Málsmeðferð og starfshættir stjórnsýslunnar.

(Mál nr. 11635/2022)

Kvartað var yfir samskiptum við Innheimtustofnun sveitarfélaga og að stofnunin hefði ekki brugðist fullnægjandi við erindi.

Í svörum frá Innheimtustofnun kom fram að leitað hefði verið til Lagastofnunar Háskóla Íslands vegna sérstæðra mála, þar á meðal þessa, og þau yrðu afgreidd þegar álit hennar lægi fyrir. Var því ekki ástæða til að aðhafast frekar að svo stöddu.

 

Umboðsmaður lauk málinu með bréfi, dags. 29. ágúst 2022, sem hljóðar svo:

 

Vísað er til kvörtunar yðar 15. mars sl. sem lýtur að samskiptum yðar við Innheimtustofnun sveitarfélaga um meðlagsskuld yðar og því að stofnunin hafi ekki brugðist fullnægjandi við erindi yðar 7. janúar sl.

Í tilefni af kvörtun yðar var Innheimtustofnun sveitarfélaga ritað bréf 26. apríl sl. þar sem óskað var eftir upplýsingum um hvað liði meðferð og afgreiðslu erindisins. Nú hafa svör borist frá stofnuninni 8. ágúst sl. um að leitað hafi verið álits Lagastofnunar Háskóla Íslands vegna sérstæðra mála sem eru til meðferðar hjá stofnuninni, þar á meðal máls yðar, og þau verði afgreidd þegar álit stofnunarinnar liggur fyrir, en sömu upplýsingar munu hafa verið sendar yður sama dag.

Í ljósi framangreinds tel ég ekki ástæðu til að aðhafast frekar í tilefni af kvörtun yðar að svo stöddu. Lýk ég því meðferð minni á henni með vísan til 1. mgr. 10. gr. laga nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis. Verði frekari tafir á meðferð málsins getið þér leitað til mín á ný teljið þér ástæðu til þess.