi á grundvelli laga nr. 38/1990 um stjórn fiskveiða, þyrfti báturinn að hafa gilt haffærisskírteini fyrir 1. maí 1991. Með símtali sama dag hefði hann fengið sömu upplýsingar frá sjávarútvegsráðuneytinu. Í framhaldi af því hefði hann einnig sama dag fengið skipaskoðunarmann til þess að skoða bátinn. Hefði þá komið í ljós, að lagfæra þurfti bátinn talsvert, ef hann ætti að fá útgefið haffærisskírteini. A kvaðst hafa fengið þær upplýsingar hjá nefndum skipaskoðunarmanni, að veittur hefði verið frestur til 10. maí 1991 til þess að gera báta haffæra. Þrátt fyrir ráðstafanir A lauk viðgerðunum ekki fyrr en 3. júní 1991 og var haffærisskírteini gefið út 26. júní 1991.

Í áðurgreindu bréfi A frá 20. september 1991 óskaði hann eftir, að sjávarútvegsráðherra beitti sér fyrir því, að X fengi veiðileyfi. Í svarbréfi sjávarútvegsráðuneytisins, dags. 2. október 1991, sagði:

„Samkvæmt 5. gr. laga nr. 38/1990, um stjórn fiskveiða gafst bátum minni en 6 brl. og ekki höfðu horfið varanlega úr rekstri, kostur á leyfi til veiða í atvinnuskyni. Skilyrði fyrir útgáfu veiðileyfis var að bátur væri skráður á skipaskrá Siglingamálastofnunar ríkisins við gildistöku laganna þann 18. maí 1990 eða að sótt hefði verið um skráningu á skipaskrá fyrir 18. júní 1990. Þá var sú krafa gerð að bátur sem uppfyllti framangreind skilyrði þyrfti að hafa öðlast fullgilt haffærnisskírteini áður en veiðileyfi yrði gefið út. Var frestur til að gera bát haffæran allt til 1. maí á þessu ári.

Fyrir liggur að báturinn fékk ekki útgefið haffærisskírteini fyrr en 26. júní sl. Með hliðsjón af framansögðu getur ráðuneytið ekki orðið við erindi yðar um að veita bátnum leyfi til veiða í atvinnuskyni.“

Í kvörtun sinni tók A fram, að hann minntist þess ekki, að honum hefði verið tilkynnt það sérstaklega, að X yrði að hafa gilt haffærisskírteini fyrir umræddan tíma.

II. Athugun umboðsmanns Alþingis.

Í tilefni af kvörtun A ritaði ég sjávarútvegsráðherra bréf 4. nóvember 1991 og óskaði eftir því, sbr. 7. og 9. gr. laga nr. 13/1987, að sjávarútvegsráðuneytið skýrði viðhorf sitt til kvörtunar A.

Skýringar sjávarútvegsráðuneytisins bárust mér með bréfi þess, dags. 9. janúar 1992. Þar segir svo:

„Samkvæmt 5. gr. laga nr. 38/1990, sem tóku gildi 18. maí 1990, koma aðeins til greina við veitingu veiðileyfa í atvinnuskyni eftirfarandi flokkar fiskiskipa:

1.Skip, sem veiðileyfi fengu samkvæmt 4. og 10. gr. laga nr. 3/1988. Þessi flokkur tekur til fiskibáta sem eru 6 brl. og stærri.

2.Bátar undir 6 brl., enda hafi beiðni um skráningu þeirra á skipaskrá, eða sérstaka skrá fyrir báta undir 6 metrum, borist Siglingamálastofnun ríkisins innan mánaðar frá gildistöku laganna, ásamt fullnægjandi gögnum.

3.Bátar undir 6 brl., enda hafi smíði þeirra hafist fyrir gildistöku laganna og haffærisskírteini verið gefið út innan þriggja mánaða frá þeim tíma.

Með reglugerð nr. [44]/1984, um stjórn botnfiskveiða 1984, sbr. lög nr. 82/[1983] voru allar fiskveiðar skipa 10 brl. bundnar sérstökum leyfum og í 3. gr. er kveðið á hvaða skip 10 brl. og stærri áttu kost á veiðileyfi. Með lögum nr. 3/1988, um stjórn fiskveiða er síðan stigið næsta skref varðandi leyfisbindingu veiða því þá eru veiðar báta stærri en 6 brl. bundnar sérstökum veiðileyfum og er í G lið 10. gr. kveðið á um hvaða skip 6 brl. og stærri áttu kost á veiðileyfi.

Með lögum nr. 38/1990, um stjórn fiskveiða, eru síðan allar fiskveiðar í atvinnuskyni leyfisbundnar án tillits til stærðar báta og er í 5. gr. laganna kveðið á um hvaða fiskiskip eigi kost á veiðileyfi í atvinnuskyni, eins og áður er rakið.

Við undirbúning frumvarps um stjórn fiskveiða kom í ljós að ekki voru allir bátar, sem veiðar höfðu stundað í atvinnuskyni, skráðir hjá Siglingamálastofnun ríkisins. Stafaði það af því að skráningarskyldir voru aðeins bátar lengri en 6 metrar og jafnframt kom í ljós að felldir höfðu verið af skipaskrá fjölmargir bátar sem skráningarskyldir voru. Þessir bátar höfðu verið felldir af skipaskrá af ýmsum orsökum, en fyrst og fremst vegna þess að þeir höfðu ekki fengið haffærisskírteini lengi og var litið svo á að þeir væru horfnir úr rekstri. Ekki hafði þó verið samræmi í þeirri framkvæmd hjá stofnuninni.

Vegna þessa var ákveðið að veita þeim aðilum, sem báta áttu sem ekki voru skráðir, frest í einn mánuð til þess að skrá báta sína skv. 3. málslið 5. gr. [á að vera 2. ml. 1. mgr. 5. gr.], enda nauðsynlegt að til væru á opinberri skrá yfirlit yfir alla fiskibáta, sem ættu kost á veiðileyfi.

Skilyrði það sem sett er í lok 1. málsliðar 5. gr. laga nr. 38/1990, um að aðeins skuli veita skipi veiðileyfi að það sé ekki varanlega horfið úr rekstri, tekur til allra skipa, en eðli máls þó sérstaklega til þeirra sem tilgreind eru í töluliðum 1. og 2. hér að framan.

Við frekari úrvinnslu á þessu atriði eftir gildistöku laganna, sumarið og haustið 1990, kom upp álitamál varðandi það atriði, hvenær bátur undir 6 brl. taldist horfinn úr rekstri. Stafaði þetta af því að enda þótt þeir væru á skrá hjá Siglingamálastofnun ríkisins eða hefðu verið skráðir þar innan tilskilins frests, var ljóst að ástand fjölmargra var með þeim hætti að þeir voru ekki hæfir til sjósóknar og höfðu ekki haft haffærisskírteini lengi.

Við framkvæmd úthlutunar veiðiheimilda til báta undir 10 brl. var jafnframt ljóst að nauðsyn bar til að fyrir lægi eins fljótt sem mögulegt væri í upphafi fiskveiðitímabilsins, sem hófst 1. janúar 1991, hvaða bátar kæmu til með að fá úthlutað veiðiheimildum á grundvelli laganna.

Nauðsyn þessi skýrist með vísan til ákvæðis II til bráðabirgða við lög nr. 38/1990, en þar er kveðið á um að skipta skuli tilteknum hluta heildarafla milli báta undir 10 brl. Ákvörðun um heimildir hvers báts hefur því áhrif á aflaheimildir allra annarra báta í hópnum. Ef gert var ráð fyrir aflahlutdeild til handa bátum sem síðar reyndust ekki fullnægja lagaskilyrðum, skerti það á óréttmætan hátt aflaheimildir allra annarra smábáta.

Ráðuneytið gat því í raun varla látið til úthlutunar koma, fyrr en ljóst væri hvaða bátar kæmu til með að fullnægja settum skilyrðum um veitingu veiðiheimilda. Ráðuneytinu bar að skipta ákveðinni aflahlutdeild milli bátanna og það varð ekki gert fyrr en séð yrði hverjir kæmu til greina í því efni. Því meiri sem óvissan var um fjölda báta því ónákvæmari yrði úthlutunin. Brýna nauðsyn bar því til þess að það skýrðist sem fyrst hvaða bátar kæmu til greina við úthlutun.

Eina raunhæfa viðmiðunin varðandi það hvort bátur teldist horfinn úr rekstri, var að leggja til grundvallar hvort ástand bátsins væri með þeim hætti að hann yrði gerður haffær. Því var sú ákvörðun tekin að gefa þeim aðilum sem áttu báta á skrá hjá Siglingamálastofnun ríkisins frest til 1. maí 1991 að gera báta sína haffæra sbr. 2. og 4. mgr. 1. gr. reglugerðar nr. 465/1990 um veiðar í atvinnuskyni. Var fresturinn ákveðinn svo rúmur að vandalaust hefði átt að vera fyrir alla aðila, sem skráða báta áttu, að fá útgefið haffærisskírteini fyrir þá innan frestsins. Með þessari ákvörðun fékk ráðuneytið endanlega niðurstöðu um fjölda báta, sem því var nauðsynleg vegna úthlutunar veiðiheimilda.

Telur ráðuneytið að heimild hafi verið til setningar þessa skilyrðis með vísan til 13. gr. laga nr. 38/1990 og með hliðsjón m.a. af 3. málslið 5. gr. þar sem haffærisskírteini er ótvírætt skilyrði fyrir veiðileyfi í atvinnuskyni varðandi nýja báta undir 6 brl.

Varðandi seinni lið fyrirspurnar yðar vill ráðuneytið taka fram að samkvæmt upplýsingum Siglingamálastofnunar ríkisins var t/b [X] á skrá hjá stofnuninni við gildistöku laga nr. 38/1990. M/b [X] fékk ekki sérstakt veiðileyfi á árinu 1990 en hafði almenna heimild skv. B lið 10. gr. laga nr. 3/1988.“

Með bréfi, dags. 14. janúar 1992, gaf ég A kost á að senda mér athugasemdir sínar í tilefni af framangreindu bréfi sjávarútvegsráðuneytisins. Athugasemdir A bárust mér með bréfi hans 7. febrúar 1992.

Á fundum með starfsmönnum sjávarútvegsráðuneytisins var mér gerð grein fyrir því, hvernig sjávarútvegsráðuneytið hefði staðið að kynningu á því skilyrði veiðileyfa samkvæmt 2. mgr. 1. gr. reglugerðar nr. 465/1990, að bátar minni en 6 brl. þyrftu að hafa öðlast fullgilt haffærisskírteini fyrir 1. maí 1991. Skýringar ráðuneytisins á þessu atriði eru áréttaðar í bréfi til mín 1. október 1992. Þar segir:

„Eins og áður segir var öllum útgerðum báta minni en 10 brl. sem skráðir voru á skipaskrá Siglingamálastofnunar ríkisins send tilraunaúthlutun í nóvember 1990. Jafnframt var útgerðum smábáta sent meðfylgjandi bréf (fskj 1) þar sem sérstök athygli er vakin á reglugerð nr. 465/1990, um veiðar í atvinnuskyni fiskveiðitímabilið 1. janúar 1991 til 31. ágúst 1991. Þann 30. nóvember gaf ráðuneytið út hjálagða fréttatilkynningu (fskj 2). Í henni var gerð ítarlega grein fyrir helstu atriðum reglugerðarinnar m.a. því ákvæði að skilyrði fyrir útgáfu leyfis til veiða í atvinnuskyni væri að bátar minni en 6 brl. hafi öðlast fullgilt haffærisskírteini fyrir 1. maí 1991. Sú skipaskrá Siglingamálastofnunar sem ráðuneytið hafði undir höndum var ekki fullnægjandi til að sundurgreina á milli haffærra og óhaffærra báta. Í fyrsta lagi var ekki búið að skrásetja báta undir 6 metrum sbr. 2. ml. 1. mgr. 5. gr. l. nr. 38/1990. Í öðru lagi var ljóst að þegar tilraunaúthlutunin fór fram að þá var verulegur hluti báta minni en 6 brl. án haffærisskírteinis. Það stafar af því að haffærisskírteini fyrir minni bátana eru að öllu jöfnu einungis gefin út fyrir sumarmánuðina en tilraunaúthlutunin fór eins og kunnugt er fram í nóvember. Í þriðja lagi voru ýmsir bátar á skipaskránni sem voru ónýtir en nokkur tími og jafnvel ár gátu liðið frá því að bátur er dæmdur ónýtur þar til að hann er strikaður af skipaskrá. Öll þessi atriði leiddu til þess að ekki var með neinu móti hægt að skilja á milli hvaða bátar fullnægðu þeirri kröfu að teljast haffærir fyrir 1. maí 1991.

Eftir að tilraunaúthlutunin fór fram höfðu eigendur ýmissa báta sem voru skráðir á skipaskrá en höfðu ekki fengið tilraunaúthlutun samband við ráðuneytið og óskuðu eftir að bátum þeirra yrði gefinn kostur á leyfi til veiða í atvinnuskyni. Þann 12. febrúar 1991 var eigendum allra þessara báta sent meðfylgjandi bréf (fskj. 3).“

Bréf það, sem vitnað er til í ofangreindu bréfi sjávarútvegsráðuneytisins sem fskj. 1, var dagsett 27. nóvember 1990. Þar sagði meðal annars:

„Varðandi nánari skýringar á þessum reglum vísast til laga nr. 38/1990 um stjórn fiskveiða einkum ákvæði II til bráðabirgða og reglugerðar frá 27. nóvember 1990 um veiðar í atvinnuskyni.“

Í fréttatilkynningu sjávarútvegsráðuneytisins, sem það vísar til sem fskj. 2 í nefndu bréfi frá 1. október 1992, segir meðal annars:

„Veiðileyfi.

Samkvæmt lögum um stjórn fiskveiða sem koma til framkvæmda um næstu áramót þurfa öll fiskiskip sem veiðar stunda í atvinnuskyni sérstakt veiðileyfi. Veiðileyfi fá öll fiskiskip 6 brúttólestir og stærri sem leyfi fengu á grundvelli þeirra laga sem falla úr gildi um áramótin. Bátum undir 6 brúttólestum, sem fullnægja ákvæðum hinna nýju laga um skráningu á skipaskrá Siglingamálastofnunar ríkisins gefst kostur á veiðileyfi, enda hafi þeir öðlast fullgilt haffærisskírteini fyrir 1. maí 1991. Auk þess gefst bátum minni en 6 brúttólestir, sem smíði var hafin á fyrir gildistöku laganna, kostur á veiðileyfi, enda hafi þeir fengið útgefið fullgilt haffærisskírteini fyrir 18. ágúst síðast liðinn. Hverfi skip sem á kost á veiðileyfi varanlega úr rekstri má úthluta nýju sambærilegu skipi veiðiheimildum í þess stað.“

III. Álit umboðsmanns Alþingis.

Í áliti mínu, dags. 9. október 1992, sagði síðan svo:

„Eins og fram kemur í bréfi sjávarútvegsráðuneytisins frá 9. janúar 1992, var X á skrá hjá Siglingamálastofnun ríkisins við gildistöku laga nr. 38/1990 um stjórn fiskveiða og hafði almenna heimild til veiða á árinu 1990 á grundvelli 1. mgr. B-liðar 10. gr. laga nr. 3/1988 um stjórn fiskveiða 1988--1990.

Kvörtun A lýtur að því, hvort heimilt hafi verið samkvæmt fyrirmælum 2. mgr. 1. gr. reglugerðar nr. 465/1990 um veiðar í atvinnuskyni, að synja X um leyfi til veiða í atvinnuskyni, þar sem báturinn hafði ekki fengið haffærisskírteini fyrir 1. maí 1991.

1.

Samkvæmt lögum nr. 38/1990, sem komu til framkvæmda 1. janúar 1991, getur enginn stundað fiskveiðar hér við land, nema hafa fengið til þess leyfi, sbr. 1. mgr. 4. gr. laganna.

Í 1. mgr. 5. gr. laga nr. 38/1990 eru talin þau skip, sem koma til greina við veitingu veiðileyfa samkvæmt lögunum, en þar segir:

„Við veitingu leyfa til veiða í atvinnuskyni koma til greina þau skip ein sem veiðileyfi fengu skv. 4. og 10. gr. laga nr. 3/1988, um stjórn fiskveiða, og ekki hafa horfið varanlega úr rekstri. Ennfremur bátar undir 6 brl. enda hafi beiðni um skráningu þeirra á skipaskrá Siglingamálastofnunar ríkisins eða sérstaka skrá stofnunarinnar fyrir báta undir 6 metrum borist ásamt fullnægjandi gögnum innan mánaðar frá gildistöku laga þessara. Auk þess skal gefinn kostur á veiðileyfi fyrir nýja báta undir 6 brl. enda hafi smíði þeirra hafist fyrir gildistöku laganna og haffærisskírteini verið gefið út innan þriggja mánaða frá þeim tíma.“

Í greinargerð með frumvarpi til laga nr. 38/1990 segir í skýringum við 5. gr., er síðar varð 5. gr. laganna, að ætlunin sé að stemma stigu við fjölgun smábáta, minni en 6 brl., með áskilnaði um leyfi til veiða á sama hátt og verið hafði um báta 6--10 brl. að stærð. Í nefndum skýringum segir einnig:

„Einungis er hægt að fá leyfi til veiða í atvinnuskyni fyrir báta sem skráðir eru hjá Siglingamálastofnun innan mánaðar frá gildistöku laga þessara. Þá er og gefið þriggja mánaða svigrúm til að ljúka þeim bátum sem smíði er þegar hafin á. Eftir þann tíma er því aðeins unnt að fá leyfi fyrir nýja báta að þeir komi í stað sambærilegra báta sem hverfa varanlega úr rekstri.“ (Alþt. 1989, A-deild, bls. 2549-2550).

Samkvæmt 29. gr. reglugerðar nr. 465/1990 um veiðar í atvinnuskyni er reglugerðin sett samkvæmt ákvæðum laga nr. 3/1988 um stjórn fiskveiða 1988--1990 og laga nr. 38/1990 um stjórn fiskveiða. Reglugerðin var birt í Stjórnartíðindum 30. nóvember 1990. Í 2. mgr. 1. gr. reglugerðarinnar eru svohljóðandi fyrirmæli:

„Bátar undir 6 brl. sem voru á skrá Siglingamálastofnunar ríkisins við gildistöku l. nr. 38/1990 koma til greina við veitingu veiðileyfa í atvinnuskyni enda hafi þeir haft gilt haffærisskírteini við útgáfu veiðileyfis og eigi síðar en 1. maí 1991. ...“

Í skýrslu sjávarútvegsráðherra til Alþingis frá því í mars 1991 um úthlutun á fiskveiðiheimildum fyrir smábáta er fjallað um tilvitnað reglugerðarákvæði og um útgáfu veiðileyfa í atvinnuskyni. Í skýrslunni segir:

„Útgáfa veiðileyfa í atvinnuskyni.

Um síðustu áramót komu til framkvæmda lög nr. 38, 15. maí 1990, um stjórn fiskveiða. Í 5. gr. laganna er kveðið á um hvaða fiskiskip eiga kost á leyfi til veiða í atvinnuskyni. Í fyrsta lagi er kveðið á um að öll fiskiskip sem veiðileyfi fengu samkvæmt 4. og 10. gr. laga nr. 3/1988 og ekki hafa horfið varanlega úr rekstri eigi kost á veiðileyfi. Er hér átt við öll fiskiskip 6 brúttólestir og stærri sem veiðileyfi fengu samkvæmt eldri lögum. Auk þeirra fiskiskipa sem að ofan greinir eiga kost á veiðileyfi bátar minni en 6 brúttólestir sem skráðir voru á skipaskrá Siglingamálastofnunar ríkisins, innan mánaðar frá gildistöku laganna, og bátar sem smíði var hafin á fyrir gildistöku laganna og haffærisskírteini gefið út af Siglingamálastofnun ríkisins innan þriggja mánaða þar frá.

Í 1. gr. reglugerðar nr. 465/1990, um veiðar í atvinnuskyni, eru settar nánari framkvæmdareglur um skilyrði sem bátar minni en 6 brúttólestir þurfa að uppfylla til að eiga kost á leyfi til veiða í atvinnuskyni. Í fyrsta lagi er kveðið á um að veiðileyfi til þessara báta verði ekki gefin út nema gilt haffærisskírteini liggi fyrir eigi síðar en 1. maí 1991. Uppfylli bátar ekki þetta skilyrði falla aflaheimildir þeirra niður og koma til skipta milli annarra báta sem veiðileyfi fá og eru minni en 10 brúttólestir. Er við úthlutun aflamarks fyrstu átta mánaða þessa árs miðað við að u.þ.b. 3,5% aflaheimilda falli niður af þessum sökum. Haffæriskrafan er í samræmi við þær reglur sem giltu er aflaheimildum var í fyrsta sinn skipt milli fiskiskipa 10 brúttólestir og stærri árið 1984 enda er markmið laganna að skipta takmörkuðum heildarafla milli þeirra skipa sem til eru og hæf til veiða. [...]

Við veitingu leyfa til veiða í atvinnuskyni koma til greina rúmlega 2100 bátar minni en 10 brúttólestir. Gefin hafa verið út veiðileyfi til samtals 1000 báta sem uppfylla skilyrðin um haffærisskírteini. Það verður ekki endanlega ljóst fyrr en eftir 1. maí n.k. hve margir bátar minni en 6 brúttólestir fá útgefin leyfi til veiða í atvinnuskyni en þá rennur út frestur til að fá útgefið haffærisskírteini til þessara báta.“ (Alþt. 1990, A-deild, bls. 4584--4585).

Í fylgiskjali 3 með framangreindri skýrslu eru upplýsingar um báta undir 10 brúttólestum, sem áttu kost á veiðileyfi í atvinnuskyni með aflahlutdeild. Tekið er fram í skýringum við fylgiskjalið, að tilfærsla kunni að eiga sér stað milli aflahlutdeildar þessara báta og línu- og handfærabáta, þar sem sumir eigendur smábáta hefðu óskað eftir fresti til að velja á milli þessara tveggja kosta, þar til niðurstaða lægi fyrir um athugasemdir, sem þeir höfðu gert. Þá segir svo í nefndum skýringum:

„Búast má við að þeir þessara báta sem verða haffærir fyrir 1. maí [1991] muni kjósa að stunda veiðar með línu- og handfærum enda er aflamarkskostur þeirra rýr og í mörgum tilvikum enginn þar sem þessum bátum hefur ekki verið haldið til veiða.“ (Alþt. 1990, A-deild, bls. 4592).

Í nefndu fylgiskjali kemur fram, að aflamark X fyrir tímabilið janúar--ágúst 1991 sé 6578 kg (sjá Alþt. 1990, A-deild, bls. 4599.).

2.

Samkvæmt 2. málsl. 1. mgr. 5. gr. laga nr. 38/1990 skyldu við veitingu veiðileyfa koma til greina bátar 6 brl. og minni, enda hefði beiðni um skráningu þeirra á skipaskrá Siglingamálastofnunar ríkisins, eða sérstaka skrá stofnunarinnar fyrir báta undir 6 metrum, borist ásamt fullnægjandi gögnum innan mánaðar frá gildistöku laganna. Eins og áður greinir, var það skilyrði ennfremur sett með 2. mgr. 1. gr. reglugerðar nr. 465/1990, að bátur yrði að vera búinn að fá gilt haffærisskírteini við útgáfu veiðileyfis, og þó ekki síðar en 1. maí 1991. Strandaði veiting veiðileyfis til X á þessu skilyrði reglugerðarinnar. Kemur því til athugunar, hvort nefnt skilyrði hafi næga stoð í lögum.

Sjávarútvegsráðuneytið telur, að heimilt hafi verið að setja umrætt skilyrði á grundvelli 13. gr. laga nr. 38/1990 og hefur rökstuðningur ráðuneytisins í þeim efnum verið rakinn nánar í II. kafla hér að framan. Ákvæði 13. gr. eru svohljóðandi:

„Ráðherra getur sett nánari reglur varðandi framkvæmd laga þessara.“

Í 2. málsl. 1. málsgr. 5. gr. laga nr. 38/1990 er ákveðið, að við veitingu leyfa til veiða í atvinnuskyni komi til greina bátar undir 6. brl., enda hafi beiðni um skráningu þeirra á tilgreindar skipaskrár borist ásamt fullnægjandi gögnum innan mánaðar frá gildistöku laganna. Samkv. 1. málsl. 1. mgr. 5. gr., en það ákvæði á við önnur skip en greinir í 2. málsl. sömu málsgr., er það meðal annars skilyrði veiðileyfis, að skip hafi ekki horfið varanlega úr rekstri. Miðað við orðalag þessa ákvæðis og setningaskipan 5. gr. liggur naumast ljóst fyrir, svo sem haldið er fram af sjávarútvegsráðuneytinu, að skilyrðið um að skip hafi ekki horfið varanlega úr rekstri eigi einnig beinlínis við þá báta, sem 2. málsl. 1. mgr. 5. gr. fjallar um.

Miðað við orðalag og skipan 5. gr. laga nr. 38/1990 eru þar að mínum dómi ekki sett önnur skilyrði fyrir veiðileyfi þeirra báta, sem 2. málsl. 1. mgr. 5. gr. tekur samkvæmt framansögðu til, en þau, að beiðni um skráningu þeirra á tilgreindar skrár hafi borist ásamt fullnægjandi gögnum innan mánaðar frá gildistöku laganna. Nokkur vafi er þess vegna um það, hvort þarna séu tæmandi talin skilyrði fyrir veiðileyfum umræddra báta, þar á meðal X, þannig að við þau verði ekki aukið í reglugerð með heimild í 13. gr. laga nr. 38/1990.

Við úrlausn síðastgreinds álitaefnis tel ég óhjákvæmilegt að líta til þeirrar tilhögunar, sem ákveðin er í lögum nr. 38/1990 á úthlutun aflaheimilda, og þeirra forsendna, sem framkvæmd þessarar tilhögunar hlýtur að byggjast á.

Í II. bráðabirgðaákvæði laga nr. 38/1990 voru settar reglur um úthlutun aflahlutdeildar til veiða á botnfiski fyrir báta minni en 10 brl. Samkvæmt 2. mgr. ákvæðisins skyldi samanlögð aflahlutdeild allra báta minni en 10 brl. í leyfilegum heildarafla allra botnfisktegunda, sem úthlutað væri til einstakra skipa og báta, vera jöfn hlutdeild þeirra í ársafla sömu botnfisktegunda árið 1989. Um hlutdeild einstakra báta af þessari umræddu stærð í leyfilegum heildarafla hverju sinni voru settar nánari reglur í II. bráðabirgðaákvæði laganna. Er ljóst, að nánari ákvörðun á hlutdeild hvers báts um sig hlaut að ráðast af því, hve margir aðrir bátar ættu rétt á hlutdeild í heildaraflanum og hver hlutdeild þeirra væri.

Ofangreind skipan laga nr. 38/1990 knúði á um það, að ekki drægist úr hömlu að niðurstaða fengist um, hvaða bátar öðluðust hlutdeild úr heildarafla þeim, sem um var að ræða. Verður að fallast á það með sjávarútvegsráðuneytinu, að þar gátu ekki komið til greina bátar, sem þannig væri ástatt um, að þeim yrði ekki haldið til veiða. Í því efni hlutu hins vegar óhjákvæmilega að rísa ýmis álitamál. Miðað við umrædda skipan og tilgang laga nr. 38/1990 tel ég, að sjávarútvegsráðuneytinu hafi verið heimilt að taka af skarið með reglugerð á grundvelli 13. gr. laga nr. 38/1990. Ber þar að hafa í huga, eins og sjávarútvegsráðuneytið hefur útskýrt, að veruleg óvissa var um fjölda báta 6 brl. og minni, þar sem bátar á því stærðarbili þurftu almennt ekki veiðileyfi fyrir gildistöku laga nr. 38/1990. Að mínum dómi styður það nefnda heimild sjávarútvegsráðuneytisins, að tiltekin önnur skip, sem fjallað er um í 1. og 3. málsl. 1. mgr. 5. gr. laga nr. 38/1990, áttu ekki kost veiðileyfa, ef þau höfðu horfið varanlega úr rekstri eða höfðu ekki fengið gefið út haffærisskírteini innan þriggja mánaða frá gildistöku laganna. Verður að telja óeðlilegt, ef allt önnur sjónarmið hefðu átt að gilda um báta af þeirri stærð, sem hér hefur sérstaklega verið rætt um og 2. málsl. 1. mgr. 5. gr. laga nr. 38/1990 tekur til. Það er ennfremur álit mitt, að ekki hafi verið ólögmætt að sjávarútvegsráðuneytið beitti heimild sinni til að taka af skarið í reglugerð um umrætt efni með því að miða við útgáfu haffærisskírteinis og setja þeirri útgáfu frest til 1. maí 1991, sbr. 2. og 3. mgr. 1. gr. reglugerðar nr. 465/1990.

Síðastgreind reglugerð var birt lögum samkvæmt. Í bréfi því, sem fylgdi svonefndri tilraunaúthlutun til útgerðarmanna í nóvember 1990, var vakin athygli á reglugerðinni, en að mínum dómi hefði verið æskilegt, að í bréfi þessu hefði berum orðum verið vísað til umrædds skilyrðis um útgáfu haffærisskírteinis og frests til þess. Það var aftur á móti gert í fréttatilkynningu ráðuneytisins frá 30. nóvember 1990. Kynning þessi verður að teljast fullnægjandi að lögum.

3. Niðurstaða.

Niðurstaða athugana minna er sú, að ekki sé tilefni til frekari athugasemda en að framan greinir við þá ákvörðun sjávarútvegsráðuneytisins, sem kvörtun A lýtur að.“