Stjórnun fiskveiða. Upphaf veiða hefur áhrif við úthlutun aflahlutdeildar smábáta. Beiting lagareglna um stjórn fiskveiða.

(Mál nr. 526/1991)

A kvartaði yfir því aflamarki, er sjávarútvegsráðuneytið hafði úthlutað báti hans X fiskveiðitímabilið 1. janúar til 31. ágúst 1991. A eignaðist bát sinn á árinu 1987, sem þá var ekki fullgerður. Var báturinn í upphafi skráður 5,30 brl. Í október 1989 var nýtt mælibréf gefið út fyrir bátinn og var hann upp frá því skráður 6,32 brl. A fór níu sjóferðir á árinu 1989 og aflaði þá 3824 kg af þorski á handfæri. Á árinu 1990 var bátnum úthlutað aflahámarki báta í stærðarflokknum 6--8 brl. Við ákvörðun á aflahlutdeild bátsins samkvæmt II. bráðabirgðaákvæði laga nr. 38/1990 um stjórn fiskveiða, var báturinn settur í flokk „uppreiknaðra“ báta, þar sem hann hafði ekki haft full tvö ár til viðmiðunar á árunum 1987--1989. A taldi, að ákveða hefði átt bátnum meðalaflahlutdeild báta í sama stærðarflokki, sbr. 5. mgr. II. bráðabirgðaákvæðis laga nr. 38/1990, þar sem hann hefði í raun ekki komið til veiða fyrr en á árinu 1990, en á árinu 1989 hefði mestur tíminn farið í lagfæringar vegna bilana, auk þess sem A kvaðst hafa átt við alvarleg veikindi að stríða. A lagði áherslu á, að m/b X hefði fengið í fyrsta sinn veiðileyfi eftir 31. desember 1989 og stærð bátsins bæri að telja 6,32 brl. Umboðsmaður lýsti þeirri skoðun sinni, að ákvæðum 5. mgr. II. bráðabirgðaákvæðis laga nr. 38/1990 hefði verið ætlað að ákveða grundvöll fyrir úthlutun aflahlutdeildar til þeirra báta einna, sem komið hefðu í fyrsta sinn til veiða á árinu 1990 og hefðu því ekki haft veiðireynslu á árunum 1987--1989. Taldi umboðsmaður, að á því yrði að byggja, að báturinn hefði stundað veiðar á árinu 1989 á grundvelli B-liðar 10. gr. laga nr. 3/1988 um stjórn fiskveiða 1988--1990 og því ekki þurft sérstakt veiðileyfi, þar sem hann hefði þá verið skráður minni en 6 brl. Taldi umboðsmaður því, að m/b X hefði ekki uppfyllt skilyrði 5. mgr. II. bráðabirgðaákvæðis í lögum nr. 38/1990 til þess að fá úthlutað meðalaflahlutdeild báta í sama stærðarflokki. Í þeim efnum skipti ekki máli, þótt báturinn hefði verið mældur í október 1989 og skráður 6,32 brl. eftir það og fengið í fyrsta sinn á árinu 1990 veiðileyfi á grundvelli C-liðar 10. gr. laga nr. 3/1988, þar sem líta yrði svo á, að niðurstaðan hefði orðið sú sama, ef báturinn hefði verið skráður 6,32 brl. í upphafi, en þá hefði hann þurft veiðileyfi á árinu 1989, sbr. A-lið 10. gr. nefndra laga. Þá tók umboðsmaður fram, að II. bráðabirgðaákvæði laga nr. 38/1990 gerði ráð fyrir því, að samstarfsnefnd fjallaði um báta, sem keyptir hefðu verið eftir 31. janúar 1988, og ennfremur um málefni þeirra báta, sem af öðrum ástæðum höfðu ekki tveggja ára veiðireynslu á árunum 1987--1989. A hafði haldið því fram, að lög stæðu ekki til þess, að samstarfsnefnd þessi fjallaði um mál hans og gerði tillögur í því. Umboðsmaður fjallaði um störf og starfshætti nefndar þessarar, en tillögur hennar lagði sjávarútvegsráðuneytið til grundvallar ákvörðun sinni um úthlutun aflaheimilda til báta undir 10 brl. þ. á m. til m/b X. Niðurstaða umboðsmanns varð sú, að ekki hefði komið fram, að við ákvörðun á aflahlutdeild X hefði verið farið í bága við lög eða vandaða stjórnsýsluhætti.

I.

Hinn 19. nóvember 1991 leitaði A til mín og kvartaði yfir aflamarki því, er sjávarútvegsráðuneytið úthlutaði báti hans m/b X fyrir fiskveiðitímabilið 1. janúar til 31. ágúst 1991.

II.

Málavextir voru þeir, að í febrúar 1987 fékk A afhentan m/b X, sem hann hafði átt í smíðum. Er skipasmíðaskírteini dagsett 30. nóvember 1987 og skráningarbeiðni undirrituð 10. apríl 1989 í Reykjavík. Í upphafi var báturinn skráður 5,30 brl, en vegna þess að báturinn hafði aðra dýpt en bátar af sömu gerð, var nýtt mælibréf gefið út 23. október 1989 og var báturinn upp frá því skráður 6,32 brl. Mánuðina júní, júlí og ágúst 1989 fór A 9 sjóferðir og aflaði þá á handfæri, órafknúin, 3824 kg af þorski. Ekki var gefið út sérstakt veiðileyfi vegna þessara veiða.

Erfiðlega gekk að halda bátnum til veiða á árinu 1989 vegna ólags á skrúfubúnaði bátsins. Snemma árs 1990 fékk m/b X úthlutað veiðileyfi til botnfiskveiða það ár með línu, handfærum og þorsknetum.

Við svonefnda tilraunaúthlutun í nóvember 1990 var m/b X settur í flokk „uppreiknaðra“ báta, þar sem hann hafði ekki fulla aflareynslu á árunum 1987--1989. Í athugasemdum A við nefnda tilraunaúthlutun frá 6. desember 1990 sagði, að hann hefði gert ráð fyrir því, að báturinn fengi aflahlutdeild samkvæmt meðaltali báta í sama stærðarflokki. Með tilkynningu sjávarútvegsráðuneytisins 19. febrúar 1991 var aflamark m/b X fyrir tímabilið 1. janúar til 31. ágúst 1991 ákveðið 2278 kg í þorski, 49 kg í ýsu og 209 kg í ufsa.

Með bréfi, dags. 4. mars 1991, óskaði A eftir því, að ákvörðun aflahlutdeildar m/b X yrði tekin til endurskoðunar og tekið yrði „... til athugunar að úthluta kvóta á bátinn samkvæmt meðaltali báta í sama stærðarflokki“. Í svarbréfi ráðuneytisins frá 18. apríl 1991 kom fram, að það hefði samkvæmt tillögum samstarfsnefndar endurskoðað forsendur fyrir aflahlutdeild bátsins og að á næstu dögum yrði send ný tilkynning um aflaheimildir bátsins. Í tilkynningu ráðuneytisins 14. maí 1991 sagði síðan, að aflamark bátsins á umræddu fiskveiðitímabili yrði 5911 kg í þorski, 290 kg í ýsu og 402 kg í ufsa.

Með bréfi, dags. 20. maí 1991, óskaði A á ný eftir því, að sjávarútvegsráðuneytið tæki til endurskoðunar aflahlutdeild m/b X. Tók A fram í bréfi sínu, að útgerðartími bátsins hefði verið stuttur á árinu 1989 og að veitt hefði verið á handfæri án rafmagns. Óskaði A eftir því, „... að afli sá er metinn var á bátinn verði samkvæmt óskertu meðaltali“ og að metinn yrði afli á bátinn fyrir mánuðina september, október og nóvember 1989, en þá hefði farið fram nauðsynleg viðgerð á bátnum. Með ódagsettu erindi til sjávarútvegsráðherra gerði A frekari grein fyrir sjónarmiðum sínum og ítrekaði óskir um endurskoðun á aflahlutdeild bátsins. Auk þeirra ástæðna, sem að framan greinir, tók A fram, að hann hefði átt við alvarleg veikindi að stríða á umræddum tíma. Í svarbréfi sjávarútvegsráðuneytisins frá 15. júlí 1991 sagði:

„Samkvæmt 7. mgr. ákvæðis II til bráðabirgða við lög nr. 38/1990, um stjórn fiskveiða fjallaði sérstök samstarfsnefnd um forsendur fyrir útreikningi aflahlutdeildar til báta minni en 10 brl. sem komu í fyrsta sinn til veiða eftir 31. janúar 1988 og höfðu því ekki full tvö ár til að byggja sína aflareynslu á. Á grundvelli þessa lagaákvæðis fjallaði nefndin meðal annars um úthlutun aflaheimilda til m/b [X] og var við úthlutun aflaheimilda, samkvæmt tillögum nefndarinnar tekið tillit til þess að báturinn kom í fyrsta sinn til veiða í júní árið 1989.

Báturinn stundaði veiðar í júní, júlí og ágúst 1989 en ekkert aðra mánuði. Engu að síður lagði samstarfsnefndin til við endurskoðun á aflahlutdeild bátsins í apríl sl. að metinn yrði afli á bátinn fyrir tímabilið febrúar til október 1988 og febrúar til maí 1989 eða alls 13 mánuði. Við þá útreikninga var annars vegar byggt á aflareynslu bátsins á því tímabili, sem hann stundaði veiðar og hins vegar á afla sambærilegra báta. Var sambærilegri aðferð beitt varðandi alla báta sem fengu slíkan uppreikning enda vandséð hvernig hægt er að meta afla á einstaka báta án þess að hafa þessa tvo þætti til hliðsjónar.

M.a. í tilefni af erindi yðar frá því í maí var samstarfsnefndin kölluð saman að nýju. Nefndin fjallaði um erindið og telur hún að engin þau atriði hafi komið fram er kunni að hafa áhrif á fyrri ákvörðun um aflahlutdeild bátsins. Leggur nefndin því til við ráðuneytið að aflahlutdeild bátsins verði óbreytt frá því sem áður hafði verið ákvarðað.

Með hliðsjón af tillögum nefndarinnar getur ráðuneytið ekki orðið við erindi yðar.“

III.

Með bréfi, dags. 3. desember 1991, beindi ég þeim tilmælum mínum til sjávarútvegsráðuneytisins, sbr. 7. og 9. gr. laga nr. 13/1987 um umboðsmann Alþingis, að ráðuneytið skýrði afstöðu sína til kvörtunar A og léti mér í té gögn málsins. Í svarbréfi sjávarútvegsráðuneytisins 7. janúar 1992 segir meðal annars:

„... Samkvæmt bréfi [A] til umboðsmanns, dags. 19. nóvember 1991, snýr kvörtun hans að tveimur þáttum:

1.Að báturinn hafi ekki fengið úthlutað meðalaflahlutdeild báta á stærðarbilinu 6--8 brl., sbr. 5. mgr. ákvæðis II til bráðabirgða við lög nr. 38/1990 um stjórn fiskveiða.

2.Að við mat á aflaforsendum til útreiknings aflahlutdeildar hafi verið byggt á aflareynslu sumarið 1989 en útgerð bátsins á því tímabili hafi ekki gefið sanngjarna viðmiðun vegna ýmissa örðugleika sem komu upp á fyrsta ári í útgerð bátsins.

...

