Fullnusta refsinga.

(Mál nr. 11800/2022)

Kvartað var yfir því að greiða þurfi fyrir klippingu í fangelsum.

Engin gögn fylgdu kvörtuninni og því varð ekki séð að erindið hefði verið borið upp við dómsmálaráðuneytið. Ekki voru því skilyrði til að umboðsmaður fjallaði um kvörtunina að svo stöddu.

  

Umboðsmaður lauk málinu með bréfi, dags. 7. september 2022, sem hljóðar svo:

 

Vísað er til kvörtunar yðar 11. júlí sl. yfir því að gjald sé tekið fyrir klippingu í fangelsum. Þar sem engin gögn fylgdu kvörtuninni verður ekki séð að þér hafið leitað með athugasemdir yðar til Fangelsis­málastofnunar eða eftir atvikum dómsmálaráðuneytisins. Sam­kvæmt 4. gr. laga nr. 15/2016, um fullnustu refsinga, fer ráðuneytið með yfirstjórn fangelsismála og eru ákvarðanir samkvæmt lögunum kæran­legar til þess nema annað sé tekið fram, sbr. 1. mgr. 95. gr.

Ástæða þess að framangreint er rakið er að í 3. mgr. 6. gr. laga nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis, kemur fram að megi skjóta máli til æðra stjórnvalds sé ekki unnt að kvarta til umboðsmanns fyrr en æðra stjórnvald hefur fellt úrskurð sinn í málinu. Af ákvæðinu leiðir m.a. að almennt fjallar umboðsmaður ekki um mál á grundvelli kvörtunar fyrr en það hefur verið endanlega leitt til lykta í stjórnsýslunni. Þar sem þér getið freistað þess að leita til framangreindra stjórnvalda með erindi yðar brestur lagaskilyrði til þess að kvörtun yðar verði tekin til frekari athugunar að svo stöddu.

Með vísan til þess sem rakið er að framan læt ég máli þessu lokið af minni hálfu með vísan til 1. mgr. 10. gr. laga nr. 85/1997.