Tollar. Tollverð notaðra bifreiða. Upplýsingaskylda stjórnvalda. Þagnarskylda.

(Mál nr. 481/1991)

Máli lokið með áliti, dags. 1. október 1992.

A leitaði til mín og kvartaði annars vegar yfir ákvörðun tollverðs fylgihluta notaðrar bifreiðar, er hann flutti til landsins, og hins vegar yfir því, að sér hefði reynst ókleift að fá upplýsingar um það fyrirfram, hvernig gjöld yrðu reiknuð af bifreiðinni. A hafði tekið bifreiðina úr vörslu tollyfirvalda án heimilda frá tollstjóra og fyrirgerði því rétti sínum til að bera tollákvörðunina undir tollstjóra og ríkistollanefnd. Brast því lagaskilyrði til þess að umboðsmaður gæti tekið málið til meðferðar á grundvelli kvörtunarinnar. Umboðsmaður tók fram, að hann hefði tekið til meðferðar að eigin frumkvæði mál varðandi skilyrði stjórnsýslukæru í tollamálum (nr. 621/1992). Þá tók hann fram, að honum hefðu borist kvartanir og ábendingar um að erfiðlega hafi gengið að fá upplýsingar um tollverð notaðra, innfluttra bifreiða. Hann hefði því ákveðið að taka þennan þátt í kvörtun A til athugunar að eigin frumkvæði samkvæmt heimild í 5. gr. laga nr. 13/1987 um umboðsmann Alþingis. Fram kom, að þar sem töluverð brögð hefðu verið að því, að upp hefðu verið gefnar rangar upplýsingar um kaupverð notaðra ökutækja við innflutning, hefðu verið settar reglur, sem viku frá þeirri meginreglu tollalaga, að vörureikningur skyldi lagður til grundvallar tollverði. Þeirri skipan var komið á, að tollverð skyldi vera matsverð bifreiðar að viðbættu flutningsgjaldi til landsins, vátryggingargjaldi svo og öðrum kostnaði. Matsverð skyldi vera fob-verð nýjustu árgerðar ökutækis af sömu tegund að frádreginni fyrningu, sem væri reiknaður hundraðshluti fyrir hvern aldursmánuð ökutækis. Af þessum sökum þurfti að veita innflytjendum notaðra ökutækja upplýsingar um fob-verð nýrra bifreiða. Umboðsmaður taldi, að slíkar upplýsingar yrði almennt að telja þess eðlis, að réttmætir hagsmunir bifreiðaumboða krefðust þess, að leynd hvíldi um slík viðskiptakjör þeirra. Umboðsmaður benti hins vegar á, að innflytjendur notaðra ökutækja hefðu hagsmuni af því, að ekki léki vafi á, hvert tollverð ökutækis væri, en til þess að reikna mætti það út, skv. fyrrnefndum reglum, yrðu upplýsingar um fob-verð nýjustu árgerða ökutækja af sömu tegund að vera aðgengilegar. Árekstrar milli þessara andstæðu hagsmuna væru því óhjákvæmilegir. Tók umboðsmaður fram, að eitt af markmiðum tollalaga nr. 55/1987 hefði einmitt verið að eyða óvissu um tollverð vara í samræmi við 7. gr. GATT-samkomulagsins og Tollverðssamþykktarinnar, og samrýmdist því þessi skipan illa markmiði tollalaganna. Tollyfirvöld höfðu brugðist við þessum vanda með því að takmarka heimild starfsmanna tollyfirvalda til að veita upplýsingar um fob-verð nýrra bifreiða og sett starfsreglur í því sambandi. Umboðsmaður benti hins vegar á, að framkvæmd tollyfirvalda í landinu virtist hins vegar ekki hafa verið samræmd um það í hvaða tilvikum slíkar upplýsingar skyldu veittar. Af þessum sökum beindi umboðsmaður þeim tilmælum til fjármálaráðuneytisins, að réttarreglur um tollverð notaðra ökutækja yrðu teknar til endurskoðunar með það fyrir augum að leysa framangreind vandamál. Færi hins vegar svo, að fjármálaráðuneytið teldi óhjákvæmilegt að miða tollverð notaðra bifreiða við fob-verð nýrra bifreiða, bæri brýna nauðsyn til að settar yrðu skýrar reglur um það, hverjum veita mætti upplýsingar um þetta verð og þá nánar í hvaða tilvikum og með hvaða hætti. Vakti umboðsmaður athygli forseta Alþingis og fjármálaráðherra á máli þessu með vísan til 11. gr. laga nr. 13/1987 um umboðsmann Alþingis.

I. Kvörtun og málavextir.

Hinn 17. júlí 1991 bar A fram kvörtun við mig út af tollafgreiðslu bifreiðar, sem hann flutti til landsins. Kvörtun A var í meginatriðum tvíþætt. Í fyrsta lagi kvartaði hann yfir ákvörðun tollverðs á fylgihlutum, þ.e. felgum og útvarpi í bifreið, sem tollafgreidd var hjá tollstjóranum í Reykjavík 12. apríl 1991. Kvartaði A einnig undan flutningsgjaldi því, sem reiknað var til tolls af þessum innflutningi. Í öðru lagi kvartaði A yfir því, að honum hefði reynst ókleift, þrátt fyrir ítrekaðar tilraunir, að fá upplýsingar um það fyrirfram, hvernig gjöldin yrðu reiknuð. Kvaðst A ekki hafa flutt bifreiðina inn hefði hann vitað fyrirfram, hve há gjöld yrðu af henni.

A kærði fyrrnefnda tollákvörðun frá 12. apríl 1991 til tollstjórans í Reykjavík með bréfi, dags. 16. apríl 1991. Barst A bréf frá tollstjóranum, dags. 6. maí 1991, og kom þar fram, að tollafgreiðsla bifreiðarinnar hefði verið endurskoðuð og yrði ekki betur séð en rétt hefði verið að henni staðið. Var síðan tekið fram í bréfinu, að embætti tollstjórans í Reykjavík sæi ekki ástæðu til frekari aðgerða í málinu og væri beiðni A um leiðréttingu synjað.

Kærði A þá tollákvörðunina til ríkistollanefndar. Úrskurður ríkistollanefndar í máli nr. 6/1991 gekk 13. júní 1991 og segir þar svo:

„Í svari tollstjóra til kæranda kemur fram að tollstjóri meðhöndlar kæru kæranda sem erindi og úrskurðar því ekki. Það helgast væntanlega af því að kærandi var búinn að taka vöruna úr vörslu tollyfirvalda áður en kært var sbr. 100. gr. l. nr. 55/87 en þar segir: Kæru skal aðeins taka til greina að vara eða sending sé í vörslu farmflytjanda eða póststofunnar eða tollstjóri hafi veitt sérstaka heimild til afhendingar hennar þrátt fyrir framkomna kæru.

Nefndarmenn telja að ef innflytjandi sendi tollstjóra skriflega kæru beri tollstjóra að úrskurða í framkominni kæru með vísan til lagaákvæða. Það fer svo eftir málatilbúningi hvort tollstjóri úrskurði efnislega í málinu eða vísi því frá sökum vanreifunar.

Ein af forsendum þess að Ríkistollanefnd taki mál til efnislegrar meðferðar er að fyrir liggi úrskurður tollstjóra. Með vísan til 101. gr. laga númer 55/1987 með síðari breytingum ber að vísa þessu máli frá, þar sem úrskurður tollstjóra liggur ekki fyrir.

Ú R S K U R Ð U R

Með vísan til 2. mgr. 101. gr. laga nr. 55/1987 er máli þessu vísað frá.“

Í framhaldi af ofangreindum úrskurði sneri A sé til ríkistollstjóra með bréfi, dags. 29. júní 1991. Óskaði hann eftir því, að innflutningsgjöld fylgihluta bifreiðar hans yrðu endurákveðin. Með bréfi, dags. 15. júlí 1991, tjáði ríkistollstjóri A, að athugun á umræddri tollafgreiðslu hefði ekki leitt neitt í ljós, sem benti til þess að bifreið hans hefði fengið ranga tollmeðferð. Væri embættið sammála þeim rökum, sem fram kæmu í bréfi tollstjórans í Reykjavík, dags. 6. maí 1991.

II. Athugun umboðmanns Alþingis.

Í tilefni af kvörtun A ritaði ég tollstjóranum í Reykjavík bréf, dags. 27. ágúst 1991, og óskaði eftir því, með vísan til 7. og 9. gr. laga nr. 13/1987 um umboðsmann Alþingis, að hann léti mér í té gögn málsins og skýrði viðhorf sitt til kvörtunar A. Í bréfi mínu sagði ennfremur:

„Af þeim gögnum, sem [A] lét fylgja kvörtun sinni, kemur fram, að hann hefur kært ofangreinda ákvörðun gjalda til Ríkistollanefndar. Nefndin vísaði málinu frá með vísan til 2. mgr. 101. gr. tollalaga nr. 55/1987. Í úrskurði nefndarinnar kemur fram, að hún lítur ekki á bréf embættis yðar til [A], dags. 6. maí s.l. [...] sem úrskurð í málinu heldur sem afgreiðslu, og telur að úrskurður hafi ekki verið kveðinn upp, þar sem búið hafi verið að taka umrædd verðmæti úr vörslu tollyfirvalda, áður en kært var, sbr. 100. gr. laga nr. 55/1987. Ég óska auk umbeðinna skýringa eftir upplýsingum embættis yðar um, hvort þér fallist á þennan skilning ríkistollanefndar.“

Svar tollstjórans í Reykjavík barst mér með bréfi, dags. 26. september 1991, og sagði þar svo:

„A.Kvörtun yfir ákvörðun á fjárhæð gjalda.

Við ákvörðun tollverðs notaðra bifreiða ber að fara eftir verðskrá ríkistollstjóraembættisins, sbr. reglugerð nr. 85/1988 um tollverð notaðra bifreiða og reglugerð nr. 484/1988 um breytingu á henni, sem í gildi voru þegar innflutningurinn átti sér stað. Reglugerðir þessar voru settar með stoð í 2. mgr. 12. gr. tollalaga nr. 55/1987, sbr. 5. gr. laga nr. 96/1987 um breytingu á þeim. [...] Verð ísettra aukahluta, sé það ekki innifalið í grunnverði bifreiðar samkvæmt verðskrá ríkistollstjóra, [...] er ákvarðað með sama hætti, en þannig háttaði til með bifreið þessa. Heildartollverð þannig ákvarðað er síðan fyrnt eftir aldri bifreiðarinnar samkvæmt ákvæðum fyrrnefndrar reglugerðar. Ísettir aukahlutir í bifreiðum tollflokkast eins og bifreiðin sjálf samkvæmt almennum reglum um túlkun tollskrárinnar.

B.Kvörtun yfir því að ekki hafi fengist upplýst fyrirfram hvernig gjöldin yrðu reiknuð.

Samkvæmt ákvæðum í nefndri bifreiðaverðskrá er tollstarfsmönnum óheimilt að gefa almennar upplýsingar úr skránni til óviðkomandi aðila, þar á meðal innflytjenda notaðra bifreiða. Þrátt fyrir þetta ákvæði lítur embættið svo á, að heimilt sé að gefa upplýsingar til aðila, sem eru að flytja búferlum til landsins um gjöld sem greiða þurfi af ákveðinni bifreið, sem viðkomandi á og hyggst flytja með sér til landsins. Er það jafnan gert, enda leiti viðkomandi eftir slíkum upplýsingum skriflega og lýsi á fullnægjandi hátt viðkomandi bifreið. Þessháttar upplýsingar eru aftur á móti ekki gefnar í síma. Ekki verður séð að [A] hafi leitað eftir slíkum upplýsingum.

C.Í lok bréfs yðar spyrjist þér fyrir um það hvort embættið fallist á þann skilning, sem fram kemur í úrskurði ríkistollanefndar, að svarbréf embættisins, dags. 6. maí 1991 hafi ekki verið úrskurður heldur „afgreiðsla“.

Það er sjálfsagt matsatriði hvernig líta hefði átt á bréf [A] dags. 16. apríl 1991, þ.e. hvort líta hefði átt á það a) sem "kæru" og beiðni um úrskurð eða b) beiðni um að tollafgreiðslan sem fram fór 12. apríl verði endurskoðuð.

Hefði verið litið á erindið eins og lýst er í a) hefði væntanlega orðið að vísa því frá með tilvísun til 100. gr. tollalaga nr. 55/1987. Það gerði embættið ekki, en meðhöndlaði erindið eins og fjölda annarra slíkra erinda sem beiðni um að málið yrði gaumgæft betur og komist að þeirri niðurstöðu að rétt hefði verið að tollafgreiðslunni staðið.

Ég er því sammála ríkistollanefnd um að svarbréfið hafi ekki verið "úrskurður", heldur skýring á þegar afgreiddri tollafgreiðslu."

Ég ritaði einnig fjármálaráðherra bréf, dags. 28. nóvember 1991, og óskaði eftir því, með vísan til 7. og 9. gr. laga nr. 13/1987 um umboðsmann Alþingis, að hann skýrði viðhorf sitt til kvörtunar A og léti mér í té þau gögn, sem hana snertu. Í bréfi mínu sagði ennfremur:

"Ég óska sérstaklega eftir því, að gerð verði grein fyrir ástæðum þess að skrá sú er ríkistollstjóra er falið að taka saman um grunnverð algengustu tegunda nýrra bifreiða skv. 6. gr. reglugerðar um tollverð notaðra bifreiða, hefur ekki verið birt, sbr. lög nr. 64/1943 um birtingu laga og stjórnvaldserinda. Þá óska ég eftir því að gerð verði grein fyrir því, í hvaða tilvikum veittar eru upplýsingar úr skránni og með hvaða hætti það er gert. Loks óska ég eftir því að fá afrit af bréfi ríkistollstjóra, dags. 13. desember 1988, um tollmeðferð notaðra bifreiða."

Svar fjármálaráðuneytisins barst mér með bréfi, dags. 2. janúar 1992, og sagði þar:

"Til svars við erindinu tekur ráðuneytið fram eftirfarandi:

[...]

2.Upplýsingar um aðflutningsgjöld sem greiða bar af bifreiðinni.

Þér óskið eftir því að gerð verði grein fyrir ástæðum þess, að bifreiðaverðskrá, samkvæmt 6. gr. reglugerðar um tollverð notaðra bifreiða, hefur ekki verið birt og einnig í hvaða tilvikum veittar eru upplýsingar úr skránni og með hvaða hætti það er gert.

Í þessum efnum hefur verið fylgt reglum settum af fjármálaráðuneytinu [...], sbr. reglur ríkistollstjóra [...] sem byggir á eldri reglum ráðuneytisins. Í þessum reglum er tollstarfsmönnum bannað að gefa almennar upplýsingar úr skránni til óviðkomandi aðila en þetta gildir þó ekki þegar um er að ræða upplýsingar um tiltekna bifreið til tiltekins aðila. Ástæður fyrir takmörkun á upplýsingagjöf úr skránni eru þær að ýmsir bifreiðainnflytjendur hafa verið tregir til að láta í té svo víðtækar upplýsingar sem í skránni birtast nema upplýsingagjöf úr skránni yrði takmörkuð. Er litið svo á að hér sé um viðskiptahagsmuni í húfi sem meðhöndla ber með varúð, sbr. 141. gr. tollalaga nr. 55/1987.

Í bréfi yðar segið þér að [A]kvarti yfir því að honum hafi reynst ókleift að fá upplýsingar um það fyrirfram hvernig gjöldin yrðu reiknuð af bifreið hans. Samkvæmt áðurnefndum reglum átti [A] rétt á að fá þessar upplýs¬ingar. Ekki hefur komið fram að hann hafi óskað þeirra skriflega eða honum veitt skriflegt svar við fyrirspurn. Hafi fyrirspurnin verið munnleg hefur ekki tekist að finna þann sem varð fyrir svörum.

[...]

Ofangreindu til viðbótar vill ráðuneytið taka eftir¬farandi fram:

1.Í 100. og 101. gr. tollalaga nr. 55/1987 er að finna ákvæði um þau úrræði sem innflytjendum eru fær ef þeir sætta sig ekki við ákvarðanir tollyfirvalda um toll¬meðferð innfluttra vara. Geta innflytjendur óskað úrskurðar viðkomandi tollstjóra og áfrýjað honum til ríkistollanefndar, sem er óháður úrskurðaraðili, ef hann sættir sig ekki við niðurstöðu tollstjóra. Niðurstöðu ríkistollanefndar má leggja fyrir dómstóla. Umræddur [A] óskaði ekki úrskurðar tollstjórans í Reykjavík vegna ágreinings um tollmeðferð bifreiðarinnar heldur leitaði þegar til ríkistollanefndar. Að fenginni niðurstöðu nefndarinnar, þ.e. frávísun hennar, leitaði [A] hins vegar ekki eftir úrskurði tollstjórans í Reykjavík eins og honum hefði verið rétt að gera samkvæmt lögunum.

2.Svo sem yður er kunnugt gilda sérstakar reglur um tollmeðferð notaðra bifreiða, sbr. 2. mgr. 12. gr. tollalaga nr. 55/1987, sbr. lög nr. 96/1987 og reglugerð nr. 85/1988 og breyting á henni nr. 484/1988. Samkvæmt ákvæðum laganna og reglugerðarinnar má krefja innflytjendur upplýsinga um verð nýrra ökutækja sem þeir hafa umboð fyrir hér á landi. Um árabil hafa bifreiðainnflytjendur veitt ráðuneytinu og síðar ríkistollstjóraembættinu þessar upplýsingar gegn ákveðnum trúnaði um að farið verði með upplýsingarnar á tryggilegan hátt. Almennt veita bifreiðaumboðin tollyfirvöldum þannig aðgang að viðskiptaskjölum sínum og hins erlenda seljanda eða framleiðanda bifreiða. Það hefur hins vegar jafnan verið skýrt að ef innflytjandi sem hefur eða hyggst flytja inn bifreið af ákveðinni tegund hefur leitað eftir upplýsingum um viðmiðunarverð sem lagt yrði til grundvallar tollverðsákvörðun við endanlegan innflutning bifreiðarinnar hefur getað fengið upplýsingar um það verð sem gilda mun um innflutninginn. Er þetta sérstaklega tekið fram í leiðbeiningum til tollstarfsmanna. Er það mat ráðuneytisins sem m.a. byggist á því hve erfiðlega gekk í upphafi að afla upplýsinga frá bifreiðaumboðunum, að ef reglum um upplýsingagjöf verði breytt t.d. þannig að upplýsingar bifreiðaumboðanna verði birtar t.d. í Stjórnartíðindum, verði bifreiðaumboðin mjög ófús til þessarar upplýsingagjafar enda eins og áður sagði oft um "viðskiptaleyndarmál" þeirra og viðskiptaaðila þeirra að ræða.

3.Ráðuneytinu þykir ástæða til að gera nokkuð grein fyrir ástæðum þess að sérstakar reglur gildi um tollverð notaðra ökutækja þó að það tengist á engan hátt innflutn¬ingi nefnds [A] á bifreið sinni. Það er almenn regla tollalaga að til grundvallar tollverði vara skuli leggja vörureikning hins erlenda seljanda. Frá þessari grundvallarreglu er vikið að því er varðar ákvörðun tollverðs notaðra ökutækja, sbr. þær reglur sem tíundaðar hafa verið hér að framan. Bifreiðar eru "hátollavara" og hefur því í gegnum tíðina verið freistandi fyrir innflytjendur þeirra að reyna að komast hjá því að greiða lögboðin gjöld af þeim. Ýmsar leiðir hafa verið reyndar vegna þessa en sú sem almennust er er að reikningar sem lagðir hafa verið fram við tollafgreiðslu hafa verið lægri en raunverulegt kaupverð og hefur ýmist sá háttur verið hafður á að kaupandi og seljandi hafa samið um útgáfu tveggja reikninga eða reikningar beinlínis verið falsaðir. Á árinu 1987 giltu um nokkurra mánaða skeið almennar reglur tollalaga um tollverð notaðra bifreiða. Má segja að á þeim tíma hafi orðið "verðfall" á innfluttum notuðum bifreiðum. Mjög erfitt getur verið fyrir tollyfirvöld að sanna rangar upplýsingar í málum sem þessum þannig að gripið var til þess ráðs að leggja fyrir Alþingi tillögu til breytingar á tollalögum þar sem heimild var fengin til að láta aðrar reglur um tollverð notaðra bifreiða og var hún samþykkt. Er það mat ráðuneytisins að þessar reglur tryggi hagsmuni ríkissjóðs vegna tekjuöflunar og sérstaklega jafnræðisreglu í skattlagningu innflytjenda notaðra bifreiða."

III.

Í áliti mínu, dags. 1. október 1992, tók ég fyrst til meðferðar kærurétt A til tollstjórans í Reykjavík og ríkistollanefndar, sbr. 100. og 101. gr. tollalaga nr. 55/1987. Sagði svo um þetta:

"Telji innflytjandi tollverð, tollflokkun eða aðflutningsgjöld ekki rétt ákveðin, getur hann kært tollákvörðunina til ríkistollanefndar. Áður en tollákvörðun er kærð til ríkistollanefndar, skal hins vegar bera ákvörðunina undir viðkomandi tollstjóra til úrskurðar. Skv. 100. gr. tollalaga nr. 55/1987 er eitt skilyrði fyrir nefndri endurskoðun, að umrædd vara sé enn í vörslu farmflytjanda eða póststofnunar eða tollstjóri hafi veitt sérstaka heimild til afhendingar hennar, þrátt fyrir framkomna kæru.

Þar sem A tók umrædda bifreið sína úr vörslu tollyfirvalda, án þess að fá til þess sérstaka heimild frá tollstjóranum í Reykjavík, áður en hann kærði tollákvörðunina, fyrirgerði hann rétti sínum til þess að bera tollákvörðunina undir tollstjórann í Reykjavík skv. 100. gr. tollalaga nr. 55/1987 og ríkistollanefnd skv. 101. gr. sömu laga. Meðal skilyrða fyrir því, að umboðsmaður Alþingis geti fjallað um kvörtun, er það skilyrði skv. 3. mgr. 6. gr. laga nr. 13/1987 um umboðsmann Alþingis, að máli hafi verið skotið til æðra stjórnvalds, áður en það er borið undir umboðsmann Alþingis. Þar sem þessu skilyrði er ekki fullnægt, brestur lagaskilyrði til þess að ég geti fjallað frekar um þessa kvörtun A.

Ég tel rétt að taka fram, að ég hef til meðferðar mál (nr. 621/1992), sem ég tók að eigin frumkvæði til athugunar það álitaefni, hvort það skilyrði stjórnsýslukæru í tollamálum, að vara sé enn í vörslu tollyfirvalda, teljist "meinbugir" á lögum í skilningi 11. gr. laga nr. 13/1987 um umboðsmann Alþingis.

Við athuganir á kvörtunum og ábendingum, sem mér hafa borist frá innflytjendum notaðra bifreiða, hefur það vakið athygli mína, að þeir kvarta yfir því, að þeim hafi gengið erfiðlega að fá upplýsingar um tollverð notaðra innfluttra bifreiða. Af þessu tilefni og samkvæmt heimild í 5. gr. laga nr. 13/1987 um umboðsmann Alþingis hef ég því ákveðið að taka þetta kvörtunarefni A til athugunar að eigin frumkvæði.

IV.

Þá fjallaði ég sérstaklega um réttarheimildir varðandi ákvörðun tollverðs notaðra bifreiða. Um þetta atriði sagði svo í áliti mínu:

"Við meðferð frumvarps að lögum, um breyting á lögum nr. 55 30. mars 1987, tollalögum, lagði meiri hluti fjárhags- og viðskiptanefndar efri deildar Alþingis fram svohljóðandi breytingartillögu, sem varð að 5. gr. laga nr. 96/1987:

"Ráðherra er heimilt í reglugerð að setja sérstakar reglur um mat á notuðum ökutækjum og vinnuvélum til tollverðs. Þar má m.a. ákveða að tollverðið miðist við verð þeirra nýrra að frádregnum hundraðshluta fyrir hvert ár eða hluta úr ári af aldri þeirra og má í því skyni krefja innflytjendur um upplýsingar um verð nýrra ökutækja eða vinnuvéla sem þeir hafa umboð fyrir hér á landi." (Alþt. 1987-1988, A-deild, bls. 1931).

Í nefndaráliti meirihluta nefndarinnar sagði svo:

"Þó er rétt að nefna eina breytingu sérstaklega, en það er tillaga um ótvíræða heimild ráðherra til að setja sérstakar reglur um mat á notuðum ökutækjum sem flutt eru til landsins. Hér hefur tollstjóra skort ótvíræða heimild til þess að óska eftir að ökutæki verði metin en nokkur misbrestur er á að innflytjendur komi fullnægjandi upplýsingum á framfæri við tollyfirvöld." (Alþt. 1987-1988, A-deild, bls. 1930).

Umrætt ákvæði varð síðan að 2. mgr. 12. gr. tollalaga nr. 55/1987, með síðari breytingum, sbr. 5. gr. laga nr. 96/1987.

Með stoð í 2. mgr. 12. gr. tollalaga nr. 55/1987, sbr. 5. gr. laga nr. 96/1987, var sett reglugerð nr. 85/1988 um tollverð notaðra bifreiða. Þeirri reglugerð var síðan breytt með reglugerð nr. 484/1988. Með reglugerð nr. 261/1991 var síðan sett ný reglugerð um tollverð notaðra ökutækja. Samkvæmt 2. gr. reglugerðar nr. 261/1991 er tollverð notaðs ökutækis matsverð þess reiknað út samkvæmt fyrirmælum reglugerðarinnar að viðbættu flutningsgjaldi, vátryggingariðgjaldi svo og öðrum kostnaði, sem mynda tollverð skv. tollalögum nr. 55/1987. Í 3. gr. reglugerðarinnar segir, að við ákvörðun matsverðs skuli leggja til grundvallar grunnverð ökutækis, sem skuli vera fob-verð nýjustu árgerðar ökutækis af sömu tegund samkvæmt skrá um grunnverð ökutækja, er ríkistollstjóri láti gera um algengustu ný ökutæki ár hvert. Í 6. gr. reglugerðar nr. 261/1991 segir m.a. svo:

"Ríkistollstjóri skal árlega útbúa ökutækjaverðskrá yfir grunnverð algengustu tegunda nýrra ökutækja, ásamt fob-verði aukahluta og kostnaði við ísetningu erlendis, til leiðbeiningar fyrir tollstjóra við ákvörðun tollverðs samkvæmt reglugerð þessari. Í því skyni má hann krefja innflytjendur um upplýsingar um verð nýrra ökutækja sem þeir hafa umboð fyrir hér á landi svo og aðrar þær upplýsingar sem nauðsynlegar eru vegna tollafgreiðslu ökutækjanna."

V.

Ég fjallaði síðan um fyrrnefnda ökutækjaverðskrá og starfsreglur um upplýsingar úr henni svo og um ákvörðun tollverðs notaðra bifreiða og nauðsyn þess, að óvissu yrði eytt um það. Sagði svo um þessi atriði í álitinu.

"Í inngangi að ökutækjaverðskrá ríkistollstjóra 1992 koma fram fyrirmæli um það til tollstjóra og tollstarfsmanna, í hvaða tilvikum veita megi upplýsingar úr skrá þessari, en hún er eins og áður greinir tekin saman skv. 6. gr. reglugerðar nr. 261/1991. Í inngangi þessum segir meðal annars:

"1. Tollstarfsmönnum er óheimilt að gefa almennar upplýsingar úr skránni til óviðkomandi aðila, þar á meðal innflytjenda notaðra bifreiða, en skulu þess í stað vísa á umboð viðkomandi bifreiðategundar, sbr. jafnframt bréf ríkistollstjóra dags. 13.12.88, um tollmeðferð notaðra bifreiða.

2. Veita má aðila, sem flutt hefur inn ákveðna bifreið og óskar eftir tollafgreiðslu hennar, upplýsingar um verð það, sem til grundvallar verður lagt við útreikning gjalda af þeirri bifreið.

3. Enn fremur er tollstjórum heimilt, í sérstökum tilvikum, að veita upplýsingar um áætluð aðflutningsgjöld tilgreindrar bifreiðar, sem áformað er að flytja til landsins."

Í bréfi tollstjórans í Reykjavík, dags. 26. september 1991, kemur fram, að hann lítur svo á, "að heimilt sé að gefa upplýsingar til aðila, sem eru að flytja búferlum til landsins um gjöld sem greiða þurfi af ákveðinni bifreið, sem viðkomandi á og hyggst flytja með sér til landsins ... enda leiti viðkomandi eftir slíkum upplýsingum skriflega ..."

Í bréfi fjármálaráðuneytisins, dags. 2. janúar 1992, kemur aftur á móti fram, að "ef innflytjandi sem hefur eða hyggst flytja inn bifreið af ákveðinni tegund hefur leitað eftir upplýsingum um viðmiðunarverð sem lagt yrði til grundvallar tollverðsákvörðun við endanlegan innflutning bifreiðarinnar [hafi hann] getað fengið upplýsingar um það verð sem gilda mun um innflutninginn".

Samkvæmt framansögðu virðist ekki svo skýrt sem skyldi, í hvaða tilvikum tollyfirvöld telja sér heimilt að veita upplýsingar úr umræddri ökutækjaskrá. Hlýtur þetta að hafa leitt til óvissu og af þeim kvörtunum og ábendingum að dæma, sem mér hafa borist, virðist framkvæmd tollyfirvalda í landinu ekki nægilega samræmd um það, í hvaða tilvikum slíkar upplýsingar verða veittar. Er brýnt að úr þessu verði bætt.

Í bréfi fjármálaráðuneytisins, dags. 2. janúar 1992, kemur fram, að ástæður þær, sem ráðuneytið telur réttlæta svo mikla leynd um efni ökutækjaskrár þeirrar, sem ríkistollstjóri tekur saman skv. 6. gr. reglugerðar nr. 261/1991, eru þær, að í skránni eru upplýsingar um viðskiptahagsmuni bifreiðaumboða hér á landi, en samkvæmt 141. gr. tollalaga nr. 55/1987 er starfsmönnum tollyfirvalda bannað að skýra óviðkomandi aðilum frá verslunarhögum einstakra manna.

Þó fallast megi á það með fjármálaráðuneytinu, að meginreglan sé sú að þagnarskylda hvíli á starfsmönnum tollyfirvalda um fob-verð vara, sem innflytjendur flytja inn, þá verður óhjákvæmilega að skýra þagnarskyldu starfsmanna tollyfirvalda skv. 141. gr. tollalaga nr. 55/1987 um upplýsingar úr bifreiðaskrá með hliðsjón af 2. mgr. 12. gr. tollalaga nr. 55/1987, sbr. 5. gr. laga nr. 96/1987 svo og 6. gr. reglugerðar nr. 261/1991. Samkvæmt nefndum ákvæðum má krefja innflytjendur um upplýsingar um verð nýrra ökutækja, sem þeir hafa umboð fyrir hér á landi, vegna tollafgreiðslu notaðra ökutækja. Af ákvæðum þessum verða bifreiðaumboð að sæta því, að inn¬flytjendur notaðra ökutækja fái vitneskju um fob-verð nýjustu árgerðar af sömu tegund, þar sem það er lögákveðið, að tollverð notaðs ökutækis skuli reiknað út frá þessum forsendum. Af framansögðu er því ljóst, að ákvæði 2. mgr. 12. gr. tollalaga nr. 55/1987, sbr. 5. gr. laga nr. 96/1987 svo og 6. gr. reglugerðar nr. 261/1991, leiða óhjákvæmilega til þess, að veita megi í nokkrum mæli upplýsingar úr umræddri ökutækjaskrá, án þess að það brjóti í bág við 141. gr. tollalaga nr. 55/1987.

Samkvæmt 1. mgr. 8. gr. tollalaga nr. 55/1987 er meginregla tollalaga sú, að tollverð innfluttrar vöru sé það verð, sem raunverulega sé greitt eða greiða beri fyrir vöruna, með þeim leiðréttingum, er leiðir af 9. gr. laganna. Af ástæðum, sem raktar eru í bréfi fjármálaráðuneytisins, dags. 2. janúar 1992 (sjá kafla II hér að framan), var tekið ákvæði í 2. mgr. 12. gr. tollalaga, þar sem ráðherra var veitt heimild til að víkja um tollverð notaðra ökutækja frá þessari meginreglu og miða tollverðið í þess stað við verð nýrra ökutækja að frádregnum hundraðshluta fyrir hvert ár. Í reglugerð nr. 261/1991 um tollverð notaðra ökutækja kemur fram, að miða skuli tollverð við matsverð, sem sé fob-verð nýjustu árgerðar ökutækis af sömu tegund að frádreginni fyrningu, sem sé reiknaður hundraðshluti fyrir hvern aldursmánuð ökutækis skv. nánari reglum 4. gr. reglugerðar nr. 261/1991.

Það leiðir því af 2. mgr. 12. gr. tollalaga nr. 55/1987, sbr. 5. gr. laga nr. 96/1987 og 2., 3. og 6. gr. reglugerðar nr. 261/1991, að fjárhæð aðflutningsgjalda af notuðum ökutækjum er að verulegu leyti fyrirfram fastákveðin, þar sem þau reiknast út frá fob-verði nýjustu árgerðar sömu tegundar ökutækis, en ekki raunverulegu kaupverði. Af þessum sökum er nauðsynlegt að upplýsingar um fobverð nýrra ökutækja séu aðgengilegar. Þeir, sem flytja inn notuð ökutæki, verða að geta gengið úr skugga um, að tollverðsákvörðun sé í raun byggð á réttum forsendum um fob-verð nýjustu árgerðar ökutækis af sömu tegund. Þá er einnig ljóst, að þeim, sem kanna vill, hvort innflutningur notaðs ökutækis sé hagkvæmur, er nauðsyn á að fá vitneskju um fob-verð nýjustu árgerðar viðkomandi bifreiðar. Út frá þessum sjónarmiðum er óheppilegt, að upplýsingar um viðmiðunarverð við útreikning tolla af notuðum bifreiðum séu mjög takmarkaðar. Skal í þessu sambandi minnt á, að eitt af markmiðum tollalaga nr. 55/1987 var einmitt að eyða óvissu um tollverð vara í samræmi við 7. gr. hins almenna samkomulags um tolla og viðskipti (GATT) svo og samning um framkvæmd fyrrnefndrar 7. gr. (Tollverðssamþykktarinnar). Í athugasemdum greinargerðar með frumvarpi því, er varð að tollalögum, segir meðal annars, að það geti hamlað verulega "milliríkjaviðskiptum hvernig staðið [sé] að ákvörðun tollverðs. Óvissa um verðmæti innfluttrar vöru vegna álagningar tolla [geti] haft í för með sér meiri viðskiptahöft en tollurinn sjálfur". (Alþt. 1986-1987, A-deild, bls. 1289). Umrædd skipan mála, sem haft getur í för með sér óvissu um tollverð notaðra ökutækja, samrýmist illa þessu markmiði tollalaganna."

VI.

Niðurstöður mínar dró ég saman á svofelldan hátt:

"Í bréfi fjármálaráðuneytisins, dags. 2. janúar 1992, kemur fram, að þar sem töluverð brögð hafi verið að því að upp væru gefnar rangar upplýsingar um kaupverð notaðra ökutækja, hafi verið óhjákvæmilegt að settar yrðu reglur, sem vikju frá þeirri meginreglu tollalaga nr. 55/1987, að vörureikningur skyldi lagður til grundvallar tollverði í slíkum tilvikum. Til lausnar á þessu vandamáli voru sett ákvæði í 2. mgr. 12. gr. tollalaga nr. 55/1987, sbr. 5. gr. laga nr. 96/1987, svo og reglugerð nr. 261/1991, þar sem þeirri skipan var komið á, að tollverð skyldi vera matsverð bifreiðar að viðbættu flutningsgjaldi til landsins, vátryggingargjaldi svo og öðrum kostnaði. Matsverð skyldi vera fob-verð nýjustu árgerðar ökutækis af sömu tegund að frádreginni fyrningu, sem væri reiknaður hundraðshluti fyrir hvern aldursmánuð ökutækis skv. nánari reglum 4. gr. reglugerðar nr. 261/1991. Þessi lausn hafði hins vegar þann ókost í för með sér, að afla þurfti upplýsinga um fob-verð nýrra bifreiða frá bifreiðaumboðum og veita innflytjendum notaðra ökutækja upplýsingar um það, en slíkar upplýsingar verður almennt að telja þess eðlis að réttmætir hagsmunir bifreiðaumboða krefjist þess að leynd hvíli um slík viðskiptakjör þeirra. Innflytjendur notaðra ökutækja hafa hins vegar hagsmuni af því að ekki leiki vafi á, hvert tollverð ökutækis sé, en til þess að reikna megi það út skv. fyrrnefndum reglum, verða upplýsingar um fob-verð nýjustu árgerða ökutækja af sömu tegund að vera aðgengilegar. Hlaut því að koma til árekstra milli þessara andstæðu hagsmuna. Við þessu var brugðist af hálfu tollyfirvalda með því að takmarka heimild starfsmanna tollyfirvalda til að veita upplýsingar um fob-verð nýrra bifreiða. Framkvæmd tollyfirvalda í landinu virðist hins vegar ekki hafa vera samræmd um það, í hvaða tilvikum slíkar upplýsingar skuli veittar.

Með hliðsjón af því, sem rakið hefur verið hér að framan, tel ég nauðsyn bera til þess, að réttarreglur um tollverð notaðra ökutækja verði teknar til endurskoðunar með það fyrir augum að leysa þau vandamál, sem hér hefur verið fjallað um. Fari svo, að fjármálaráðuneytið telji óhjákvæmilegt að miða tollverð notaðra bifreiða við fob-verð nýrra bifreiða, ber brýna nauðsyn til að settar verði skýrar reglur um það, hverjum veita megi upplýsingar um þetta verð og þá nánar í hvaða tilvikum og með hvaða hætti. Af þessu tilefni er álit þetta sent forseta Alþingis og fjármálaráðherra, sbr. 11. gr. laga nr. 13/1987 um umboðsmann Alþingis, sbr. 11. gr. reglna nr. 82/1988 um störf og starfshætti umboðsmann Alþingis."

VII. Viðbrögð stjórnvalda

Hinn 4. nóvember 1994 ritaði ég fjármálaráðherra bréf í tilefni af ofangreindu máli. Þar segir:

„Með bréfi, dags. 1. október 1992, sendi ég ráðuneyti yðar álit mitt í máli [A] vegna kvörtunar hans út af tollafgreiðslu bifreiðar, sem hann flutti til landsins. Í niðurlagi álits míns beindi ég þeim tilmælum til ráðuneytis yðar, að það tæki til endurskoðunar réttarreglur um tollverð notaðra ökutækja.

Með bréfum 18. desember 1992 og 8. mars 1993 óskaði ég eftir upplýsingum frá ráðuneyti yðar, hvort einhverjar ákvarðanir hefðu verið teknar í tilefni af framangreindu áliti mínu. Svar ráðuneytisins barst mér með bréfi, dags. 29. mars 1993, en þar kom fram að ráðuneytið hygðist setja almennar reglur um tollverð notaðra ökutækja og birta þær opinberlega. Væri gert ráð fyrir að þeirri vinnu lyki innan tíðar. Ég leyfi mér hér með að óska eftir upplýsingum um, hvað líði setningu umræddra reglna.“

Í svari fjármálaráðuneytisins, dags. 12. desember 1994, segir:

„Vegna mikilla anna í ráðuneytinu hefur því miður dregist að ljúka samningu umræddra reglna. Undirbúningur er þó vel á veg kominn og er stefnt að því að reglurnar verði gefnar út eigi síðar en 1. mars 1995.

Þess má geta, að reglur um upplýsingagjöf úr ökutækjaverðskrá ríkistollstjóra til annarra en tollstarfsmanna hafa breyst nokkuð frá því er þér gáfuð álit yðar í máli [A].“

Með bréfi fjármálaráðuneytisins, dags. 22. júní 1995, bárust mér nánari upplýsingar um málið. Þar segir:

„Ráðuneytið vísar til bréfs þess til yðar, dags. 22. nóvember 1994, varðandi tollverð notaðra ökutækja. Þar kom fram, sem svar við fyrirspurn yðar frá 4. nóvember 1994, að vegna anna í ráðuneytinu hefði dregist að ljúka samningu almennra reglna um tollverð notaðra ökutækja. Væri þó stefnt að því að gefa út reglur um þetta efni eigi síðar en 1. mars 1995.

Ráðuneytið vill upplýsa yður um að umræddar reglur hafa ekki verið gefnar út. Hins vegar skal bent á að skv. 5. gr. frumvarps til laga um breytingar á lögum vegna aðildar Íslands að Alþjóðaviðskiptastofnuninni, sem samþykkt var sem lög frá Alþingi í síðustu viku, mun sérregla 2. mgr. 12. [gr.] laga nr. 55/1987, sbr. 5. gr. laga nr. 96/1987, um tollverð notaðra ökutækja, falla niður frá 1. júlí n.k. Þar með brestur lagastoð fyrir reglugerð nr. 261/1991 um tollverð notaðra ökutækja. Verður því viðskiptaverð notaðrar bifreiðar lagt til grundvallar við álagningu aðflutningsgjalda, sbr. einkum 19. gr. laga nr. 29/1993, um vörugjald af ökutækjum, eldsneyti ofl., 34. gr. laga nr. 50/1988, um virðisaukaskatt, 8.-12. gr. tollalaga nr. 55/1987 og reglugerð nr. 395/1987 um tollverð og tollverðsákvörðun.“