Hvað varðar m/b [X], þá var báturinn smíðaður á árinu 1987, samkvæmt upplýsingum Siglingamálastofnunar ríkisins. Miðað við stærð bátsins á þeim tíma var hann minni en 6 brl. og þurfti hann því ekki sérstakt veiðileyfi til að fá heimild til veiða eftir gildistöku laga nr. 3/1988. Mæling bátsins var síðan staðfest með skráningu bátsins á aðalskipaskrá þann 10. maí 1989 en þá mældist báturinn 5,3 brl. [...]. Báturinn var síðan endurmældur þann 23. október 1989 eftir breytingar sem gerðar voru á honum og mældist hann þá 6,32 brl. [...]. Í framkvæmd ráðuneytisins varðandi mat á stærð báta minni en 10 brl. var byggt á mælingu bátanna eins og hún var þann 22. janúar 1988, sbr. 11. gr. reglugerðar nr. 587/1989, um veiðar smábáta 1990, en sömu ákvæði voru í reglugerðum um veiðar smábáta á árunum 1988 og 1989. Hafi bátur hins vegar komið eftir þann tíma í rekstur var byggt á fyrsta mælingarbréfi bátsins.

M/b [X] hóf veiðar sumarið 1989 og stundaði veiðar með línu- og handfærum auk dagatakmarkana. Í upphafi árs 1990 sótti eigandi bátsins um heimild til að stunda netaveiðar [...]. Ákvað ráðuneytið að verða við þessu erindi og var leyfi til netaveiða með aflahámarki gefið út þann 27. febrúar 1990 [...]. Vegna mistaka í ráðuneytinu fékk báturinn aflahámark báta á stærðarbilinu 6--8 brl. í stað aflahámarks báta minni en 6 brl., sbr. ákvæði 11. gr. reglugerðar nr. 587/1990. Aflahámark bátsins á árinu 1990 var því 65 þorskígildislestir miðað við óslægðan fisk og tók þannig mið af raunverulegri stærð bátsins eftir stækkun hans haustið 1989 en hefði átt að vera 55 þorskígildislestir ef miðað hefði verið við fyrstu mælingu.

Með lögum nr. 38/1990 var stigið lokaskrefið í að stöðva fjölgun fiskiskipa. Samkvæmt 1. ml. 1. mgr. 5. gr. laganna áttu allir bátar, sem fengið höfðu veiðileyfi á grundvelli laga nr. 3/1988, kost á leyfi til veiða í atvinnuskyni. Þetta ákvæði á eingöngu við um báta 6 brl. og stærri sem þurftu sérstök veiðileyfi sbr. lög nr. 3/1988. Eins og að framan greinir þurfti [X] ekki sérstakt veiðileyfi, enda mældist báturinn minni en 6 brl. þegar hann kom inn í fiskiskipaflotann. Báturinn uppfyllti hins vegar skilyrði 2. ml. 1. mgr. 5. gr. laga nr. 38/1990 og fékk báturinn leyfi til veiða í atvinnuskyni þann 18. febrúar 1991.

...

Eins og áður hefur komið fram kom m/b [X] í fyrsta sinn til veiða sumarið 1989. Báturinn hafði því ekki fulla tveggja ára aflareynslu á viðmiðunartímabilinu til að byggja á við útreikning aflahlutdeildar. Samkvæmt 7. mgr. bráðabirgðaákvæðisins skyldi sérstök samstarfsnefnd fjalla sérstaklega um málefni þeirra aðila sem keyptu nýja báta eftir 31. janúar 1988 og höfðu því ekki fulla tveggja ára aflareynslu. Lagði nefndin til við ráðuneytið að beitt yrði svokölluðum uppreikningi vegna þeirra báta sem komu til veiða eftir 31. janúar 1988 og höfðu því ekki fulla tveggja ára viðmiðun til að byggja aflareynslu sína á. Tilgangur þessarar aðferðar var að jafna stöðu þessara báta, þannig að þeir hefðu sem næst fulla tveggja ára veiðireynslu til jafns við báta sem stunduðu veiðar á árunum 1987--1989. Þetta sjónarmið helgaðist að því að heildaraflahlutdeild smábáta var ákvörðuð af samanlögðum ársafla þessara báta af hverri botnfisktegund árið 1989, sbr. 2. mgr. ákvæðis II til bráðabirgða við lögin. Því höfðu bátar sem komu í fyrsta sinn til veiða á árunum 1988 og 1989 lagt sinn skerf til þeirrar samanlögðu aflahlutdeildar sem smábátum var ákvarðaður samkvæmt lögunum. Með því að uppreikna afla þessara báta var því í raun verið að áætla þeim afla, þannig að þeir hefðu veiðireynslu sem ætla mætti að væri sem næst því sem viðkomandi bátur hefði haft hefði hann verið að veiðum í full tvö ár.

