Börn. Endurupptaka máls. Stjórnvaldsákvörðun. Kæra til lögreglu.

(Mál nr. 11791/2022)

Kvartað var yfir synjun barnaverndarnefndar á beiðni um endurupptöku máls.

Þar sem viðkomandi hafði fengið leiðréttingu sinna mála hjá Gæða- og eftirlitsstofnun velferðarmála var ekki tilefni fyrir umboðsmann til að taka málsmeðferðina til sérstakrar athugunar. Þá yrði það að vera verkefni dómstóla að taka afstöðu til þess hvort skaðabótaskylda hefði skapast.

 

Umboðsmaður lauk málinu með bréfi, dags. 26. ágúst 2022, sem hljóðar svo:

 

Vísað er til kvörtunar yðar 25. júlí sl. fyrir hönd A yfir ákvörðun barnaverndarnefndar Reykjanesbæjar 6. júlí sl. um að synja beiðni yðar um endurupptöku frá 14. júní sl. Sú beiðni laut að því að nefndin fjallaði á ný um kröfu A 7. september 2020, sem hún hafði áður hafnað um að nefndin bæði hann formlega afsökunar og greiddi honum hæfilegar miskabætur vegna þess að forstöðumaður nefndarinnar hefði kært hann til lögreglu 26. mars 2018 fyrir ætlað kynferðisbrot gegn barni sem þó var orðið fullorðið þegar kæran var lögð fram.

Samkvæmt gögnum málsins liggur fyrir að lögreglurannsókn fór fram í tilefni af téðri kæru en héraðssaksóknari lét málið falla niður 13. júlí 2020. Svo sem áður greinir setti A fram kröfu sína 7. september 2020 en því erindi var hafnað á sama ári. Hins vegar liggur fyrir álit Gæða- og eftirlitsstofnunar velferðarmála 2. maí sl. um að nefndina hafi skort lagaheimild til að óska umræddrar lögreglurannsóknar og leggja fram kæru til lögreglu vegna ætlaðs kynferðisbrots A þar sem ætlaður brotaþoli hefði þá verið orðinn fullorðinn. Var það mat stofnunarinnar að háttsemi nefndarinnar hefði verið ámælisverð í skilningi 17. gr. laga nr. 88/2021, um Gæða- og eftirlitsstofnun velferðarmála.

Sem fyrr greinir hafnaði nefndin endurupptökubeiðni yðar 6. júlí sl., en beiðnin studdist einkum við álit Gæða- og eftirlitsstofnunar velferðar­mála. Í bréfi nefndarinnar sagði að verkferlar hennar yrðu yfirfarnir í kjölfar álitsins. Aftur á móti væri það afstaða nefndarinnar að ekki væru fyrir hendi lagaskilyrði til að endurupptaka málið, sbr. 24. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Þessu til viðbótar væri rétt að benda á að vandséð væri hvaða tilgangi endurupptaka málsins kynni að þjóna, enda væri rannsókn lögreglu á málinu lokið.

Samkvæmt 1. mgr. 2. gr. laga nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis, er hlutverk hans að hafa í umboði Alþingis eftirlit með stjórnsýslu ríkis og sveitarfélaga á þann hátt sem nánar greinir í lögunum og tryggja rétt borgaranna gagnvart stjórnvöldum landsins. Í 10. gr. sömu laga er fjallað um lyktir máls. Í b-lið 2. mgr. greinarinnar segir að hafi umboðsmaður tekið mál til nánari athugunar geti hann látið í ljós álit sitt á því hvort athöfn stjórnvalds brjóti í bága við lög eða hvort annars hafi verið brotið gegn vönduðum stjórnsýsluháttum eða þeim siðareglum sem nánar eru tilgreindar í lögunum. Þá segir að sæti athafnir stjórnvalds aðfinnslum eða gagnrýni umboðsmanns geti hann jafnframt beint tilmælum til stjórnvalds um úrbætur. Í c-lið 2. mgr. 10. gr. laganna kemur því næst fram að varði kvörtun réttarágreining sem á undir dómstóla og eðlilegt er að þeir leysi úr geti umboðsmaður lokið máli með ábendingu um það.

Á grundvelli 10. gr. laga nr. 85/1997, sbr. einnig 5. gr. laganna, hefur umboðsmaður Alþingis svigrúm til að ákveða hvaða mál hann telur tilefni til að fjalla nánar um og þá með hvaða hætti, m.a. með tilliti til mikilvægis þeirra, fjölda mála og þeirra takmörkuðu fjárveitinga og mannafla sem hann hefur til umráða. Hér kann einnig að skipta máli hvort og þá hvaða líkur eru til þess að umboðsmaður muni beina tilmælum til stjórnvalds sem kunna að hafa þýðingu fyrir réttarstöðu þess sem hefur kvartað til embættisins. Ef sá sem leitar til umboðsmanns hefur fengið leiðréttingu sinna mála hjá stjórnvöldum, svo sem með niðurstöðu eftirlitsstjórnvalds á borð við Gæða- og eftirlitsstofnun velferðarmála, er að jafnaði ekki tilefni fyrir umboðsmann til að taka málsmeðferð stjórnvaldsins til sérstakrar athugunar.

Svo sem mál þetta liggur fyrir hefur Gæða- og eftirlitsstofnun velferðarmála, í tilefni af kvörtun A, komist að þeirri niðurstöðu að barnaverndarnefnd Reykjanesbæjar hafi sýnt af sér ámælisverða háttsemi með því að kæra hann til lögreglu í umrætt sinn. Einnig liggur fyrir að rannsókn lögreglu lauk með því að málið var fellt niður. Þá verður að hafa í huga að þegar stjórnvald ákveður að beina kæru til lögreglu, án þess að taka sjálft efnislega og rökstudda afstöðu til ætlaðs brots, er að jafnaði ekki um að ræða stjórn­valds­ákvörðun í skilningi 2. mgr. 1. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Verður því ekki séð að fyrrgreind beiðni yðar um „endurupptöku“ lúti að stjórnvalds­ákvörðun í máli A. Er því ekki tilefni til að fjalla nánar um þann þátt málsins. Af fyrirliggjandi gögnum verður hins vegar ráðið að það sé afstaða A að nefndin sé skaðabótaskyld gagnvart honum. Að mati umboðsmanns verður það að vera verkefni dómstóla að taka afstöðu til þess konar ágreinings, en umboðsmaður fjallar að jafnaði ekki um álitaefni um skaðabótaskyldu hins opinbera, sbr. áðurnefndan c-lið 2. mgr. 10. gr. laga nr. 85/1997.

Með vísan til þess sem rakið er að framan er athugun minni á kvörtun yðar lokið, sbr. 1. mgr. og c-lið 2. mgr. 10. gr. laga nr. 85/1997.