Skipulags- og byggingarmál.

(Mál nr. 11616/2022)

Kvartað var yfir úrskurði úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála sem hafnaði að fella úr gildi ákvörðun byggingarfulltrúa Seltjarnarnesbæjar um að fallast ekki á beitingu þvingunarúrræða. 

Ekki varð annað ráðið en fullnægjandi mat hefði verið lagt á kröfu viðkomandi á grundvelli viðeigandi lagaákvæða og þeirra gagna sem fyrir lágu og því ekki forsendur til að gera athugasemdir við niðurstöðu nefndarinnar. Benti umboðsmaður viðkomandi á að e.t.v. mætti leita til dómstóla með ágreiningsefnið.

  

Umboðsmaður lauk málinu með bréfi, dags. 21. september 2022.

  

  

Vísað er til kvörtunar yðar 21. mars sl., sem lýtur að úrskurði úr­skurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála í máli nr. 118/2021 frá 11. mars 2022. Með úrskurðinum hafnaði nefndin kröfu yðar um að felld yrði úr gildi ákvörðun byggingarfulltrúa Seltjarnarnesbæjar frá 30. nóvember 2021. Í tilefni af kvörtuninni var úrskurðarnefndinni ritað bréf, 30. maí sl., þar sem óskað var eftir gögnum málsins. Umbeðin gögn bárust 1. júní sl.

Í úrskurði nefndarinnar er rakið að þér hafið leitað til hennar vegna þeirrar afgreiðslu byggingarfulltrúa að aðhafast ekki frekar vegna lokunar stígs sem liggur milli húsa [...] á Seltjarnarnesi. Fyrir nefndinni hefðuð þér m.a. gert þá kröfu að aðgengi að stígnum yrði óheft til að tryggja aðgang að sjávar­síðunni og taldi nefndin að í kröfunni fælist að beitt yrði þvingunar­úrræðum í samræmi við 2. mgr. 55. gr. laga nr. 160/2010, um mannvirki. Afstaða byggingarfulltrúa hefði byggst á því að kvöð á stígnum byggði á einkaréttarlegu samkomulagi og varðaði ekki með beinum hætti skipulag sveitarfélagsins. Byggingarfulltrúi taldi sig því ekki hafa lagastoð til að beita þvingunarúrræðum til að knýja á um að kvöðinni yrði framfylgt.

Í úrskurðinum kemur m.a. fram að ágreiningur um umferðarrétt og inntak hans ætti ekki undir nefndina nema í þeim tilfellum þegar skipulagskvöð væri sett í deiliskipulag um slíkan rétt í samræmi við 2. gr. skipulagslaga nr. 123/2010 og viðeigandi ákvæði skipulags­reglu­gerðar nr. 90/2013 þar sem kveðið er á um að skipulagskvaðir séu kvaðir sem lagðar séu á einstakar lóðir eða landsvæði í deiliskipulagi, svo sem um umferðarrétt. Í gildandi deiliskipulagi frá árinu 2013 væri að finna slíka skipulagskvöð um umferð um stíginn milli umræddra húsa og því hefði annmarki verið á rökstuðningi ákvörðunar byggingarfulltrúa að þessu leyti sem leiddi þó ekki til ógildingar hennar að mati nefndarinnar. Í því sambandi leit nefndin til þess að sú lokun á stígnum sem fyrst og fremst væri deilt um í málinu, þ.e. óheftur aðgangur að sjávarsíðunni, takmarkaði ekki þá aðkomu sem skipu­lags­kvöðin næði til. Auk þess var það mat nefndarinnar að tilvist lokunarinnar varðaði ekki almanna- eða öryggishagsmuni. Er í úr­skurðinum áréttað að ágreiningur um umferðarrétt og inntak hans á grund­velli einkaréttarlegra samninga heyri ekki undir nefndina.

Eftir að hafa kynnt mér kvörtun yðar, úrskurð nefndarinnar og önnur fyrirliggjandi gögn, þ.á m. gögn sem þegar lágu fyrir vegna fyrri mála yðar hjá umboðsmanni, sbr. mál nr. 10310/2019, 10433/2020 og 11304/2021, tel ég ekki forsendur af minni hálfu til að gera athugasemdir við fyrrgreinda niðurstöðu nefndarinnar eða forsendur enda fæ ég ekki annað ráðið en að fullnægjandi mat hafi verið lagt á kröfu yðar á grundvelli viðeigandi lagaákvæða og þeirra gagna sem lágu fyrir. Í því sambandi hef ég í huga að ekki verður annað ráðið af gögnum málsins en að sá umferðarréttur sem téð skipulagskvöð felur í sér sé fyrir hendi. Verður því að líta svo á að sá ágreiningur sem varð tilefni kæru yðar til úrskurðarnefndarinnar, og síðar kvörtun til umboðs­manns, um óheft aðgengi að sjávarsíðunni um téðan stíg sé fyrst og fremst einkaréttarlegs eðlis og snúist í grunninn um túlkun á efni og gildi löggerninga. Af því tilefni tek ég fram að samkvæmt 1. og 2. mgr. 3. gr. laga nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis, nær starfssvið umboðs­­manns til stjórnsýslu ríkis og sveitarfélaga auk starfsemi þeirra einkaaðila sem hafa að lögum fengið opinbert vald til að taka ákvarðanir um rétt eða skyldu manna í skilningi 2. mgr. 1. gr. stjórn­sýslulaga nr. 37/1993. Sá ágreiningur fellur því utan starfssviðs umboðsmanns Alþingis. Af þessu tilefni bendi ég yður á þann möguleika að leita til almennra dómstóla en tek þó fram að með þeirri ábendingu hef ég enga afstöðu tekið til þess hvernig slíku máli myndi lykta fyrir dómi.

Með vísan til framangreinds lýk ég athugun minni á kvörtun yðar, sbr. 1. mgr. 10. gr. laga nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis.