Útlendingar.

(Mál nr. 11778/2022 og 11785/2022)

Kvartað var yfir töfum á afgreiðslu Útlendingastofnunar á beiðni um kennitölu.

Stofnunin greindi frá því að mistök hefðu orðið við vinnslu málsins þar sem ekki hefði verið farið eftir verklagsreglum. Gerðar hefðu verið ráðstafanir til að tryggja að það gerðist ekki aftur og kapp yrði lagt á að flýta afgreiðslu málsins. Ekki var því tilefni til að aðhafast frekar.

 

Umboðsmaður lauk málinu með bréfi, dags. 5. september 2022, sem hljóðar svo:

 

Vísað er til kvartana yðar 11. og 19. júlí sl., f.h. A, yfir töfum á afgreiðslu Útlendingastofnunar á beiðni yðar um að A verði úthlutað kennitölu, en samkvæmt kvörtuninni var beiðnin lögð fram í ársbyrjun 2021. Í ljósi skyldleika kvartana yðar hef ég ákveðið að fjalla um þær í einu bréfi.

Í tilefni af kvörtunum yðar var Útlendingastofnun ritað bréf 11. ágúst sl. þar sem óskað var upplýsinga um hvort erindi yðar hefði borist stofnuninni og þá hvað liði meðferð og afgreiðslu þess.

Svarbréf Útlendingastofnunar barst 1. september sl. en þar kemur fram að samkvæmt sameiginlegu verklagi Útlendingastofnunar og Barna­verndar­stofu, nú Barna- og fjölskyldustofa, beri að tilkynna forsjár­aðilum, í þeim tilvikum sem þeir séu hvorki kyn- né kjörforeldrar barns, að þeir hafi ekki lögvarða hagsmuni af því að leggja inn umsókn en að barnavernd verði látin vita og óskað verði eftir því að hún leggi fram nýja umsókn fyrir barnið. Þau mistök hafi orðið við vinnslu málsins að slík tilkynning hafi ekki verið send, hvorki til barna­verndar né forsjáraðila. Stofnunin taki fulla ábyrgð á því og gerðar hafi verið ráðstafanir til að tryggja að slík staða komi ekki upp aftur. Beðist hafi verið afsökunar á vinnslutímanum og upplýst um að tilkynning til barnaverndar muni verða send samkvæmt verklagi og þá muni stofnunin gera hvað hún getur til að flýta fyrir afgreiðslu málsins.

Í ljósi þess sem fram kemur í svörum Útlendingastofnunar um að afgreiðsla málsins hafi dregist vegna mistaka sem nú hafi verið leiðrétt og að það sé nú í réttum farvegi tel ég ekki tilefni til að aðhafst frekar að svo stöddu og læt því athugun minni lokið, sbr. a-lið 2. mgr. 10. gr. laga nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis. Verði frekari tafir á meðferð málsins eða teljið þér yður órétti beitt að öðru leyti getið þér leitað til mín á ný teljið þér ástæðu til þess.