Kvartað var yfir úrskurði úrskurðarnefndar velferðarmála sem staðfesti ákvörðun Reykjavíkurborgar um að synja umsókn um styrk til greiðslu fyrir dvöl á Heilsustofnun Náttúrulækningafélags Íslands.
Með tilliti til atvika málsins og í ljósi laga og reglna fékk umboðsmaður ekki séð að afgreiðsla stjórnvaldanna á málinu hefði verið í ósamræmi við lög. Ekki væru því forsendur til að gera athugasemdir.
Umboðsmaður lauk málinu með bréfi, dags. 20. september 2022.
I
Vísað er til kvörtunar yðar 15. mars sl. sem lýtur að úrskurði úrskurðarnefndar velferðarmála 10. mars sl. í máli nr. 63/2022. Með úrskurðinum staðfesti nefndin ákvörðun Reykjavíkurborgar 29. september sl. um að synja umsókn yðar um styrk til að greiða fyrir dvöl yðar á Heilsustofnun Náttúrulækningafélags Íslands í Hveragerði.
Þér höfðuð áður kvartað til umboðsmanns 20. nóvember sl. vegna úrskurðar úrskurðarnefndar velferðarmála 16. september sl. í máli nr. 294/2021. Í þeim úrskurði staðfesti nefndin ákvörðun Reykjavíkurborgar 19. maí 2021 um synjun við umsókn yðar um styrk frá Reykjavíkurborg vegna sömu dvalar. Eins og yður er kunnugt um var talið rétt að bíða með að taka kvörtun yðar til frekari athugunar þar til niðurstaða nefndarinnar lægi fyrir í máli nr. 63/2022 líkt og fram kom í bréfi til yðar 17. janúar sl.
Í ljósi framangreinds snýr athugun mín nú að báðum framangreindum úrskurðum nefndarinnar. Gögn málanna bárust frá nefndinni 11. apríl sl.
II
Samkvæmt 1. mgr. 2. gr. laga nr. 85/1997 er hlutverk umboðsmanns að hafa í umboði Alþingis eftirlit með stjórnsýslu ríkis og sveitarfélaga á þann hátt sem nánar greinir í lögum og tryggja rétt borgaranna gagnvart stjórnvöldum landsins. Skal hann gæta þess að jafnræði sé í heiðri haft í stjórnsýslunni og að hún fari að öðru leyti fram í samræmi við lög, vandaða stjórnsýsluhætti tilgreindar siðareglur. Samkvæmt lögum nr. 40/1991, um félagsþjónustu sveitarfélaga, skulu sveitarfélög sjá um að veita íbúum þjónustu og aðstoð samkvæmt lögunum og tryggja að íbúar þeirra geti séð fyrir sér og sínum, sbr. 1. mgr. 12. gr. laganna. Í VI. kafla laganna er gert ráð fyrir því að sveitarfélög geti veitt íbúum sínum fjárhagsaðstoð og sveitarstjórn setji nánari reglur um framkvæmd slíkrar aðstoðar að fengnum tillögum félagsmálanefndar sem metur svo þörf og ákveður fjárhagsaðstoð til einstaklinga í samræmi við reglur sveitarstjórnar, sbr. 1. og 2. mgr. 21. gr. laganna. Reglur um fjárhagsaðstoð frá Reykjavíkurborg eru settar á grundvelli 21. gr. laga nr. 40/1991.
Samkvæmt framangreindu gera lög nr. 40/1991 ráð fyrir því að sveitarstjórnir setji sér reglur um framkvæmd fjárhagsaðstoðar og að félagsmálanefnd meti þörf og ákveði fjárhagsaðstoð til einstaklinga í samræmi við þær reglur. Gera lögin þannig ráð fyrir að sveitarfélögum sé veitt ákveðið svigrúm við nánari útfærslu á því hvernig standa skuli að fjárhagsaðstoð til einstaklinga og fjölskyldna. Þegar löggjafinn hefur með þessum hætti falið stjórnvöldum mat á tilteknum atriðum er það almennt ekki hlutverk umboðsmanns Alþingis, samkvæmt þeim lögum sem um hann gilda, að leggja sjálfstætt mat á þau. Athugun umboðsmanns í slíkum tilvikum beinist því fyrst og fremst að því hvort stjórnvöld hafi reist mat sitt á málefnalegum sjónarmiðum og forsvaranlegu mati á gögnum málsins auk þess hvort gætt hafi verið að réttum málsmeðferðarreglum.
III
1
Niðurstaða Reykjavíkurborgar, sem úrskurðarnefndin staðfesti, í máli nr. 294/2021 var reist á þágildandi 24. gr. reglna um fjárhagsaðstoð frá Reykjavíkurborg sem tóku gildi 1. janúar 2011 þar sem fram kom að heimilt væri að veita einstaklingum, hjónum eða sambúðarfólki lán eða styrk vegna mikilla fjárhagslegra og félagslegra erfiðleika, að uppfylltum öllum skilyrðum sem fram komu í a- til e- lið ákvæðisins. Skilyrði a- liðar ákvæðisins kvað á um að umsækjandi þyrfti að hafa fengið fjárhagsaðstoð til framfærslu samkvæmt reglunum undanfarna sex mánuði. Í forsendum úrskurðarins kom fram að ljóst væri af gögnum málsins að þér uppfylltuð ekki umrætt skilyrði. Þegar af þeirri ástæðu uppfylltuð þér ekki skilyrði 24. gr. reglnanna, auk þess sem ekki yrði séð að umsóknin uppfyllti önnur skilyrði reglna um fjárhagsaðstoð frá Reykjavíkurborg. Staðfesti nefndin því ákvörðun Reykjavíkurborgar.
Með úrskurði í máli nr. 63/2022 staðfesti nefndin synjun Reykjavíkurborgar á umsókn yðar um styrk á grundvelli a-liðar 27. gr. reglna um fjárhagsaðstoð frá Reykjavíkurborg sem tóku gildi 1. apríl 2021 þar sem fram kemur að heimilt sé að veita sérstaka aðstoð í málum þar sem verið sé að veita markvissan stuðning. Aðstoðin miði að því að viðhalda árangri sem náðst hafi með úrræðum og/eða stuðningsvinnu. Skilyrði sé að umsækjandi eigi í miklum félagslegum erfiðleikum og einstaklingsáætlun hafi verið gerð. Í forsendum úrskurðarins kom fram að það væri mat nefndarinnar að gögn málsins bentu ekki til þess að málefni yðar teldust hafa verið í markvissu ferli í skilningi a- liðar 27. gr. reglnanna. Því yrði ekki séð að í styrknum fælist aðstoð sem miðaði að því að viðhalda árangri sem náðst hefði með úrræðum og/eða stuðningsvinnu. Uppfylltuð þér því ekki skilyrði ákvæðisins. Staðfesti nefndin ákvörðun Reykjavíkurborgar.
Eftir að hafa kynnt mér gögn málanna og í ljósi þess sem að framan hefur verið rakið, m.a. um ákvæði laga nr. 40/1991 og það svigrúm sem lög gera ráð fyrir að veita verði sveitarfélögum við nánari útfærslu á því hvernig standa skuli að fjárhagsaðstoð til handa einstaklingum og fjölskyldum, fæ ég ekki séð að synjanir Reykjavíkurborgar við umsóknum yðar um styrk, eða úrskurðir úrskurðarnefndar velferðarmála sem staðfestu þær, hafi verið í ósamræmi við lög nr. 40/1991, reglur settar samkvæmt þeim eða byggst á ómálefnalegum sjónarmiðum. Því eru ekki forsendur til athugasemda af minni hálfu vegna fyrrgreindra úrskurði úrskurðarnefndar velferðarmála.
Með vísan til framangreinds lýk ég athugun minni á kvörtun yðar, sbr. 1. mgr. 10. gr. laga nr. 85/1997.