Tafir hjá stjórnvaldi á afgreiðslu máls.

(Mál nr. 11795/2022)

Kvartað var yfir því að matvælaráðherra hefði ekki sinnt erindi vegna reglugerðar um vinnslu og heilbrigðiseftirlit með hvalaafurðum.

Af samskiptum viðkomandi við ráðuneytið varð ráðið að það væri afstaða þess að erindinu hefði verið svarað og ekki fallist á það. Að teknu tilliti til þess og annarra málsatvika taldi umboðsmaður ekki nægilegt tilefni til að taka kvörtunina til frekari athugunar.

 

Umboðsmaður lauk málinu með bréfi, dags. 30. ágúst 2022, sem hljóðar svo:

 

Vísað er til kvörtunar yðar 11. júlí sl., f.h. Jarðarvina, yfir því að matvælaráðherra hafi ekki „sinnt“ erindi yðar 27. apríl sl. um að reglugerð nr. 533/2018, um (1.) breytingu á reglugerð nr. 489/2009, um vinnslu og heilbrigðiseftirlit með hvalaafurðum, verði felld úr gildi. Af samskiptum yðar við ráðuneytið verður ráðið að það sé afstaða þess að fyrrgreindu erindi yðar hafi áður verið svarað efnislega og ekki verði fallist á það, sbr. einkum tölvubréf þess 23. maí sl.

Í íslenskum rétti gildir óskráð meginregla um að hver sá sem ber upp skriflegt erindi við stjórnvöld eigi rétt á að fá skriflegt svar nema erindið beri með sér að svara sé ekki vænst. Að baki reglunni búa m.a. þau rök að borgarinn eigi ekki að búa við óvissu um hvort erindi hafi borist eða hvort stjórnvald hyggist bregðast við því. Í reglunni felst hins vegar ekki að sá sem ber upp erindi við stjórnvöld eigi rétt á tiltekinni úrlausn eða efnislegu svari. Það ræðst af eðli erindisins, því málefnasviði sem það tilheyrir og máls­atvikum að öðru leyti hvaða kröfur verða leiddar af lögum, skráðum og óskráðum reglum stjórnsýslu­réttarins og vönduðum stjórnsýsluháttum, til þeirra svara sem stjórn­völd veita vegna slíkra erinda borgaranna. Þegar skriflegu erindi hefur verið svarað en viðtakandi er engu að síður ósáttur við efni eða inntak þess reynir því fremur á önnur atriði en það hvort stjórnvald hafi fullnægt þeim skyldum sínum sem felast í framangreindri reglu. Staða manns eða lögpersónu sem er aðili að stjórn­sýslumáli er almennt önnur í þessu tilliti en þess sem t.d. sendir stjórnvaldi almenna fyrirspurn eða annars konar almennt erindi, s.s. um að reglugerð verði felld úr gildi.

Með vísan til framangreindra sjónarmiða og að teknu tilliti til samskipta yðar við ráðu­neytið, þar á meðal eðli erindis yðar til þess, tel ég ekki nægilegt tilefni til að taka kvörtun yðar til frekari athugunar. Er athugun á máli yðar því lokið, sbr. 1. mgr. 10. gr. laga nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis.