Skipulags- og byggingarmál.

(Mál nr. 11679/2022)

Kvartað var yfir ákvörðun innviðaráðherra um að synja staðfestingu á breytingum á aðalskipulagi Dalabyggðar vegna vindorkuvera.  

Með tilliti til rökstuðnings ráðuneytisins og breytinga sem sveitarfélagið gerði á skipulagi í samræmi við athugasemdir Skipulagsstofnunar og ráðherra  taldi umboðsmaður ekki nægilegt tilefni til að taka kvörtunina til frekari meðferðar.

   

Umboðsmaður lauk málinu með bréfi, dags. 22. september 2022.

  

  

Vísað er til kvörtunar yðar frá 6. maí sl., fyrir hönd A ehf., sem lýtur að ákvörðun innviðaráðherra í máli IRN22011084 frá 5. apríl sl. Samkvæmt ákvörðunarorði synjaði ráðherra um staðfestingu á breytingum á aðalskipulagi sveitarfélagsins Dalabyggðar varðandi vindorkuver að Hróðnýjarstöðum og Sólheimum. Í tilefni af kvörtuninni var innviðaráðuneytinu ritað bréf, 27. maí sl., þar sem óskað var eftir gögnum málsins. Umbeðin gögn bárust 21. júní sl.

Í 1. mgr. 10. gr. laga nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis, kemur fram að telji umboðsmaður þegar í upphafi að kvörtun gefi ekki nægilegt tilefni til nánari athugunar eða uppfylli ekki skilyrði laganna til frekari meðferðar skuli hann tilkynna þeim sem kvartað hefur þá niðurstöðu. Á grundvelli þessarar lagagreinar, sbr. einnig 5. gr. laganna, hefur umboðsmaður Alþingis töluvert svigrúm til að ákveða hvaða mál hann telur tilefni til að fjalla nánar um og þá með hvaða hætti, m.a. með tilliti til mikilvægis þeirra, fjölda mála og þeirra takmörkuðu fjárveitinga og mannafla sem hann hefur til umráða. Hér kann einnig að skipta máli hvort og þá hvaða líkur séu til þess að umboðsmaður muni beina tilmælum til stjórnvalds sem kunna að hafa þýðingu fyrir réttarstöðu þess sem hefur kvartað til embættisins.

Um aðalskipulag er fjallað í VII. kafla skipulagslaga nr. 123/2010. Sveitarstjórn ber ábyrgð á að gert sé aðalskipulag fyrir sveitarfélag og er aðalskipulag háð samþykki sveitarstjórnar og staðfestingu Skipulagsstofnunar og ráðherra í þeim tilvikum sem hann skal staðfesta aðalskipulag, sbr. 2.-3. mgr. 29. gr. laganna. Nánar er fjallað um afgreiðslu og gildistöku aðalskipulags í 32. gr. laganna. Um breytingar á aðalskipulagi er því næst fjallað í 36. gr. laganna, en þar er í 1. mgr. tekið fram að telji sveitarstjórn að gera þurfi breytingar á gildandi aðalskipulagi fari um málsmeðferð eins og um gerð aðalskipulags sé að ræða.

Í ákvörðun innviðaráðuneytisins var meðferð málsins rakin og þeirri afstöðu lýst að áformuð vindorkuver að Hróðnýjarstöðum og Sólheimum féllu undir gildissvið laga nr. 48/2011, um verndar- og orkunýtingaráætlun. Rakti ráðuneytið því næst tiltekin ákvæði laganna og skipulagsreglugerðar nr. 90/2013, og tók undir með Skipulagsstofnun, sem hafði sent ráðherra tillöguna á grundvelli 4. mgr. 32. gr. laga nr. 123/2010, að forsendur þess að unnt væri að staðfesta umræddar breytingar á aðalskipulagi Dalabyggðar væru þær að fyrirhuguð iðnaðarsvæði yrðu jafnframt skilgreind sem varúðarsvæði í samræmi við ákvæði laga nr. 48/2011 og reglugerðar nr. 90/2013. Synjaði ráðuneytið því um staðfestingu breytinganna.

Nú liggur fyrir að eftir að kvörtun yðar barst umboðsmanni færði sveitarfélagið skipulagsgögn til samræmis við athugasemdir Skipulagsstofnunar og ákvörðun ráðherra með þeim hætti að iðnaðarsvæðin eru nú skilgreind sem varúðarsvæði, líkt og fram kemur í fundargerð sveitarstjórnar Dalabyggðar frá 16. júní sl., en fundargerðir eru birtar opinberlega á heimasíðu sveitarfélagsins. Í sömu fundargerð kemur jafnframt fram að sveitarstjórnin hafi samþykkt breytingar á aðalskipulagi sveitarfélagsins vegna vindorkuvers í landi Sólheima og Hróðnýjarstaða, og breytingarnar taki gildi með birtingu auglýsinga í B-deild Stjórnartíðinda að lokinni yfirferð Skipulagsstofnunar. Samkvæmt auglýsingum nr. 835/2022 og 836/2022 í B-deild Stjórnartíðinda staðfesti Skipulagsstofnun breytingarnar á aðalskipulagi Dalabyggðar 29. júní sl.

Af framangreindu verður því ekki annað ráðið en að sveitarstjórn Dalabyggðar, á grundvelli þess lögbundna hlutverks sem hún hefur við gerð og afgreiðslu aðalskipulags, hafi ákveðið að una við ákvörðun ráðherra og gera breytingar á aðalskipulagi í samræmi við þær athugasemdir sem fram komu af hálfu Skipulagsstofnunar og innviðaráðherra. Með vísan til framangreinds og í ljósi þess hvernig mál þetta er vaxið, þ.e. þá sérstaklega í ljósi framvindu málsins í kjölfar þess að ákvörðun ráðherra lá fyrir og með tilliti til þess að nú liggur fyrir að breytingar á umræddu aðalskipulagi vegna iðnaðarsvæða fyrir vindorkuver hafa verið samþykktar af sveitarstjórn og staðfestar af Skipulagsstofnun, tel ég ekki nægjanlegt tilefni til að taka kvörtun yðar til meðferðar. Þá verður ekki ráðið af kvörtun yðar að gerðar séu athugasemdir við breytt aðalskipulag eins og það liggur nú fyrir eða því haldið fram að afgreiðsla og gildistaka þess hafi ekki verið í samræmi við lög.

Ég tek fram að með framangreindri niðurstöðu hefur engin afstaða verið tekin til þeirra efnisatriða sem fram koma í kvörtun yðar er varða þá efnislegu niðurstöðu sem fram kemur í ákvörðun ráðherra.

Með vísan til framangreinds lýk ég athugun minni á kvörtun yðar, sbr. 1. mgr. 10. gr. laga nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis.