Fjármála- og tryggingastarfsemi. Starfssvið umboðsmanns Alþingis.

(Mál nr. 11796/2022)

Kvartað var yfir viðskiptaháttum tryggingafélags og afstöðu Fjármálaeftirliti Seðlabanka Íslands til kvörtunar vegna þeirra.

Þar sem sú starfsemi tryggingafélagsins sem um ræddi heyrði ekki undir starfssvið umboðsmanns voru ekki skilyrði til að hann fjallaði um þann þátt. Með hliðsjón af lagaumhverfi eftirlitsins og viðbrögðum þess við erindinu taldi umboðsmaður ekki tilefni til að gera athugasemdir við þau eða taka kvörtunina til nánari athugunar.

 

Umboðsmaður lauk málinu með bréfi, dags. 26. ágúst 2022, sem hljóðar svo:

 

Vísað er til kvörtunar yðar 2. ágúst sl. fyrir hönd A yfir viðskiptaháttum Vátryggingafélags Íslands hf. í framhaldi af bílslysi 12. október 2021 og afstöðu Fjármálaeftirlits Seðlabanka Íslands 26. júlí sl. í tilefni af kvörtun yðar 21. sama mánaðar til eftirlitsins þar að lútandi. Sú kvörtun byggðist á því að félagið hefði starfað í andstöðu við eðlilega og heilbrigða viðskiptahætti. Var farið fram á að eftirlitið afgreiddi erindið í samræmi við eftirlitsheimildir sínar.

Samkvæmt 3. gr. laga nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis, tekur starfssvið hans til stjórnsýslu ríkis og sveitarfélaga en ekki til starfsemi einkaaðila nema að því leyti sem þeim hefur að lögum verið fengið opinbert vald til að taka ákvarðanir um rétt eða skyldu manna í skilningi 2. mgr. 1. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Þar sem Vátryggingafélag Íslands hf. er einkaréttarlegur aðili og kvörtun yðar lýtur að viðskiptaháttum félagsins sem tengjast einkaréttarlegum ágreiningi fellur það ekki undir starfssvið umboðsmanns að fjalla um kvörtunina að því marki sem hún snertir félagið.

Samkvæmt 1. mgr. 1. gr. laga nr. 87/1998, um opinbert eftirlit með fjármálastarfsemi, er markmið laganna að eftirlitsskyldir aðilar starfi í samræmi við lög og reglur og að starfsemin sé í samræmi við heilbrigða og eðlilega viðskiptahætti og taki mið af neytendavernd, sbr. einnig reglur nr. 353/2022, um eðlilega og heilbrigða viðskipta­hætti, samskipti við viðskiptavini og meðhöndlun kvartana, og áður reglur nr. 673/2017, um eðlilega og heilbrigða viðskiptahætti vátrygginga­félaga.

Í 3. gr. laga nr. 87/1998 er kveðið á um að eftirlitið fari með framkvæmd laganna og samkvæmt 8. gr. þeirra skal það fylgjast með að starfsemi eftirlitsskyldra aðila sé í samræmi við lög, reglugerðir, reglur eða samþykktir sem um starfsemina gilda og að starfsemin sé að öðru leyti í samræmi við heilbrigða og eðlilega viðskiptahætti. Í lögunum er hins vegar hvorki gert ráð fyrir því að eftirlitið taki til meðferðar kvartanir eða kærur einstaklinga vegna viðskipta þeirra við eftirlitsskylda aðila né að það taki allar ábendingar sem því berast frá borgurunum til frekari athugunar. Í þeim efnum hefur stjórnvaldið tiltekið svigrúm til mats sem afmarkast m.a. af hlutverki þess, markmiði þeirra laga sem því er falið að hafa eftirlit með og þeim lagaramma sem um störf þess gilda að öðru leyti.

Í fyrrgreindri afstöðu eftirlitsins 26. júlí sl. var m.a. rakið að til að sinna eftirlitshlutverki sínu tæki það við ábendingum um starfshætti eftirlitsskyldra aðila. Allar ábendingar sem því bærust væru metnar og skoðað hvort tilefni væri til frekari athugunar. Teldi eftirlitið ástæðu til að taka mál til frekari athugunar væri það gert á grundvelli almenns eftirlits og leiddi ekki til þess að sá sem kæmi fram með ábendinguna væri aðili máls. Slík athugun myndi þá byggja á þeim eftirlitsúrræðum og heimildum sem lög kveða á um. Yrði niðurstaða athugunarinnar að viðkomandi eftirlitsskyldur aðili hefði brotið gegn lögum, reglum eða heilbrigðum og eðlilegum viðskiptaháttum gæti eftirlitið eingöngu beitt þeim úrræðum sem lög kvæðu á um, sem gætu m.a. verið athugasemdir, stjórnvaldssekt og afturköllun starfsleyfis, allt eftir alvarleika brots. Þá var nánar fjallað um hlutverk eftirlitsins og áréttað að það hefði ekki úrskurðarvald í einstökum ágreiningsmálum eða skæri úr um réttindi og skyldur aðila að einkarétti eða ágreiningi um sönnun málsatvika. Var vakin athygli á að unnt væri að leggja ágreining undir úrskurðarnefnd í vátryggingamálum.

Í ljósi þess sem fyrr er rakið um lagaumhverfi eftirlitsins og viðbrögð þess við erindi yðar tel ég ekki tilefni til að gera athugasemdir við þau eða taka kvörtun yðar til nánari athugunar. Er athugun minni á kvörtun yðar því lokið, sbr. 1. mgr. 10. gr. laga nr. 85/1997.