Skattar og gjöld. Starfssvið umboðsmanns Alþingis.

(Mál nr. 11739/2022)

Kvartað var yfir afstöðu Skattsins og fjármála- og efnahagsráðuneytisins til gildissviðs reglna um greiðsluforgang og skuldajöfnun skatta og gjalda.

Starfssvið umboðsmanns tekur ekki til ákvarðana og annarra athafna stjórnvalda þegar, samkvæmt beinum lagafyrirmælum, er ætlast til að leitað sé leiðréttingar með málskoti til dómstóla og því ekki skilyrði til að fjalla um kvörtunina.

 

Umboðsmaður lauk málinu með bréfi, dags. 25. ágúst 2022, sem hljóðar svo:

 

Vísað er til kvörtunar yðar 16. júní sl. fyrir hönd A yfir afstöðu Skattsins og fjármála- og efnahagsráðuneytisins til gildissviðs reglna nr. 797/2016, um greiðsluforgang og skuldajöfnun skatta og gjalda, sem kom fram í tilefni af kröfu yðar um að Skatturinn krefðist þess að kyrrsetningargerð yrði endurupptekin í því skyni að stofnunin félli frá réttindum samkvæmt gerðinni.

Umrædd kyrrsetningargerð byggist á 14. gr. laga nr. 150/2019, um innheimtu opinberra skatta og gjalda, sbr. áður 113. gr. laga nr. 90/2003, um tekjuskatt. Í 5. mgr. fyrrgreinda lagaákvæðisins kemur fram að leggja megi fyrir héraðsdóm ágreining um lögmæti kyrrsetningargerðar með sama hætti og greinir í 2. mgr. 102. gr. laga nr. 88/2008, um meðferð sakamála.

Ástæða þess að framangreint er rakið er að samkvæmt c-lið 4. mgr. 3. gr. laga nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis, tekur starfssvið hans ekki til ákvarðana og annarra athafna stjórnvalda, þegar samkvæmt beinum lagafyrirmælum er ætlast til að menn leiti leiðréttingar með málskoti til dómstóla. Samkvæmt ákvæðum þessa stafliðar er það ekki hlutverk umboðsmanns að fjalla um gildi rannsóknarathafna sem unnt er að bera undir dómstóla á grundvelli 102. gr. laga nr. 88/2008. Þar sem það á við um þá kyrrsetningargerð, sem deilt er um í þessu máli, fellur það ekki undir starfssvið umboðsmanns að fjalla um gildi hennar, en sem fyrr greinir beinist kvörtun yðar að lagaafstöðu stjórnvalda sem byggt var á við úrlausn ágreinings um gildi gerðarinnar.

Með vísan til þess sem að framan er rakið brestur lagaskilyrði til þess að kvörtun yðar verði tekin til frekari meðferðar og lýk ég hér með umfjöllun minni um hana, sbr. 1. mgr. 10. gr. laga nr. 85/1997.