Skipulags- og byggingarmál.

(Mál nr. 11808/2022)

Kvartað var yfir aðgerðarleysi lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu, Reykjavíkurborgar og sýslumannsins á höfuðborgarsvæðinu hvað varðaði hagsmunagæslu íbúa miðborgarinnar sem búa við næturhávaða frá skemmti- og veitingarekstri.  

Ekki varð ráðið að kvörtunin lyti að tiltekinni ákvörðun eða athöfn stjórnvalds sem snerti hagsmuni viðkomandi heldur virtist hún lúta almennt að því hvernig staðið er að útgáfu leyfa til ýmiss konar starfsemi í miðbænum og eftirliti með henni. Ekki voru því skilyrði til að umboðsmaður tæki málið til nánari athugunar. 

  

Umboðsmaður lauk málinu með bréfi, dags. 15. september 2022.

  

  

Vísað er til kvörtunar yðar 16. ágúst sl. yfir aðgerðarleysi lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu, Reykjavíkurborgar og sýslumannsins á höfuðborgarsvæðinu hvað varðar gæslu hagsmuna þeirra íbúa miðborgar­innar sem búa við næturhávaða frá skemmti- og veitinga­rekstri. Meðfylgjandi kvörtun yðar voru m.a. svör heilbrigðiseftirlits Reykjavíkur vegna fyrirspurna íbúaráðs Miðborgar og Hlíða um eftirlit með hávaða í miðborginni 22. maí 2020 og 25. júní sama ár.

Samkvæmt 1. mgr. 2. gr. laga nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis, er það hlutverk hans að hafa í umboði Alþingis eftirlit með stjórnsýslu ríkis og sveitarfélaga á þann hátt sem nánar greinir í lögunum og tryggja rétt borgaranna gagnvart stjórnvöldum landsins. Skal hann gæta þess að jafnræði sé í heiðri haft í stjórnsýslunni og að hún fari að öðru leyti fram í samræmi við lög, vandaða stjórnsýsluhætti og siðareglur. Í samræmi við þetta segir í 2. mgr. 4. gr. laganna að hver sá sem telur sig hafa verið beittan rangsleitni af aðilum sem heyra undir eftirlit umboðsmanns Alþingis geti kvartað af því tilefni til umboðsmanns. Í þessu ákvæði felst að til þess að kvörtun verði borin fram við umboðsmann Alþingis þarf að liggja fyrir ákveðin ákvörðun, athöfn eða athafnaleysi stjórnvalds sem beinist sérstaklega að þeim sem leggur fram kvörtun eða varðar beinlínis hagsmuni hans eða réttindi umfram aðra.

Af kvörtun yðar verður ekki ráðið að hún lúti að tiltekinni ákvörðun eða athöfn stjórnvalds sem snerta hagsmuni yðar heldur virðist hún lúta almennt að því hvernig staðið er að útgáfu leyfa til ýmiss konar starfsemi í miðbænum og eftirliti með henni. Brestur því skilyrði til að taka kvörtun yðar til nánari athugunar.

Með hliðsjón af framangreindu lýk ég athugun minni á kvörtun yðar með vísan til 1. mgr. 10. gr. laga nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis.