Kvartað var yfir ákvörðun lögreglustjórans á Suðurnesjum um að gera þátttakendum í hópakstri mótorhjóla á Ljósanótt að skrá komu sína með nafni, kennitölu og númeri hjóls.
Þar sem kvörtunin laut ekki að tiltekinni ákvörðun eða athöfn stjórnvalds sem snerti hagsmuni viðkomandi eða réttindi umfram aðra voru ekki skilyrði til að umboðsmaður tæki hana til nánari athugunar. Var viðkomandi bent á að mögulega væri hægt að bera erindið upp við nefnd um eftirlit með störfum lögreglu, dómsmálaráðuneytis eða Persónuverndar.
Umboðsmaður lauk málinu með bréfi, dags. 13. september 2022.
Vísað er til kvörtunar yðar 16. ágúst sl. yfir ákvörðun lögreglustjórans á Suðurnesjum um að gera þátttakendum í hópakstri mótorhjóla á Ljósanótt, menningar- og fjölskylduhátíð Reykjanesbæjar, að skrá komu sína með nafni, kennitölu og númeri hjóls.
Í tilefni af kvörtun yðar hafði starfsmaður minn samband við yður símleiðis til að óska frekari upplýsinga um málið. Eins og fram kom í símtalinu getur hver sá sem telur sig hafa verið beittan rangsleitni af aðilum sem heyra undir eftirlit hans kvartað af því tilefni til umboðsmanns, sbr. 2. mgr. 4. gr. laga nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis. Í þessu ákvæði felst að til þess að kvörtun verði borin fram við umboðsmann Alþingis þarf að liggja fyrir ákveðin ákvörðun, athöfn eða athafnaleysi stjórnvalds sem beinist sérstaklega að þeim sem leggur fram kvörtun eða snertir beinlínis hagsmuni hans eða réttindi umfram aðra. Í fyrrgreindu símtali kom fram að þér hefðuð sjálfir ekki bein tengsl við málið en að yður væri kunnugt um óánægju annarra ökumanna mótorhjóla. Í ljósi þessa verður ekki séð að umrædd atriði í kvörtun yðar snerti beinlínis hagsmuni yðar eða réttindi umfram aðra. Tel ég því ekki forsendur til að taka hana til nánari athugunar.
Með hliðsjón af framangreindu lýk ég athugun minni á kvörtun yðar með vísan til 1. mgr. 10. gr. laga nr. 85/1997. Athygli yðar er vakin á því að sérstök nefnd um eftirlit með störfum lögreglu starfar á grundvelli VII. kafla lögreglulaga, nr. 90/1996. Samkvæmt 35. gr. a laganna er það m.a. hlutverk nefndarinnar að taka til meðferðar kvartanir vegna starfsaðferða lögreglu. Þá leiðir af 4. gr. laganna að dómsmálaráðherra er æðsti yfirmaður lögreglu í landinu. Loks kveða lög nr. 75/2019, um vinnslu persónuupplýsinga í löggæslutilgangi, á um rétt hins skráða eða fulltrúa hans til að leggja fram kvörtun hjá Persónuvernd ef hann telur að vinnsla persónuupplýsinga um hann hjá lögbæru yfirvaldi brjóti í bága við ákvæði laganna, sbr. 2. mgr. 30. laganna. Yður kann því að vera fært að beina athugasemdum yðar til nefndar um eftirlit með lögreglu, dómsmálaráðuneytisins eða Persónuverndar. Með þeirri ábendingu hefur þó engin afstaða verið tekin til þess hvort ástæða sé til þess.