Lögreglu- og sakamál. Sakarkostnaður.

(Mál nr. 11524/2022)

A leitaði til umboðsmanns Alþingis og kvartaði yfir úrskurði dómsmálaráðuneytisins en með honum var ákvörðun sýslumannsins á Norðurlandi vestra, um að hafna beiðni um niðurfellingu sakarkostnaðar, staðfest. Úrskurður ráðuneytisins byggðist annars vegar á því að ekkert lægi fyrir um að aflahæfi A væri skert, s.s. vegna varanlegrar örorku eða alvarlegra veikinda, og hins vegar á því að hann hefði ekki fært rök fyrir tekjuleysi sínu. Í kvörtuninni kom fram að A ætti ekki eignir og hefði engar tekjur. Honum væri því ekki fært að standa skil á sakarkostnaði og fyrirséð væri að staða hans myndi ekki breytast á næstu árum. Þá voru einnig gerðar athugasemdir við túlkun ráðuneytisins á ákvæði laga um meðferð sakamála. Athugun umboðsmanns beindist að því hvort niðurstaða ráðuneytisins hefði verið í samræmi við lög.

Umboðsmaður gerði grein fyrir lagagrundvelli málsins og dómaframkvæmd Mannréttindadómstóls Evrópu. Benti hann á að sönnunarbyrði um að sakfelldur maður hefði ekki yfir nægu fé að ráða til greiðslu sakarkostnaðar hlyti að hvíla á honum sjálfum. Óumdeilt væri að A væri ekki öryrki eða ófær um að afla sér tekna vegna slyss eða sjúkdóms. Þá yrði að leggja til grundvallar að þær ástæður sem hann hefði vísað til fyrir tekjuleysi sínu væru eðli málsins samkvæmt tímabundnar. Hvað sem þessu liði hefðu ekki verið lögð fram gögn þeim til stuðnings, svo sem um að A væri eða hefði verið í virkri atvinnuleit sem ekki hefði borið árangur. Þá yrði að leggja til grundvallar að A hefði verið gert kleift að taka til varna með fullnægjandi hætti fyrir dómstólum án tillits til fyrirsjáanlegra möguleika hans á því að greiða útlagðan sakarkostnað. Að þessu virtu taldi umboðsmaður sig ekki hafa forsendur til að gera athugasemdir við mat ráðuneytisins um að A hefði ekki fært nægilegar sönnur fyrir því að skilyrði ákvæðis laga um meðferð sakamála fyrir niðurfellingu sakarkostnaðar væri fullnægt.

   

Umboðsmaður lauk málinu með áliti án tilmæla 3. október 2022.

   

   

I

Vísað er til kvörtunar yðar 1. febrúar sl., f.h. A, yfir úrskurði dómsmálaráðuneytisins [...]. Með úrskurðinum var ákvörðun sýslumannsins á Norðurlandi vestra [...], um að hafna beiðni um niðurfellingu sakarkostnaðar vegna dóms Hæstaréttar [...], staðfest.

Í kvörtuninni kemur fram að umbjóðandi yðar eigi engar eignir og hafi engar tekjur. Honum sé því ekki fært að standa skil á sakarkostnaði að fjárhæð [...] kr. Fyrirséð sé að staða hans muni ekki breytast á næstu árum. Þar að auki eru gerðar athugasemdir við túlkun ráðuneytisins á 2. mgr. 239. gr. laga nr. 88/2008, um meðferð sakamála. Í þeim efnum er byggt á því að ákvæðið verði ekki skýrt með þeim hætti að aflahæfi þurfi að vera varanlega skert til þess að niðurfelling sakarkostnaðar komi til álita. Þá segir einnig að tekjuleysi umbjóðanda yðar megi einkum rekja til [...]. Þessar ástæður hafi orðið þess valdandi að umbjóðandi yðar hafi ekki getað stundað atvinnu í samræmi við menntun og starfsreynslu.

  

II

1

Í 1. mgr. 235. gr. laga nr. 88/2008 er kveðið á um þá meginreglu að sakfelldum manni beri að greiða sakarkostnað. Í 1. mgr. 239. gr. laganna segir að lagt skuli út fyrir sakarkostnaði úr ríkissjóði. Sakarkostnaður sem sakfelldum manni sé gert að greiða samkvæmt dómi, úrskurði eða viðurlagaákvörðun skuli innheimtur hjá honum, eftir atvikum með fjárnámi eða nauðungarsölu. Hann skuli bera kostnað af þeim aðgerðum, svo og aðgerðum vegna fullnustu refsingar og annarra viðurlaga á hendur honum, til viðbótar sakarkostnaði. Í 2. mgr. greinarinnar er kveðið á um undantekningu frá framangreindri reglu. Þar segir efnislega að liggi nægilega ljóst fyrir að sakfelldur maður eigi hvorki eignir né hafi tekjur til að standa straum af sakarkostnaði sem honum hefur verið gert að greiða beri að falla frá kröfu á hendur honum um greiðslu.

Af athugasemdum í frumvarpi því er varð að lögum nr. 88/2008 segir að 2. mgr. 239. gr. laganna eigi rætur að rekja til fyrirmæla c-liðar 3. mgr. 6. gr. mannréttindasáttmála Evrópu, sbr. lög nr. 62/1994, þar sem sökuðum manni sé m.a. tryggður réttur til ókeypis lögfræðiaðstoðar til að halda uppi vörnum í sakamáli ef það er nauðsynlegt vegna réttvísinnar. Þá verður einnig ráðið af athugasemdunum að ákvæðið hafi verið sett í kjölfar dóms Hæstaréttar 21. september 2005 í máli nr. 248/2005. Nánar tiltekið kemur þar fram að Hæstiréttur hafi komist að þeirri niðurstöðu með vísan til úrlausna Mannréttindadómstóls Evrópu að skýra beri íslensk lög svo að sakfelldum manni sem gert hefur verið að greiða sakarkostnað verði að vera unnt að sanna vanhæfni sína til greiðslu málsvarnarlauna verjanda síns þegar um er að ræða innheimtu slíks kostnaðar (Alþt. 2007-2008, A-deild, bls. 1511-1513).

Með ákvæði 2. mgr. 239. gr. laga nr. 88/2008 hefur löggjafinn fengið stjórnvöldum í hendur matskennda valdheimild þar sem þeim er einkum falið að meta hvenær „nægilega ljóst“ liggur fyrir að sakfelldur maður hafi hvorki eignir né tekjur til að standa straum af sakarkostnaði. Í tilvikum sem þessum er stjórnvöldum að jafnaði heimilt að setja sér viðmiðunarreglur um helstu sjónarmið sem byggja ber á til stuðnings beitingu slíkra valdheimilda. Slík sjónarmið verða þó að vera málefnaleg og að jafnaði ekki tæmandi upp talin í viðmiðunarreglum enda mega slíkar reglur ekki takmarka óhóflega eða útiloka það einstaklingsbundna mat sem lög gera ráð fyrir.

Dómsmálaráðuneytið setti sér viðmiðunarreglur í tengslum við beitingu 2. mgr. 239. gr. laga nr. 88/2008 hinn 1. nóvember 2019. Í 1. mgr. 2. gr. þeirra segir að við mat á því hvort sakarkostnaður verði felldur niður skuli miða við að stofn til útreiknings tekjuskatts og útsvars, fjármagnstekjur og aðrar tekjur, þ.m.t. skattfrjálsar tekjur, nemi ekki hærri fjárhæð en samtals 3.650.000 kr. Hækka skuli þessa viðmiðunarfjárhæð um 406.000 kr. fyrir hvert barn undir 18 ára aldri, þ.m.t. stjúp- og fósturbörn, sem búa hjá umsækjanda eða hann greiðir meðlag með. Í 2. mgr. greinarinnar segir að synja megi beiðni um niðurfellingu sakarkostnaðar þótt tekjur umsækjanda séu undir viðmiðunarmörkum samkvæmt 1. mgr. þegar umsækjandi á fé á bankareikningi, hlutabréf, skuldabréf, fasteign, lausafé eða aðrar eignir. Þá segir í 3. mgr. greinarinnar að einnig megi synja beiðni um niðurfellingu séu tekjur undir viðmiðunarmörkum samkvæmt 1. mgr. vegna sérstakra aðstæðna sem ætla megi að séu aðeins tímabundnar, s.s. meðan á námi eða afplánun refsivistar stendur.

