Stjórnun fiskveiða. Leyfi til að stunda grásleppuveiðar.

(Mál nr. 418/1991)

Máli lokið með áliti, dags. 31. janúar 1992.

A kvartaði yfir því, að sjávarútvegsráðuneytið hefði með bréfi synjað umsókn hans um leyfi til að stunda grásleppuveiðar á árinu 1991 á bátnum X. Kvaðst A hafa fengið leyfi til grásleppuveiða á árinu 1990. Það leyfi hefði hann ekki nýtt sér vegna lágs verðs á grásleppuhrognum og sölutregðu. Landssamband smábátaeigenda hefði hvatt veiðileyfishafa til að stunda ekki veiðar. Taldi A sig hafa sýnt þegnskap með því að halda báti sínum ekki til veiða. Í ljósi þessara atvika væri synjun ráðuneytisins reist á ólögmætum sjónarmiðum og kæmi hart niður á atvinnu hans og atvinnutæki. Ráðuneytið byggði á því, að þar sem A hefði ekki stundað veiðar 1987 eða síðar fullnægði umsókn A ekki skilyrðum reglugerðar nr. 474/1990, um grásleppuveiðar, um veitingu veiðileyfis. Umboðsmaður taldi, að ákvæði 1. mgr. 2. gr. reglugerðar nr. 474/1990 ætti sér ótvíræða stoð í 2. mgr. 4. gr. laga nr. 38/1990, um stjórn fiskveiða. Ljóst væri, að ekki hefðu verið fyrir hendi skilyrði samkvæmt þessu reglugerðarákvæði til að veita A leyfi til grásleppuveiða á árinu 1991, þar sem hann hefði ekki stundað grásleppuveiðar áður. Synjun ráðuneytisins hefði því verið í samræmi við fyrirmæli reglugerðar og laga, sem við áttu. Umrædd reglugerð hefði takmarkað veiðileyfi við þá, sem stundað hefðu þessar veiðar á ákveðnu tímabili, m.a. vegna þess að ætla mætti, að það hefði komið niður á heimildum þeirra til veiða á botnfiski. Umboðsmaður taldi því þau sanngirnissjónarmið, sem A vísaði til, ekki geta leitt til þeirrar niðurstöðu, að synjun ráðuneytisins yrði talin ómálefnaleg eða ólögmæt af öðrum ástæðum.

I. Kvörtun og málavextir.

Með bréfi 27. mars 1991, lagði A fram kvörtun út af því, að sjávarútvegsráðuneytið hefði með bréfi, dags. 20. mars 1991, synjað umsókn hans um leyfi til að stunda grásleppuveiðar á árinu 1991 á bátnum X. Nefnt bréf ráðuneytisins hljóðar svo:

„Vísað er til umsóknar yðar um grásleppuveiðileyfi árið 1991. Þar sem ekki verður séð á skýrslum að þér hafið stundað veiðar 1987 eða síðar fullnægir umsókn yðar ekki skilyrðum reglugerðar nr. 474/1990 um grásleppuveiðar um veitingu veiðileyfis. Tilkynnir ráðuneytið yður því hér með að umsókn yðar er hafnað.“

A benti á, að hann hefði fengið leyfi til grásleppuveiða á árinu 1990. Það leyfi hefði hann hins vegar ekki nýtt sér, þar sem það ár hefði verð á grásleppuhrognum verið lágt og erfitt um sölu. Hefði Landssamband smábátaeigenda og lagt til í bréfi 15. mars 1990, að veiðileyfishafar hæfu ekki veiðar. Árið 1990 hefði þannig verið þjóðhagslega óhagkvæmt að stunda grásleppuveiðar og hefði hann sýnt þegnskap með því að halda ekki báti sínum til veiða. A kvaðst hafa treyst því, að hann fengi að halda leyfi sínu, og taldi með hliðsjón af framangreindum atvikum, að synjun sjávarútvegsráðuneytis frá 20. mars 1991 væri reist á ólögmætum sjónarmiðum og kæmi mjög harkalega niður á atvinnu hans og atvinnutæki.

II. Athugun umboðsmanns Alþingis.

Með bréfi, dags. 26. júní 1991, óskaði ég eftir því við sjávarútvegsráðuneytið að það skýrði afstöðu sína til kvörtunar A og léti mér í té gögn málsins. Greinargerð ráðuneytisins barst mér í bréfi þess 29. júlí 1991. Þar segir:

„Í lok síðasta árs var sú ákvörðun tekin, m.a. vegna eindreginna tilmæla frá stjórn Landssambands smábátaeigenda að takmarka útgáfu grásleppuveiðileyfa við þá aðila, sem þær veiðar höfðu stundað tiltekið tímabil.

Ákvörðun þessi var tekin til að tryggja hagsmuni þeirra aðila, sem grásleppuveiðar höfðu stundað. Var það gert þar sem menn óttuðust að öðrum kosti yrði um mikla ásókn að ræða í þessar veiðar, einkum frá þeim sem selt höfðu botnfiskheimildir af bátum sínum.

Við þessa ákvörðun var haft í huga að þeir aðilar, sem grásleppuveiðar hafa stundað á árunum frá 1987, sitja við lakara borð en aðrir hvað botnfiskheimildir snertir því þeir hafa þann tíma, sem þeir stunda grásleppuveiðar, ekki skapað sér aflareynslu í botnfiski.

Þann 2. desember 1990 gaf ráðuneytið út reglugerð nr. 474/1990, um grásleppuveiðar. Í 1. gr. reglugerðarinnar segir: Allar grásleppuveiðar í fiskveiðilandhelgi Íslands eru bannaðar nema að fengnu sérstöku leyfi sjávarútvegsráðuneytisins. Í 2. gr. er kveðið á um hvaða aðilar eigi rétt til grásleppuveiðileyfis: Rétt til grásleppuveiðileyfis eiga þeir aðilar, sem stundað hafa grásleppuveiðar á a.m.k. einu af árunum 1987, 1988, 1989 og 1990.

Reglugerð nr. 474/1990 er gefin út með stoð í lögum nr. 38, 15. maí 1990 um stjórn fiskveiða sbr. einkum 2. mgr. 4. gr. þeirra laga.

[A] sótti um veiðileyfi til grásleppuveiða á árinu 1991 en þar sem hann hafði ekki stundað veiðar á því tímabili sem áskilið er í reglugerð 474/1990 var umsókn hans hafnað.

Ráðuneytið telur að ekki skipti máli í þessu sambandi að [A] var veitt leyfi fyrir árið 1990 á grundvelli reglugerðar 128/1988, um grásleppuveiðar þar sem hann nýtti sér ekki leyfið það ár og stundaði ekki veiðar. Tilmæli Landssambands smábátaeigenda til handhafa veiðileyfa árið 1990 um að hefja ekki veiðar fyrr en fyrir lægi full trygging fyrir sölu hrogna, eru ráðuneytinu óviðkomandi og getur ekki að mati ráðuneytisins haft þýðingu varðandi þetta mál.“

Ég gaf A kost á að koma á framfæri athugasemdum við greinargerð sjávarútvegsráðuneytisins og bárust mér þær í bréfi lögmanns A 5. desember 1991.

III. Niðurstaða.

Niðurstaða álits míns, dags. 31. janúar 1992, var svohljóðandi:

„Samkvæmt 2. mgr. 4. gr. laga nr. 38/1990 um stjórn fiskveiða getur sjávarútvegsráðherra meðal annars ákveðið, að veiðar ákveðinna fisktegunda skuli háðar sérstöku leyfi ráðherra og er þar heimilt að takmarka leyfi við skip „er tilteknar veiðar stunda eða hafa áður stundað“. Á grundvelli þessa lagaákvæðis var sett reglugerð nr. 474/1990 um grásleppuveiðar. Ákvæði 1. mgr. 2. gr. reglugerðarinnar eru þessi:

„Rétt til grásleppuveiðileyfis eiga þeir aðilar sem stundað hafa grásleppuveiðar á a.m.k. einu af árunum 1987, 1988, 1989 og 1990. Leyfi til grásleppuveiða skal úthlutað á þann bát sem er í eigu áðurgreindra aðila. Hafi eigendaskipti orðið á fiskibáti skal ráðuneytið að höfðu samráði við Landssamband smábátaeigenda úrskurða um úthlutun veiðileyfis.“

Ofangreint reglugerðarákvæði á sér ótvíræða stoð í lögum nr. 38/1990, svo sem að framan er lýst. Ljóst er, að ekki voru fyrir hendi skilyrði samkvæmt þessu reglugerðarákvæði til að veita A leyfi til grásleppuveiða á árinu 1991, þar sem hann hafði ekki stundað grásleppuveiðar áður. Synjun ráðuneytisins frá 20. mars 1991 var því í samræmi við fyrirmæli laga og reglugerðar, sem við áttu. Umrædd reglugerð nr. 474/1990 takmarkaði veiðileyfi við þá, sem stundað höfðu þessar veiðar á ákveðnu tímabili, meðal annars vegna þess að ætla mátti að það hefði komið niður á heimildum þeirra til veiða á botnfiski. Með hliðsjón af því tel ég, að þau sanngirnissjónarmið, sem A vísar til, geti ekki leitt til þeirrar niðurstöðu, að synjun ráðuneytisins verði að teljast ómálaefnaleg eða ólögmæt af öðrum ástæðum.“

Það varð því niðurstaða mín, að ekki væri tilefni til að gagnrýna ákvarðanir sjávarútvegsráðuneytisins í máli A.