Tafir hjá stjórnvaldi á afgreiðslu máls.

(Mál nr. 11812/2022)

Kvartað var yfir starfsháttum fjölmiðlanefndar og óeðlilegum drætti á afgreiðslu hennar vegna ábendinga í gegnum tíðina.  

Að virtum svörum nefndarinnar og að teknu tilliti til tengsla viðkomandi við málið taldi umboðsmaður ekki tilefni til að gera athugasemdir við viðbrögð hennar eða svör.

  

Umboðsmaður lauk málinu með bréfi, dags. 15. september 2022.

  

  

Vísað er til kvörtunar yðar 16. ágúst sl. yfir starfsháttum fjölmiðlanefndar. Nánar tiltekið lýtur kvörtunin að því að óeðlilegur dráttur hafi orðið á afgreiðslu nefndarinnar vegna ábendinga yðar í gegnum tíðina.

Á meðal þess sem þér nefnið í kvörtuninni er að þér hafið sent fjölmiðlanefnd erindi 26. nóvember 2021 vegna ætlaðra brota tiltekins fjölmiðils gegn ákvæðum laga nr. 138/2011, um fjölmiðla, og barst yður staðfesting á móttöku erindisins samdægurs. Af samskiptum yðar við nefndina er ljóst að þér hafið á liðnum mánuðum ítrekað óskað upplýsinga um stöðu málsins. Ekki verður annað ráðið en að fjölmiðlanefnd hafi almennt svarað þeim og staðfest móttöku þeirra þegar tilefni hefur verið til, sbr. tölvubréf 13. apríl sl., þar sem þér voruð upplýstir um að téðar ábendingar yðar væru til skoðunar. Þá er og ljóst að starfsmaður fjölmiðlanefndar vakti athygli yðar á því í tölvubréfi 14. júlí sl. að þér væruð ekki aðili að þeim málum, sem mögulega væru sprottin af ábendingum yðar, og af þeim sökum yrðu yður ekki veittar upplýsingar um framgang slíkra mála.

Um starfssvið fjölmiðlanefndar er fjallað í 10. gr. laganna en þar segir m.a. að nefndin fylgist með því að fjölmiðlaveitur fari að fyrirmælum laganna, taki ákvarðanir í málum samkvæmt þeim og beiti viðurlögum þegar við á, sbr. a-lið 2. mgr. Þá segir m.a. í 11. gr. laganna að fjölmiðla­nefnd taki ákvörðun um það hvort erindi sem berst henni gefi nægar ástæður til meðferðar en í 4. gr. starfsreglna fjölmiðlanefndar er vikið nánar að því mati. Þar kemur fram að ef erindi frá aðila uppfyllir kröfur samkvæmt 3. gr. taki fjölmiðlanefnd ákvörðun um hvort erindið gefi nægar ástæður til að hefja málsmeðferð. Við mat á því skal fjölmiðlanefnd hafa hliðsjón af málefnalegum sjónarmiðum sem þykja skipta máli í hverju tilviki fyrir sig. Í lögunum er ekki gert ráð fyrir að fjölmiðlanefnd taki allar ábendingar sem henni kunna að berast til frekari athugunar heldur hafi stjórnvaldið í þeim efnum nokkuð svigrúm til mats, þ. á m. til að forgangsraða málum. Hefji fjölmiðlanefnd slíka athugun kann hún loks að leiða til þess að nefndin telji ástæðu til að beita lögbundnum valdheimildum sínum gagnvart þeim eftirlitsskylda aðila sem í hlut á en almennt er gengið út frá því sem meginreglu að sá sem ber upp ábendingu eða kvörtun við eftirlitsstjórnvald eigi ekki aðild að máli sem kann að rísa í kjölfarið. Með vísan til framan­greinds og þess hvernig hlutverk fjölmiðlanefndar er að þessu leyti afmarkað í lögum tel ég mig ekki hafa forsendur til að gera athugasemdir við framangreinda afstöðu þess til erinda yðar.

Að virtum svörum nefndarinnar og að teknu tilliti til tengsla yðar við umrætt mál er þó rétt að taka fram að það er óskráð regla stjórnsýsluréttar að hver sá sem ber upp skriflegt erindi við stjórnvald á rétt á að fá skriflegt svar við því nema erindið beri með sér að svara sé ekki vænst. Í því felst nánar tiltekið að stjórnvaldinu er skylt að bregðast við erindinu þannig að borgarinn búi ekki í óvissu um hvort það hafi verið móttekið, sé til meðferðar eða að niðurstaða hafi fengist. Í reglunni felst á hinn bóginn ekki að stjórnvöldum sé skylt að svara efnislega öllum almennum erindum sem þeim berast heldur ræðst réttur aðila að þessu leyti af öðrum réttarreglum, svo sem leiðbeiningarreglu stjórn­sýslu­réttar, vönduðum stjórnsýsluháttum sem og af eðli erindisins. Í ljósi framangreinds og eftir að kynnt mér erindi yðar til nefndarinnar tel ég ekki tilefni til að gera athugasemdir við það hvernig hún hefur brugðist við þeim.

Hvað varðar meðferð annarra mála hjá fjölmiðlanefnd fæ ég ekki betur séð en að þeirra sé getið í dæmaskyni um téða starfshætti nefndarinnar. Af því tilefni árétta ég að slíkum almennum ábendingum til umboðsmanns Alþingis er haldið til haga og kunna þær að verða umboðsmanni tilefni til frumkvæðisathugunar í samræmi við 5. gr. laga nr. 85/1997.    

Með vísan til framangreinds lýk ég athugun minni á kvörtun yðar, sbr. 1. mgr. 10. gr. laga nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis.