Aðgangur að gögnum og upplýsingum. Stjórnsýslukæra.

(Mál nr. 11779/2022)

Kvartað var yfir frávísun kæru hjá úrskurðarnefnd um upplýsinga.

Í ljósi þess sem lá fyrir um upplýsingabeiðni hjá Hagstofu Íslands taldi umboðsmaður ekki tilefni til að gera athugasemdir við afstöðu nefndarinnar eða synjun Hagstofunnar við beiðni um tiltekin gögn. Hann ritaði úrskurðarnefndinni þó bréf með ábendingu um að ekki yrði séð að það samræmdist fyllilega kæruheimild að vísa frá kæru til nefndarinnar þótt umbeðin teldust undirorpin sérstakri þagnarskyldu, heldur færi betur á því að staðfesta hina kærðu ákvörðun. Hafði umboðsmaður þá í huga að með frávísun sé gefið til kynna að mál hafi ekki verið talið tækt til meðferðar og gæti slík niðurstaða valdið misskilningi um hvort heimilt hefði verið að leita til nefndarinnar með kæru vegna synjunar um afhendingu upplýsinga.

 

Umboðsmaður lauk málinu með bréfi, dags. 31. ágúst 2022, sem hljóðar svo:

 

Vísað er til kvörtunar yðar 12. júlí sl. fyrir hönd Félags um foreldrajafnrétti yfir úrskurði úrskurðarnefndar um upplýsingamál nr. 1076/2022 frá 31. mars sl. Samkvæmt úrskurðarorði var kæru félagsins vísað frá, en hún laut að ákvörðun Hagstofu Íslands 19. október 2021 um að synja beiðni félagsins um aðgang að nánar tilgreindum upplýsingum um foreldra sem hafa andast. Byggðist sú ákvörðun á ákvæðum 1. mgr. 10. gr. laga nr. 163/2007, um Hagstofu Íslands og opinbera hagskýrslu­gerð.

Líkt og nánar var rakið í fyrrgreindum úrskurði taldi nefndin að í 1. mgr. 10. gr. laga nr. 163/2007 fælust sérstök þagnarskylduákvæði sem hefði í för með sér að umbeðnar upplýsingar, sem Hagstofan hefði safnað til hagskýrslugerðar og snertu tilgreinda einstaklinga, lytu ekki aðgangi samkvæmt upplýsinga­lögum nr. 140/2012. Um það var vísað til gagn­ályktunar frá 2. málslið 3. mgr. 4. gr. upplýsingalaga, auk þess sem það kæmi berum orðum fram í téðri málsgrein laga nr. 163/2007. Í ljósi þess sem liggur fyrir um upplýsingabeiðni félagsins til Hagstofu Íslands tel ég ekki tilefni til að gera athugasemdir við þessa afstöðu nefndarinnar eða synjun Hagstofunnar við beiðni félagsins.

Með vísan til þess sem að framan er rakið lýk ég umfjöllun minni um kvörtun yðar, sbr. 1. mgr. 10. gr. laga nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis. Ég vek þó athygli yðar á að athugun mín á þessu máli hefur orðið mér tilefni til að rita úrskurðarnefnd um upplýsingamál meðfylgjandi bréf.

 

 


Bréf umboðsmanns til úrskurðarnefndar um upplýsingamál 31. ágúst 2022.

 

 

Mér hefur borist kvörtun A fyrir hönd Félags um foreldrajafnrétti yfir úrskurði úrskurðarnefndar um upplýsingamál nr. 1076/2022 frá 31. mars sl. Eins og fram kemur í bréfi mínu til A, sem fylgir hér í ljósriti, hef ég ákveðið að fjalla ekki frekar um kvörtunina, sbr. 1. mgr. 10. gr. laga nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis. Þrátt fyrir það hefur athugun mín á þessu máli orðið mér tilefni til að fjalla um frávísun nefndarinnar á kæru félagsins í því skyni að þau sjónarmið verði framvegis höfð í huga hjá nefndinni.

Samkvæmt 1. mgr. 20. gr. upplýsingalaga nr. 140/2012 er heimilt að bera synjun beiðni um aðgang að gögnum samkvæmt lögunum undir nefndina sem úrskurðar um ágreininginn.

Í fyrrgreindum úrskurði nefndarinnar var lagt til grundvallar að umbeðin gögn væru undirorpin sérstakri þagnarskyldu en með gagnályktun frá 3. mgr. 4. gr. upplýsingalaga hefur verið lagt til grundvallar að slík ákvæði takmarki rétt til aðgangs að gögnum samkvæmt lögunum. Samkvæmt úrskurðinum kallaði úrskurðarnefndin eftir umsögn Hagstofu Íslands áður en hún tók afstöðu til þess hvort umbeðin gögn féllu undir þagnarskylduákvæði 1. mgr. 10. gr. laga nr. 163/2007, um Hagstofu Íslands og opinbera hagskýrslugerð. Af þeirri málsmeðferð verður ekki annað ráðið en að mál þar sem deilt er um hvort umbeðin gögn séu undirorpin sérstakri þagnarskyldu hljóti efnismeðferð hjá nefndinni. Verður til að mynda ekki annað séð en að rannsókn nefndarinnar á málsatvikum kunni að leiða í ljós að umrætt þagnarskylduákvæði verði ekki túlkað með þeim hætti að það nái yfir umbeðin gögn eða að í raun sé um almenna þagnarskyldu að ræða en ekki sérstaka.

Samkvæmt framangreindu verður ekki séð að það samræmist fyllilega kæruheimild 1. mgr. 20. gr. upplýsingalaga að vísa frá kæru til nefndar­innar þótt umbeðin gögn teljist vera undirorpin sérstakri þagnarskyldu, heldur fari betur á því að staðfesta hina kærðu ákvörðun. Er þá haft í huga að með „frávísun“ er gefið til kynna að mál hafi ekki verið talið tækt til efnismeðferðar og getur slík niðurstaða því valdið misskilningi um hvort heimilt hafi verið að leita til nefndarinnar með kæru vegna synjunar um afhendingu upplýsinga.