Almannatryggingar. Skilyrði þess að kvörtun verði tekin til meðferðar.

(Mál nr. 11731/2022)

Kvartað var yfir úrskurði úrskurðarnefndar velferðarmála sem staðfesti ákvörðun Tryggingastofnunar um að synja beiðni um að taka aftur til meðferðar umsókn um barnalífeyri.

Þar sem kvörtunin var ekki borin upp við umboðsmann innan árs frá því að niðurstaða úrskurðarnefndarinnar lá fyrir voru ekki skilyrði til að hann fjallaði um ákvörðunina sem slíka. Aftur á móti athugaði umboðsmaður hvort leyst hefði verið úr beiðni um endurupptöku í samræmi við lög og taldi ekki tilefni til athugasemda hvað það snerti.

 

Umboðsmaður lauk málinu með bréfi, dags. 22. ágúst 2022, sem hljóðar svo:

 

Vísað er til kvörtunar yðar 15. júní sl., fyrir hönd A, yfir úrskurði úrskurðarnefndar velferðarmála 7. júlí 2021 í máli nr. 291/2021 þar sem ákvörðun Tryggingastofnunar 11. mars þess árs var staðfest. Með þeirri ákvörðun synjaði stofnunin beiðni A um að taka aftur til meðferðar umsókn hans um barnalífeyri sem stofnunin afgreiddi með ákvörðun 12. október 2018. Í þeirri ákvörðun fólst að fallist var á að A ætti rétt á barnalífeyri með yngsta barni sínu frá 1. janúar 2015 til 31. júlí 2016 en litið var til þess að hann hafði sótt um lífeyri vegna þess 13. desember 2016. Umsókn hans um lífeyri vegna eldri barna hans á árinu 2018 var hins vegar synjað.

Svo sem rakið var í fyrrgreindum úrskurði úrskurðarnefndar vel­ferðarmála fjallaði nefndin um áðurgreinda ákvörðun Tryggingastofnunar 12. október 2018 í úrskurði 5. júní 2019 í máli nr. 16/2019. Í þeim úrskurði var fjallað efnislega um þá ákvörðun og hún staðfest. Ástæða þess að þetta er rakið er að samkvæmt 2. mgr. 6. gr. laga nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis, er það meðal skilyrða þess að kvörtun verði tekin til meðferðar að hún hafi verið borin fram innan árs frá því er stjórnsýslugerningur sá, er um ræðir, var til lykta leiddur. Í ljósi þessarar lagagreinar eru ekki uppfyllt skilyrði til að fjalla um ákvörðunina 12. október 2018 sem var staðfest með úrskurði 5. júní 2019.

Athugun umboðsmanns í tilefni af kvörtun yðar nú lýtur aftur á móti að því hvort leyst hafi verið úr beiðni A um endurupptöku í samræmi við lög. Um það sagði í úrskurðinum að hann ætti hvorki rétt á að málið yrði endurupptekið á grundvelli 24. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 né ólögfestra reglna stjórnsýsluréttar. Eftir að hafa kynnt mér gögn málsins og að teknu tilliti til ákvæða 4. mgr. 53. gr. laga nr. 100/2007, um almannatryggingar, tel ég ekki tilefni til að gera athugasemdir við þá niðurstöðu að ekki hafi verið uppfyllt skilyrði til að fallast á endurupptökubeiðni A, sbr. til hliðsjónar álit umboðsmanns Alþingis 18. desember 2019 í máli nr. 9790/2018.

Að lokum skal þess getið að ef A telur sig hafa orðið fyrir tjóni vegna málsmeðferðar Trygginga­stofnunar og telur sig eiga kröfu á skaðabótum getur hann beint bótakröfu að íslenska ríkinu. Með þessari ábendingu hefur þó engin afstaða verið tekin til þess hvort tilefni sé til að gera slíka kröfu enda verður það að vera verkefni dómstóla að leysa úr ágreiningi um slíka kröfu, sbr. c-lið 2. mgr. 10. gr. laga nr. 85/1997.

Með vísan til þess sem að framan er rakið lýk ég hér með umfjöllun minni um málið, sbr. 1. mgr. og c-lið 2. mgr. 10. gr. laga nr. 85/1997.