Skipun lögráðamanna.

(Mál nr. 11675/2022)

Kvartað var yfir ákvörðun sýslumannsins á höfuðborgarsvæðinu að veita lögráðamanni lausn frá starfi og úrskurði dómsmálaráðuneytisins sem staðfesti þá niðurstöðu. Ekki hefði gefist færi á að andmæla.

Sá lögræðissvipti hafði lýst yfir vantrausti á lögráðamann sinn við sýslumann og fór fram á að fá nýjan. Gafst lögráðamanninum færi á að tjá sig um þá beiðni og lýsa afstöðu sinni og því ekki tilefni fyrir umboðsmann til að fjalla frekar um athugsemdir hvað snerti brot gegn andmælarétti hans. Ekki væru heldur forsendur til að gera athugasemdir við að dómsmálaráðuneytið hefði lagt önnur sjónarmið til grundvallar í niðurstöðu sinni en sýslumaður gerði í hinni kærðu ákvörðun. Það hefði sem æðra stjórnvald almennt allar sömu heimildir og lægra setta stjórnvaldið til að taka ákvörðun í máli og væri hvorki bundið af málsástæðum og lagarökum þess síðarnefnda. Þvert á móti bæri því að líta til allra atvika í viðkomandi máli, sem nauðsynlegt væri að upplýsa, til þess að hægt væri að taka rétta ákvörðun og lögum samkvæmt.

  

Umboðsmaður lauk málinu með bréfi, dags. 7. september 2022, sem hljóðar svo:

 

Vísað er til kvörtunar yðar 2. maí sl., f.h. A, yfir ákvörðun sýslumannsins á höfuðborgarsvæðinu 24. nóvember sl. um að veita umbjóðanda yðar lausn frá störfum sem lögráðamaður tiltekins manns og úrskurði dómsmálaráðuneytisins 4. mars sl. í máli nr. DMR21120057 þar sem sú niðurstaða var staðfest.

Í kvörtuninni gerið þér athugasemdir við málsmeðferð framan­greindra stjórnvalda og bendið einkum á að brotið hafi verið gegn and­mæla­rétti umbjóðanda yðar. Þá gerið þér einnig athugasemdir við niður­stöðu dómsmálaráðuneytisins og vísið til þess að ráðuneytið hafi byggt úrskurð sinn á öðrum rökum en ákvörðun yfirlögráðanda og umbjóðandi yðar hafi þar af leiðandi ekki fengið tækifæri til að koma að andmælum sínum.

Í 64. gr. lögræðislaga nr. 71/1997 er fjallað um lausn skipaðs lögráðamanns frá störfum. Þar segir í 2. mgr. að yfirlögráðandi skuli að eigin frumkvæði veita skipuðum lögráðamanni lausn frá störfum hafi hann vanrækt starfa sinn eða gerst brotlegur í starfi eða uppfylli ekki lengur skilyrði laga um almennt hæfi sem lögráðamaður. Í 54. og 55. gr. laganna er fjallað um hæfi lögráðamanna og málsmeðferð við skipun þeirra.

Í 1. málslið 1. mgr. 54. gr. lögræðislaga segir að skipaður lög­ráða­maður skuli vera lögráða og fjár síns ráðandi, ráðvandur og ráðdeildarsamur og að öðru leyti vel til starfans fallinn. Um það hvað felst í því að vera „vel til starfans fallinn“ er ekki fjallað nánar í athuga­semdum við frumvarp það er varð að lögum nr. 71/1997. Í athugsemdum við 27. gr. laga nr. 95/1947, sem hið fyrrnefnda ákvæði á rætur að rekja til, segir m.a. að við val á lögráðamanni verði jafnan að líta á hvað hinum ólögráða manni sé fyrir bestu (Alþt. 1946-1947, A-deild, bls. 798). Þá er gengið út frá því í 1. mgr. 55. gr. laganna að lögráðamaður skuli valinn í samráði við hinn lögræðissvipta. Yfirlögráðanda beri að gefa hinum lögræðissvipta kost á að bera fram ósk um hver skipaður verði lögráðamaður hans nema slíkt sé augsýnilega tilgangslaust. Óski hinn lögræðissvipti eftir því að tiltekinn maður verði skipaður lögráðamaður hans skal skipa hann lögráðamann, nema hagsmunir hins lögræðissvipta krefjist annars, sbr. 2. mgr. 55. gr. laganna.

Í úrskurði dómsmálaráðuneytisins þar sem ákvörðun sýslumannsins á höfuðborgarsvæðinu er staðfest er vísað til þess að við meðferð málsins hjá sýslumanni hafi fulltrúar embættisins farið á fund hins lög­ræðis­svipta þar sem hann lýsti óánægju sinni með tilteknar ráðstafanir um­bjóðanda yðar sem lögráðamanns og því bæri hann ekki lengur traust til hans og færi hann því fram á að honum yrði skipaður nýr lögráðamaður í hans stað. Af gögnum málsins er ljóst að umbjóðanda yðar var í kjölfarið gefið færi á að koma á framfæri afstöðu sinni til framkominna aðfinnsla og óska hins lögræðissvipta um að honum yrði skipaður nýr lögráðamaður. Athugasemdir umbjóðanda yðar bárust sýslumanni 4. október sl. Samkvæmt framangreindu er ljóst að umbjóðanda yðar var kynnt téð afstaða til hans og honum gefinn kostur á að tjá sig um hana við meðferð málsins hjá sýslumanni. Afstaða umbjóðanda yðar að þessu leyti lá því fyrir í gögnum málsins áður en ráðuneytið úrskurðaði í því. Með hliðsjón af því eru ekki efni til þess að fjalla frekar um athugasemdir yðar um að brotið hafi verið gegn andmælarétti umbjóðanda, sbr. 13. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 yðar við meðferð málsins hjá ráðuneytinu.

Þá eru ekki forsendur til að gera athugasemdir við að dóms­mála­ráðu­neytið hafi lagt önnur sjónarmið til grundvallar niðurstöðu sinni en sýslumaður gerði í hinni kærðu ákvörðun. Í því sambandi bendi ég á að dómsmálaráðuneytið sem æðra stjórnvald hefur almennt allar sömu heimildir til að taka ákvörðun í máli og það stjórnvald sem tekið hefur hina kærðu ákvörðun, sbr. 1. mgr. 26. gr. stjórnsýslulaga, og er hvorki bundið af málsástæðum og lagarökum þess né aðila máls. Þvert á móti ber því, sbr. 10. gr. stjórnsýslulaga, að líta til allra atvika í viðkomandi máli, sem nauðsynlegt er að upplýsa, til þess að hægt sé að taka efnis­lega rétta ákvörðun og lögum samkvæmt.

Að framangreindu virtu og með hliðsjón af lagagrundvelli málsins og eðli starfa lögráðamanna tel ég ekki tilefni til að gera athugasemdir við málsmeðferð eða niðurstöðu ráðuneytisins.

Með vísan til 1. mgr. 10. gr. laga nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis, lýk ég því athugun minni á málinu.