Kosningar. Fangelsismál.

(Mál nr. 11387/2022)

Kvartað var yfir því að starfsmenn Fangelsisins á Hólmsheiði hefðu ekki orðið við beiðnum um að fá að greiða atkvæði á kjördegi í Alþingiskosningum. Viðkomandi hóf afplánun fyrir kjördag en eftir að utan kjörfundar atkvæðagreiðsla hafði farið fram í fangelsinu.

Dómsmálaráðuneytið lét í ljós þá afstöðu að Fangelsismálastofnun hefði borið að veita viðkomandi leiðbeiningar um rétt til að sækja um skammtímaleyfi og málsmeðferð stofnunarinnar hefði því ekki verið í samræmi við stjórnsýslulög. Þar sem æðra stjórnvald hafði fallist á að annmarkar hefðu verið á meðferð málsins taldi umboðsmaður ekki tilefni til frekari athugunar á því.

 

Umboðsmaður lauk málinu með bréfi, dags. 6. september 2022, sem hljóðar svo:

 

Vísað er til kvörtunar yðar 12. nóvember 2021 yfir því að starfsmenn Fangelsisins á Hólmsheiði hafi ekki orðið við beiðnum yðar um að fá að greiða atkvæði á kjördegi alþingiskosninga 25. september 2021. Sam­kvæmt kvörtun yðar hófuð þér afplánun 22. september 2021 en atkvæðagreiðsla utan kjörfundar í fangelsinu samkvæmt XII. kafla þágildandi laga nr. 24/2000, um kosningar til Alþingis, mun hafa farið fram fyrir þann dag.

Í tilefni af kvörtuninni var Fangelsismálastofnun ritað bréf 9. desember 2021 þar sem óskað var eftir því að stofnunin veitti upplýsingar og afhenti gögn sem varpað gætu ljósi á málið. Í svari Fangelsismálastofnunar 25. janúar sl. kom m.a. fram að þeir sem séu í af­plánun meðan á kosningum stendur geti kosið utan kjörfundar í fangelsunum á nánar tilteknum dögum samkvæmt sérstakri ákvörðun sýslumanns á hverjum stað. Atkvæðagreiðsla utan kjörfundar hefði þegar farið fram á Hólmsheiði þegar þér óskuðuð eftir að fá að kjósa og því hafi ekki verið hægt að verða við beiðninni.

Með bréfi 29. júní sl. var þess farið á leit að dómsmála­ráðu­neytið, eftir atvikum með atbeina Fangelsismálastofnunar, upplýsti í hvaða lagalega farveg hefði borið að leggja beiðni yðar og skýrði hvort og þá hvernig téð synjun beiðninnar hefði samræmst því. Þess var óskað að skýringarnar tækju m.a. mið af því að ekki yrði fyllilega ráðið hvort og þá með hvaða hætti aðstæður yðar hefðu fallið að ákvæðum XII. kafla laga nr. 24/2000. Loks var óskað eftir því að ráðuneytið upp­lýsti hvort borið hefði að leysa úr beiðni yðar um að fá að neyta kosningaréttar með hliðsjón af 4. tölulið 1. mgr. 61. gr. laga nr. 15/2016, um fullnustu refsinga, eða almennum reglum stjórnsýsluréttar að teknu tilliti til þeirra lagalegu réttinda sem beiðni yðar laut að.

Í svari dómsmálaráðuneytisins 29. júlí sl. kemur m.a. fram að samkvæmt upplýsingum sem ráðuneytinu hafi borist frá Fangelsis­mála­stofnun virðist ekki hafa komið til athugunar hvort unnt hefði verið að fara með yður á kjörstað á kjördegi á grundvelli 4. töluliðar 1. mgr. 61. gr. laga um fullnustu refsinga, nr. 15/2016. Þá liggi ekki fyrir nein skrifleg gögn um málið, hvorki umsókn um skammtímaleyfi né svar frá fangelsinu. Ráðuneytið telji að það hefði verið í samræmi við leið­beiningarskyldu 1. mgr. 7. gr. stjórnsýslulaga, nr. 37/1993, að leiðbeina yður um möguleika á því að sækja um skammtímaleyfi, hafi það ekki verið gert, og þá jafnframt hver væri farvegur slíkrar beiðni. Aftur á móti sé ekki hægt að fullyrða nú hvort unnt hefði verið að veita skammtímaleyfi með svo skömmum fyrirvara. Athugasemdir yðar við svör ráðuneytisins bárust 25. ágúst sl.

Samkvæmt framangreindu hefur dómsmálaráðuneytið látið í ljós þá afstöðu að Fangelsismálastofnun hafi borið að veita yður leiðbeiningar um rétt yðar til að bera fram umsókn um skammtímaleyfi. Af svörum þess verður þannig ráðið að það telji að málsmeðferð stofnunarinnar í máli yðar hafi ekki verið í samræmi við 1. mgr. 7. gr. stjórnsýslulaga.

Það er hlutverk umboðs­manns Alþingis að hafa eftirlit með stjórnsýslu ríkis og sveitar­félaga á þann hátt sem nánar greinir í lögum og tryggja rétt borgaranna gagnvart stjórnvöldum landsins, sbr. 1. mgr. 2. gr. laga nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis. Störf umboðs­manns eru þess eðlis að viðbrögð hans geta almennt ekki orðið önnur en að lýsa þeirri afstöðu að meðferð mála hjá stjórnvöldum hafi ekki verið í samræmi við lög og vandaða stjórn­sýsluhætti og eftir atvikum beina þeim tilmælum til stjórnvalda að endur­skoða einstök mál, sbr. b-lið 2. mgr. 10. gr. laga nr. 85/1997.

Þar sem fyrir liggur í þessu máli að dómsmálaráðuneytið sem fer með yfirstjórn fangelsismála, þ. á m. Fangelsismálastofnun, hefur fallist á að annmarkar hafi verið á meðferð málsins hjá Fangelsismála­stofnun tel ég ekki nægilegt tilefni til frekari athugunar á málinu. Í því sambandi skal tekið fram að ekki verður önnur ályktun dregin en að téð atkvæðagreiðsla utan kjörfundar hafi verið auglýst og farið fram í samræmi við ákvæði þágildandi laga nr. 24/2000 og ekki unnt að verða við beiðni um að greiða atkvæði utan kjörfundar innan veggja fangelsisins.

Þess skal að lokum getið að kvörtun yðar sem og skýringar framangreindra stjórnvalda hafa varpað ljósi á álitaefni um starfsemi stjórnvalda sem kunna að verða tekin til almennrar athugunar á grundvelli 5. gr. laga nr. 85/1997. Samkvæmt ákvæðinu getur umboðs­maður tekið starfsemi og málsmeðferð stjórnvalds til almennrar athugunar að eigin frumkvæði. Komi til slíkrar athugunar verða atvik máls yðar höfð til hliðsjónar. Ákvarðanir um slíkar athuganir eru teknar með hliðsjón af starfssviði og áherslum umboðsmanns, hagsmunum sem tengjast málefninu sem um ræðir og málastöðu og nýtingu mannafla umboðsmanns. Verði af framangreindri athugun verður yður ekki tilkynnt um það sérstaklega heldur er upplýst um athugunina á vefsíðu umboðsmanns, www.umbodsmadur.is.

Með vísan til framangreinds lýk ég athugun minni á málinu, sbr. a-lið 2. mgr. 10. gr. laga nr. 85/1997.