Tafir hjá stjórnvaldi á afgreiðslu máls.

(Mál nr. 11825/2022)

Kvartað var yfir því að málsmeðferðartími stjórnsýslukæru hjá dómsmálaráðuneytinu vegna ákvarðana sýslumanns gæti orðið allt að níu mánuðir.  

Ekki varð annað ráðið en þetta væri almenn athugasemd fremur en kvörtun vegna málsins og lét umboðsmaður því málinu lokið.

  

Umboðsmaður lauk málinu með bréfi, dags. 13. september 2022.

  

  

Vísað er til kvörtunar yðar 29. ágúst sl. yfir því að málsmeðferðartími stjórnsýslukæra hjá dómsmálaráðuneytinu vegna ákvarðana sýslumanns geti orðið allt að níu mánuðir frá dagsetningu hennar. Í því sambandi vísið þér til svars ráðuneytisins frá 10. ágúst sl. við stjórnsýslukæru yðar frá 14. maí sl. þar sem fram kemur að vegna fjölda mála hjá ráðuneytinu megi búast við að afgreiðsla málsins geti dregist nokkuð. Að öllu óbreyttu sé niðurstöðu að vænta innan sex mánaða.

Þótt í kvörtun yðar sé vísað til samskipta yðar við dómsmálaráðuneytið í tilefni af stjórnsýslukæru yðar fæ ég ekki annað ráðið, eins og hún er sett fram, en að um sé að ræða almenna athugasemd við stjórnsýslu ráðuneytisins að þessu leyti frekar en eiginlega kvörtun vegna máls þíns. Af því tilefni tek ég fram að samkvæmt 2. mgr. 4. gr. laga nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis, getur hver sá sem telur einhvern þann sem lögin taka til hafa beitt sig rangsleitni kvartað af því tilefni til umboðsmanns. Af framangreindu ákvæði laga nr. 85/1997 leiðir að starfsemi stjórnvalda verður að öllu jöfnu ekki tekin til almennrar athugunar hjá umboðsmanni Alþingis á grund­velli kvörtunar en farið er yfir almennar ábendingar sem umboðsmanni berast með tilliti til þess hvort tilefni sé til að umboðsmaður taki atriði sem koma fram í þeim til athugunar að eigin frumkvæði. Verði málefnið tekið til athugunar er almennt ekki upplýst um það sérstaklega heldur er tilkynnt um athugunina á heimasíðu embættisins, www.umbodsmadur.is.

Með vísan til 1. mgr. 10. gr. laga nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis, læt ég málinu hér með lokið.