Aðferðin fólst í því að einstökum bátum var áætlaður afli aftur í tímann með hliðsjón af sóknarmynstri og aflareynslu þann tíma sem viðkomandi bátur var að veiðum. Í öllum tilvikum var tekið mið af raunverulegum afla viðkomandi báts þann tíma sem báturinn var við veiðar án tillits til veiðarfæra og útgerðarsvæðis. Þessi aðferð hafði það í för með sér að bátur, sem kom til veiða á árinu 1989 og stundaði veiðar fyrstu sex mánuði ársins og aflaði jafnt og meðaltal sambærilegra báta í sömu mánuðum, fékk metinn á sig meðalafla sambærilegra báta fyrir sömu mánuði árið 1988. Ef afli bátsins var hins vegar lægri en meðalafli sambærilegra báta var honum reiknað tiltekið hlutfall af afla sambærilegra báta í sömu mánuðum árið á undan. Við mat á því hvað teldust sambærilegir bátar í þessu sambandi var byggt á stærðarflokkun bátanna, sbr. 10. gr. rg. nr. 465/1990, um veiðar í atvinnuskyni. Þessi aðferð var því leið til að líkja eftir hvernig einstakir bátar hefðu líklega aflað hefðu þeir verið að veiðum á tilteknum tíma og fiskað álíka vel og þeir fiskuðu þann tíma sem þeir voru raunverulega að veiðum.

Við úthlutun aflahlutdeildar til m/b [X], þann 18. febrúar 1991, hafði afli bátsins verið uppreiknaður miðað við þær forsendur sem um getur hér að framan [...]. Eigandi bátsins sætti sig ekki við ákvörðun aflahlutdeildar bátsins og ritaði ráðuneytinu, bréf dags. 4. mars 1991 [...], þar sem hann óskaði eftir endurskoðun á forsendum fyrir útreikningi á aflahlutdeild bátsins. Ráðuneytið vísaði erindinu til samstarfsnefndarinnar og lagði nefndin til að tekið yrði tillit til þeirra byrjunarörðugleika sem orðið hefðu í útgerð bátsins og afli reiknaður fyrir fleiri mánuði á árinu 1988 en áður. Ráðuneytið féllst á tillögur nefndarinnar og var eiganda bátsins tilkynnt um þá ákvörðun ráðuneytisins með bréfi, dags. 18. apríl 1991 [...]. Í framhaldi af ákvörðun ráðuneytisins var eiganda bátsins send tilkynning um breytta aflahlutdeild bátsins og sérstakt yfirlitsblað með forsendum fyrir þeim útreikningi [...].

Þann 20. maí 1991 sendi eigandi bátsins ráðuneytinu bréf þar sem óskað er eftir endurskoðun á ákvörðun ráðuneytisins frá 18. apríl 1991 ásamt yfirliti yfir útgerðarsögu bátsins [...]. Nokkru síðar sendir eigandi bátsins erindi um sama efni til sjávarútvegsráðherra [...]. Ráðuneytið hafnar þessum erindum með bréfi, dags. 15. júlí 1991 [...].“

Með bréfi, dags. 21. janúar 1992, gaf ég A kost á að senda mér þær athugasemdir, sem hann teldi rétt að gera í tilefni af framangreindu bréfi ráðuneytisins. Athugasemdir A bárust mér með bréfi hans, dags. 4. febrúar 1992. Mótmælti A því, að m/b X hefði verið endurmældur 23. október 1989 eftir breytingar, sem gerðar hefðu verið á stærð bátsins, sbr. fyrrgreind bréf sjávarútvegsráðuneytisins. Taldi A, að raunveruleg stærðarmæling hefði aðeins farið fram einu sinni á bátnum, þ.e. 23. október 1989 og hefði hann þá mælst 6,32 brl. Þá vísaði A til þess, að samkvæmt 11. gr. reglugerðar nr. 587/1989, um veiðar smábáta 1990, bæri að miða við fyrsta gildandi mælingarbréf skips í þeim tilvikum, þegar skip hefði komið í rekstur eftir 22. janúar 1988. Kæmi þetta ekki skýrt fram í bréfi ráðuneytisins. Fyrsta gildandi mælingarbréf fyrir m/b X væri frá 23. október 1989. „Mælibréfið“ frá 10. maí 1989 hefði ekkert gildi hér, þar sem það hefði verið gefið út eins og fyrir aðra báta í smíðaseríunni, en ekki verið tekið tillit til þess, að m/b X hafði hærri borðstokk. Þá kom fram hjá A, að hann teldi að m/b X hefði fullnægt lagaskilyrðum til þess að öðlast veiðileyfi, sbr. G-lið 10. gr. laga nr. 3, 8. janúar 1988, um stjórn fiskveiða 1988--1990 og vísaði hann til þess, að báturinn hefði verið afhentur frá skipasmíðastöð í febrúar 1987 og um 40% af bátsverðinu hefði verið greitt það ár. Báturinn hefði verið skráður á skipaskrá 30. nóvember 1987.

Þá mótmælti A því, sem fram kom í bréfi sjávarútvegsráðuneytisins, að m/b X hefði vegna mistaka fengið aflahámark báta á stærðarbilinu 6--8 brl. í stað aflahámarks báta minni en 6 brl. Þetta væri misskilningur hjá ráðuneytinu og aflaúthlutunin því verið rétt, enda hefði stærð bátsins aldrei verið minni en 6 brl. A vísaði til 5. mgr. II. bráðabirgðaákvæðis í lögum nr. 38/1990, um stjórn fiskveiða, og 3. tl. 7. gr. reglugerðar nr. 465, 27. nóvember 1990, um veiðar í atvinnuskyni, þar sem fram kæmi, að aflahlutdeild báta 6 brl. eða stærri, sem fengju veiðileyfi í fyrsta sinn eftir 31. desember 1989, skyldi miðuð við meðalaflahlutdeild báta í sama stærðarflokki. Eftir þessum ákvæðum hefði borið að ákvarða aflahlutdeild m/b X. Samstarfsnefnd sú, sem um væri rætt í nefndu bráðabirgðaákvæði ætti að fjalla sérstaklega um málefni þeirra aðila, sem keypt hefðu nýja báta eftir 31. janúar 1988. M/b X hefði verið keyptur fyrir þann tíma og gætu tillögur nefndar þessarar til ráðherra um aflahlutdeild því engin áhrif haft á skýlausan rétt A samkvæmt fyrrnefndum ákvæðum laga og reglugerðar. Þá færði A fram rök fyrir því, að veiðar m/b X á árinu 1989 væru ekki viðmiðunarhæfar sem aflareynsla. Það hefði verið fyrst árið 1990, sem formleg útgerð gat hafist.

IV.

Niðurstaða álits míns, dags. 17. ágúst 1992, var svohljóðandi:

“Kvörtun A lýtur að þeirri ákvörðun sjávarútvegsráðuneytisins, að synja m/b X um meðalaflahlutdeild báta í sama stærðarflokki, sbr. 5. mgr. II. bráðabirgðaákvæðis í lögum nr. 38/1990 um stjórn fiskveiða, en þau lög komu til framkvæmda 1. janúar 1991. Eins og fram kemur hér að framan, var m/b X ákveðin aflahlutdeild á grundvelli tillagna samstarfsnefndar, sbr. 7. mgr. fyrrnefnds bráðabirgðaákvæðis. Var báturinn settur í flokk „uppreiknaðra“ báta, sem ekki höfðu fulla aflareynslu á árunum 1987--1989.