Í 1. mgr. 70. gr. stjórnarskrár lýðveldisins Íslands nr. 33/1944 er m.a. kveðið á um að öllum beri réttur til að fá úrlausn um réttindi sín og skyldur eða um ákæru á hendur sér um refsiverða háttsemi með réttlátri málsmeðferð innan hæfilegs tíma fyrir óháðum og óhlutdrægum dómstóli. Ákvæði þetta svarar efnislega til 6. gr. mannréttindasáttmála Evrópu, sbr. samnefnd lög nr. 62/1994. Í c-lið 3. mgr. 6. gr. sáttmálans segir að hver sá sem borinn er sökum um refsiverða háttsemi skuli eigi njóta minni réttar en að fá að halda uppi vörnum sjálfur eða með aðstoð verjanda að eigin vali. Hafi hann ekki nóg fé til að greiða fyrir lögfræðiaðstoð skuli hann fá hana ókeypis ef það er nauðsynlegt vegna réttvísinnar. Ekki fer á milli mála að tilgangur þessara ákvæða er að tryggja að sakborningur geti tekið til varna með fullnægjandi hætti í sakamáli.

Eins og áður greinir gera íslensk lög ráð fyrir að lagt sé út fyrir sakarkostnaði úr ríkissjóði og viðkomandi einungis gert að endurgreiða ríkinu sakarkostnað verði hann sakfelldur. Í framkvæmd Mannréttindadómstóls Evrópu hefur reynt á hvort slík skipan samrýmist almennt 6. gr. sáttmálans. Í máli Croissant gegn Þýskalandi, sbr. dóm dómstólsins 25. september 1992 nr. 13611/88, var þannig til skoðunar sú tilhögun þýska ríkisins að kostnaður í sakamálum væri í upphafi greiddur úr ríkissjóði en sakfelldum manni gert að greiða hann í kjölfar sakfellingar. Í þeim efnum vísaði dómstóllinn til þess að þýsk lög gerðu ráð fyrir því að greiðsla sakarkostnaðar væri eðlileg afleiðing sakfellingar. Dómstóllinn taldi slíka framkvæmd í sjálfu sér ekki fara gegn 6. gr. sáttmálans ef ekki væri sýnt fram á að hún hefði haft neikvæð áhrif á réttmæti málsmeðferðar fyrir dómi.

Í fyrrnefndu máli vísaði dómstóllinn einnig til þess að það álitaefni hvort viðkomandi ætti „nóg fé“ (e. sufficient means, fr. les moyens de rémunérer) til að greiða lögfræðikostnað í skilningi c-liðar 3. mgr. 6. gr. sáttmálans hefði fyrst komið til skoðunar við innheimtu í kjölfar sakfellingar. Sönnunarbyrði um að sakfelldur maður hefði ekki yfir nægu fé að ráða til greiðslu hlyti að hvíla á honum sjálfum. Í öðrum dómum hefur dómstóllinn vísað til þess að þetta þurfi þó ekki að vera hafið yfir allan vafa. Einhverjar vísbendingar um slíkt verði þó að vera fyrir hendi eða skortur á skýrum vísbendingum um hið gagnstæða, sbr. til hliðsjónar 39. tölulið dóms í máli Tsonyo Tsonev gegn Búlgaríu frá 14. janúar 2010 í máli nr. 2376/03.

  

2

Af úrskurði ráðuneytisins verður ráðið að synjun um niðurfellingu á sakarkostnaði hafi annars vegar byggst á því að ekkert liggi fyrir um að aflahæfi umbjóðanda yðar sé skert, s.s. vegna varanlegrar örorku eða alvarlegra veikinda, og hins vegar hafi hann ekki fært rök fyrir tekjuleysi sínu. Ráðuneytið hafi þannig litið svo á að umbjóðandi yðar hafi ekki sannað vanhæfni sína til greiðslu sakarkostnaðar. Ekki liggi því nægilega ljóst fyrir að hann eigi hvorki eignir né muni hafa tekjur til að standa straum af greiðslu sakarkostnaðar í skilningi 2. mgr. 239. gr. laga nr. 88/2008.

Gögn málsins bera með sér að umbjóðanda yðar og ráðuneytið greini á um hvort aflahæfi hans hafi þýðingu við mat á því hvort skilyrði niðurfellingar hafi verið fyrir hendi samkvæmt 2. mgr. 239. gr. laga nr. 88/2008. Í ákvæðinu er ekki vísað til þess að aflahæfi þess sem sækir um niðurfellingu sakarkostnaðar þurfi að vera skert svo fallast megi á slíka beiðni. Aflahæfi felur aftur á móti í sér möguleika manna til að afla sér tekna til framtíðar með starfskröftum sínum. Skerðing eða missir aflahæfis, tímabundin eða til frambúðar, kemur því einkum til vegna slysa, veikinda eða áfalla sem jafnað verður til þess. Við slíkar aðstæður missir viðkomandi möguleika til þess að afla sér tekna að hluta eða öllu leyti og þá annaðhvort tímabundið eða til frambúðar.

Í fyrrgreindum dómi Hæstaréttar í máli nr. 248/2005 er ekki vísað til skerts aflahæfis viðkomandi með beinum hætti en engu að síður má af forsendum hans ráða að það hafi haft þýðingu fyrir niðurstöðu málsins. Niðurstaða dómsins um ógildingu fjárnámsgerðar að því er lýtur að málsvarnarlaunum byggðist þannig á því að viðkomandi hefði lagt fram ýmis gögn um getuleysi sitt til greiðslu. Í þeim efnum var vísað til þess að því hefði ekki verið mótmælt að viðkomandi væri öryrki með lágmarkstekjur.

Með hliðsjón af því sem að framan er rakið tel ég mig ekki hafa forsendur til þess að fullyrða að ráðuneytinu hafi verið óheimilt að líta til þess hvort aflahæfi umbjóðanda yðar væri í reynd skert við mat á niðurfellingu sakarkostnaðar samkvæmt 2. mgr. 239. gr. laga nr. 88/2008. Það athugast þó að ákvæðið verður að mínu áliti ekki skilið á þann veg að niðurfelling komi einungis til greina í þeim tilvikum sem aflahæfi viðkomandi er skert til frambúðar.

Þær ástæður sem umbjóðandi yðar hefur fært fyrir tekjuleysi sínu síðustu ár eru einkum þær að [...]. Af úrskurði ráðuneytisins og skýringum þess til umboðsmanns má ráða að það hafi litið til aðstæðna umbjóðanda yðar að þessu leyti. Ráðuneytið hafi hins vegar ekki talið sýnt fram á að honum væri ókleift að nýta starfsgetu sína til frambúðar í því skyni að afla sér tekna og standa straum af þeim sakarkostnaði sem hann hefði verið dæmdur til að greiða.

Óumdeilt er að umbjóðandi yðar er ekki öryrki eða ófær um að afla sér tekna vegna slyss eða sjúkdóms. Þá verður að leggja til grundvallar að þær ástæður sem vísað hefur verið til fyrir tekjuleysi hans séu eðli málsins samkvæmt tímabundnar. Hvað sem þessu líður hafa ekki verið lögð fram gögn þeim til stuðnings, svo sem að umbjóðandi yðar sé eða hafi verið í virkri atvinnuleit sem ekki hafi borið árangur. Þá verður að leggja til grundvallar að umbjóðanda yðar hafi verið gert kleift að taka til varna með fullnægjandi hætti fyrir dómstólum án tillits til fyrirsjáanlegra möguleika hans á því að greiða útlagðan sakarkostnað. Að þessu virtu tel ég mig ekki hafa forsendur til að gera athugasemdir við það mat ráðuneytisins að umbjóðandi yðar hafi ekki fært nægilegar sönnur fyrir því að fyrrgreindu skilyrði 2. mgr. 239. gr. laga nr. 88/2008 væri fullnægt, en sönnunarbyrði um að hann geti ekki aflað sér tekna þannig að „nægilega ljóst“ sé að hann geti ekki greitt sakarkostnað hvílir á honum, líkt og áður greinir.

Ég tel að önnur atriði í kvörtun yðar gefi mér ekki tilefni til sérstakrar umfjöllunar.

  

III

Samkvæmt framangreindu og með vísan til b-liðar 2. mgr. 10. gr. laga nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis, lýk ég hér með umfjöllun minni um málið.