Kvartað var yfir framferði nágranna á einkalóð og takmörkun á umferðarrétti og viðbrögðum lögreglustjórans á Vesturlandi og sýslumannsins þar vegna málsins.
Þar sem ágreiningur landeigendanna var einkaréttarlegur voru ekki skilyrði til að umboðsmaður fjallaði um hann. Ekki voru heldur efni til að fjalla um þátt lögreglustjóra og sýslumanns.
Umboðsmaður lauk málinu með bréfi, dags. 15. september 2022.
Vísað er til kvörtunar yðar 8. ágúst sl. yfir því að eigendur af hálfri jörðinni að [...] hafi lagt bifreið á vegræsi og hindrað þannig umferðarrétt sem þér teljið yður hafa á grundvelli landskiptagjörðar frá árinu 1974. Jafnframt eruð þér ósáttir við að lögreglustjórinn á Vesturlandi og embætti sýslumannsins á Vesturlandi hafi bent hvor á annan í kjölfar þess að þér óskuðuð eftir því að umrædd bifreið yrði fjarlægð.
Samkvæmt 1. og 2. mgr. 3. gr. laga nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis, nær starfssvið umboðsmanns til stjórnsýslu ríkis og sveitarfélaga auk starfsemi þeirra einkaaðila sem hafa að lögum fengið opinbert vald til að taka ákvarðanir um rétt eða skyldu manna í skilningi 2. mgr. 1. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Ágreiningur sem kann að vera uppi milli yðar og eigenda að hálfri jörðinni að [...] er hins vegar einkaréttarlegur og fellur þar af leiðandi utan starfssviðs umboðsmanns Alþingis eins og það er afmarkað samkvæmt þessu. Brestur því skilyrði til að ég taki þennan þátt kvörtunar yðar til skoðunar.
Í tilefni af athugasemdum sem beinast að því hvernig framangreind stjórnvöld hafa brugðist við erindi yðar vegna málsins skal þess getið að samkvæmt gögnum sem fylgdu kvörtuninni hefur lögreglustjórinn á Vesturlandi tekið athugasemdir yðar til umfjöllunar og m.a. gengið á vettvang en jafnframt upplýst yður með tölvupósti 12. júlí sl. um þá afstöðu að lögreglan hafi ekki heimildir til að fara inn á einkalönd til að fjarlægja bíla eða muni. Hefur yður jafnframt verið ráðlagt að leita atbeina sýslumanns þar sem um einkaréttarlegan ágreining sé að ræða. Að því virtu eru ekki heldur efni til að ég fjalli um þennan þátt málsins. Ég bendi hins vegar á að yður kunna að vera aðrar leiðir færar að einkarétti til að fá bifreiðina fjarlægða, eftir atvikum með atbeina dómstóla, teljið þér ástæðu til þess.
Með vísan til framangreinds lýk ég athugun minni á kvörtun yðar, sbr. 1. mgr. 10. gr. laga nr. 85/1997.