1.

Í 5. mgr. II. bráðabirgðaákvæðis í lögum nr. 38/1990 um stjórn fiskveiða segir:

„Aflahlutdeild báta, sem veiðileyfi fá í fyrsta sinn eftir 31. desember 1989, án þess að sambærilegir bátar hafi horfið varanlega úr rekstri í þeirra stað, skal þó miðast við meðalaflahlutdeild báta í sama stærðarflokki. Aflahlutdeild þessara báta hefur ekki áhrif á útreikning aflahlutdeildar annarra báta skv. 2. mgr. Ekki er heimilt að framselja aflahlutdeild þessara báta fyrr en að liðnum fimm árum frá gildistöku laga þessara enda hafi þeim verið haldið til veiða allt tímabilið.“

Ákvæði þetta var upphaflega ekki í lagafrumvarpi því, er varð að lögum nr. 38/1990. Í nefndaráliti frá 1. minni hluta sjávarútvegsnefndar efri deildar Alþingis var lagt til, að nefnt ákvæði yrði tekið upp í frumvarpið. Um það sagði svo í áliti nefndarinnar:

„Gerð er tillaga um að ákvæði til bráðabirgða II verði breytt þannig að smábátar, er bætast í flotann á árinu 1990 án þess að sambærilegir bátar séu úreltir, fái aflahlutdeild er svari til meðalaflahlutdeildar báta í sama stærðarflokki.“ (Alþt. 1989, A-deild, bls. 4721)

Að öðru leyti er ekki að finna í lögskýringargögnum skýringu á nefndu ákvæði. Það er skoðun mín, að af tilvitnuðum ummælum 1. minnihluta sjávarútvegsnefndar verði ráðið, að tilgangurinn með fyrirmælum 5. mgr. nefnds bráðabirgðaákvæðis hafi verið að ákveða grundvöll fyrir úthlutun aflahlutdeildar til þeirra báta einna, er komu í fyrsta sinn til veiða á árinu 1990 og höfðu því ekki veiðireynslu á árunum 1987--1989.

Ljóst er af því, sem rakið hefur verið hér að framan, að erfiðlega hefur gengið að halda m/b X til veiða á árinu 1989. Engu að síður verður að líta svo á, að báturinn hafi í fyrsta sinn komið til veiða á því ári og að þar skipti ekki máli, að aflað var á bátinn á handfæri, órafknúnum. Byggja verður á því, að á árinu 1989 hafi báturinn stundað veiðar á grundvelli 1. mgr. B-liðar 10. gr. laga nr. 3/1988 um stjórn fiskveiða 1988--1990 og hann því ekki þurft sérstakt veiðileyfi, en báturinn var þá skráður 5,30 brl.

Samkvæmt framansögðu verður að telja, að m/b X hafi ekki uppfyllt skilyrði 5. mgr. II. bráðabirgðaákvæðis laga nr. 38/1990 til þess að fá úthlutað meðalaflahlutdeild báta í sama stærðarflokki. Skiptir þá ekki máli, þótt báturinn hafi verið mældur í október 1989 og skráður eftir það 6,32 brl. og fengið í fyrsta sinn á árinu 1990 veiðileyfi á grundvelli C-liðar 10. gr. laga nr. 3/1988, þar sem líta verður svo á, að niðurstaðan hefði orðið sú sama, ef báturinn hefði verið skráður 6,32 brl. í upphafi, en þá hefði hann þurft veiðileyfi á árinu 1989, sbr. A-lið 10. gr. laga nr. 3/1988.

2.

Í II. bráðabirgðaákvæði í lögum nr. 38/1990 eru fyrirmæli um, hvernig ákvarða skuli afla báta undir 10 brl. Samkvæmt 2. mgr. ákvæðisins á samanlögð úthlutuð aflahlutdeild allra báta minni en 10 brl. í leyfilegum heildarafla allra botnfisktegunda, sem úthlutað er til einstakra skipa, að vera jafn aflahlutdeild þeirra í ársafla sömu botnfisktegunda árið 1989.

Um skiptingu heildaraflans var ákveðin sú meginregla, að miða bæri við aflareynslu umræddra báta á árunum 1987--1989, þó þannig að meðaltalsafli tveggja bestu áranna yrði lagður til grundvallar. Þá var einnig svo fyrir mælt, að skipting heildaraflans færi eftir ákvörðun ráðherra samkvæmt tillögum sérstakrar „samráðsnefndar“ (Alþt. 1989, A-deild, bls. 2558).

Í 7. mgr. nefnds bráðabirgðaákvæðis eru fyrirmæli um skipan sérstakrar samstarfsnefndar. Segir þar, að samstarfsnefndin skuli „...fjalla um önnur álitaefni sem upp koma og gera tillögur til sjávarútvegsráðherra um aflahlutdeild viðkomandi báta“. Segir í skýringum við nefnt ákvæði í frumvarpi því, er varð að lögum nr. 38/1990, að nefndinni sé ætlað að fjalla um og gera tillögur um aflahlutdeild báta, þegar svo standi á, að útgerðir þeirra hafi gert athugasemdir við úthlutun. Þá segir ennfremur, að „samtala aflahlutdeildar þessara báta skal síðan vera jöfn hlutdeild allra báta minni en 10 brl. í ársafla þeirra tegunda sem á árinu 1989 sæta ákvæðum um leyfilegan heildarafla“. (Alþt. 1989, A-deild, bls. 2559).

Það sem hefur verið rakið í 1 og 2 hér að framan, leiðir að mínum dómi til þeirrar niðurstöðu, að samstarfsnefnd samkvæmt 7. mgr. ákvæðis II til bráðabirgða í lögum nr. 38/1990 hafi ekki eingöngu verið ætlað að fjalla um þá báta, sem keyptir höfðu verið eftir 31. janúar 1988. Verður að ætla, að nefndin hafi einnig átt að fjalla um málefni þeirra báta, sem af öðrum ástæðum höfðu ekki tveggja ára veiðireynslu á árunum 1987--1989.

3.

Í lögum nr. 38/1990 er ekki að finna bein fyrirmæli um störf umræddrar samstarfsnefndar, en í 8. mgr. nefnds bráðabirgðaákvæðis er tekið fram, að sjávarútvegsráðherra skuli með reglugerð setja nánari reglur um úthlutun aflahlutdeildar til báta undir 10 brl. Skuli úthlutunin taka mið af þeim reglum, sem giltu um úthlutun aflamarks til skipa 10 brl. og stærri á árinu 1984, sbr. reglugerð nr. 44/1984 um stjórn botnfiskveiða 1984, eftir því sem við verði komið, en þó skuli „... reglur um frátafir frá veiðum og skipstjóraskipti undanskildar“. Í reglugerð nr. 465/1990 um veiðar í atvinnuskyni, sem sett er með stoð í ákvæðum laga nr. 38/1990, er ekki að finna sérstök fyrirmæli um nefnda úthlutun.

Því er lýst í bréfi sjávarútvegsráðuneytisins til mín frá 3. desember 1991, hvernig umrædd samstarfsnefnd hagaði störfum sínum og hvaða sjónarmið hún lagði til grundvallar útreikningi aflaheimilda, þar á meðal til m/b X. Tillögur nefndarinnar lagði sjávarútvegsráðuneytið til grundvallar ákvörðun sinni um úthlutun aflaheimilda. Athugun mín hefur að mínum dómi ekki leitt í ljós, að við ákvörðun á aflahlutdeild m/b X hafi verið farið í bága við lög eða vandaða stjórnsýsluhætti.

4.

Samkvæmt framansögðu er niðurstaða mín sú, að ekki sé ástæða til athugasemda við ákvörðun sjávarútvegsráðuneytisins á aflahlutdeild m/b X.“