Fullnusta refsinga.

(Mál nr. 11773/2022)

Kvartað var yfir bið eftir því að komast til tannlæknis á Litla-Hrauni og gerðar athugasemdir við að ekki hafi fengist hárklipping. 

Við eftirgrennslan kom í ljós að viðkomandi var kominn með tíma hjá tannlækni en kvartanir vegna klippingar höfðu ekki borist forstöðumanni fangelsisins. Ekki voru því forsendur fyrir umboðsmann til að halda athugun sinni áfram.

 

Umboðsmaður lauk málinu með bréfi, dags. 15. september 2022.

  

  

Vísað er til kvörtunar yðar frá 6. júlí sl. sem lýtur að því að þér hafið beðið í þrjá mánuði eftir því að komast til tannlæknis, auk þess sem þér gerið athugasemdir við að hafa ekki fengið að fara í hárklippingu.

Í tilefni af kvörtuninni var forstöðumanni fangelsisins ritað bréf 4. ágúst sl., sem þér fenguð sent afrit af, þar sem óskað var eftir að veittar yrðu upplýsingar um þau atriði sem kvörtun yðar lýtur að. 

Svarbréf barst frá forstöðumanni fangelsisins 31. ágúst sl. Í bréfinu var m.a. gerð grein fyrir að í kjölfar kvartana frá yður hafi forstöðumaðurinn hlutast til um að þér kæmust að hjá tannlækni og munuð þér hafa fengið tíma hjá tannlækni 17. ágúst sl. Að því er snertir athugasemdir yðar við aðgengi að hárklippingu var tekið fram að rakari kæmi í fangelsið með reglulegu millibili og geti fangar skráð sig á lista og fengið klippingu. Í bréfinu kom fram að forstöðumaðurinn hefði hvorki upplýsingar um að þér hefðuð ekki fengið að komast að í klippingu né kvartanir frá yður um slíkt.

Í ljósi þess sem rakið hefur verið um viðbrögð forstöðumanns fangelsisins við umkvörtunum tel ég ekki forsendur til að halda áfram athugun minni á henni. Í tilefni af athugasemdum í kvörtun yðar minni ég þó á að umboðsmaður Alþingis hefur m.a. því hlutverki að gegna að hafa eftirlit með aðstæðum frelsis­sviptra, þ.á m. fanga, á almennum grunni. Athugasemdir yðar verða hafðar til hliðsjónar við framkvæmd þessa eftirlits. Áréttað er að það hefur ekki áhrif á framangreinda niðurstöðu mína um að ekki séu forsendur til að taka kvörtun yðar til frekari meðferðar.

Með vísan til framangreinds lýk ég umfjöllun minni um málið, sbr. 1. mgr. 10. gr. laga nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis.