Almannatryggingar. Örorkulífeyrir. Örorkumat. Sjónarmið sem ákvörðun verður byggð á.

(Mál nr. 11421/2021)

Kvartað var yfir úrskurði úrskurðarnefndar velferðarmála þar sem staðfest var ákvörðun Tryggingastofnunar um að synja A um örorkulífeyri og tengdar greiðslur en honum metinn örorkustyrkur.

Ekki varð annað ráðið en að mat á örorku A hefði farið fram samkvæmt lögum og reglum sem gilda um mat á örorku og að niðurstaða Tryggingastofnunar sem úrskurðarnefndin staðfesti hefði verið reist á læknisfræðilegum gögnum. Umboðsmaður taldi því ekki forsendur til að gera athugasemd við ákvörðun stjórnvaldanna enda væru takmarkanir á því að umboðsmaður gæti endurmetið sérfræðilegt mat af þessu tagi. Þá taldi umboðsmaður sig ekki hafa forsendur til að fullyrða að sú framkvæmd Tryggingastofnunar og úrskurðarnefndar velferðarmála, að meta örorku með hliðsjón af notkun hjálpartækis, byggðist ekki á fullnægjandi grundvelli.

Að lokum taldi umboðsmaður sig ekki geta tekið afstöðu til þess hvort ákvörðun Trygginga­stofnunar hafi falið í sér mismunun  og ósamræmi og þar með brotið gegn jafnræðis­reglum. Vísaði umboðsmaður til þess að samkvæmt þeim gögnum sem fyrir hann voru lögð hafi því ekki verið borið við í kæru A til úrskurðarnefndar velferðarmála að brotið hefði verið gegn jafnræðisreglum. Benti umboðsmaður á að ef kvörtun byggði á nýjum upplýsingum eða röksemdum sem hlutaðeigandi stjórnvöld hefðu ekki haft tækifæri til þess að fjalla um yrði sá hluti hennar sem byggir á slíkum nýjum upplýsingum ekki tekin til meðferðar fyrr en þau hefðu fellt úrskurð sinn um þau atriði.

  

Umboðsmaður lauk málinu með áliti án tilmæla 10. október 2022.