Kvartað var yfir stjórnsýslu Bílastæðasjóðs Reykjavíkur.
Þar sem Reykjavíkurborg hafði endurgreitt leigu fyrir bílastæðið sem um ræddi og Persónuvernd var með hluta málsins til meðferðar lauk umfjöllun umboðsmanns.
Umboðsmaður lauk málinu með bréfi, dags. 22. ágúst 2022, sem hljóðar svo:
Vísað er til kvörtunar yðar 16. mars sl. yfir stjórnsýslu Bílastæðasjóðs Reykjavíkur af hálfu nafngreinds starfsmanns sjóðsins í tengslum við bílastæði sem þér höfðuð á leigu til lengri tíma. Meðal annars var þar um að ræða uppsögn á endurnýjuðum leigusamningi til sex mánaða án þess að boðin hefði verið endurgreiðsla á hluta leigunnar sem þér höfðuð greitt að fullu fyrir fram.
Í svari Reykjavíkurborgar 25. maí sl. í tilefni af fyrirspurn umboðsmanns vegna málsins var upplýst að 5. apríl sl. hefði yður verið endurgreidd leiga fyrir fjóra mánuði af leigutímanum. Þá kom fram í kvörtuninni að þér hefðuð leitað til Persónuverndar vegna þeirrar upplýsingaöflunar starfmanns bílastæðasjóðs sem þér tölduð að kynni að varða við lög.
Í símtali sem starfsmaður umboðsmanns átti við yður 18. ágúst sl. kom fram að í ljósi ákvörðunar bílastæðasjóðs um endurgreiðslu og þess að Persónuvernd væri með hluta málsins til meðferðar hefðuð þér ákveðið að falla frá kvörtuninni.
Með vísan til framangreinds læt ég því máli þessu lokið, sbr. a-lið 2. mgr. 10. gr. laga nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis.